Borgfirðingabók - 01.12.2009, Side 25
25Borgfirðingabók 2009
Eskiholti (bróðir Ásmundar myndhöggvara) var fenginn til þess, en
þeir bræður flestir voru miklir hagleiksmenn. Taðan úr heygarðinum
var alltaf sett í meisa og borin þannig í fjósið. Meisar voru einkum
af tveimur stærðum, kýrmeis og tveggja kúa meis, líka mun minni
ábætismeis.
Fóðurbæti var farið að gefa fé, fyrst síld sem var brytjuð niður og
gefin á garðann, seinna varð síldarmjöl aðal-fóðurbætirinn en aldrei
gefið kúm. Þeim var gefið maísmjöl eða rúgmjöl og kartöflusmælki.
Á veturna fóru menn í húsin með steinolíuluktir til að lýsa sér við
gegningarnar. Alltaf þurfti að fá úr kaupstaðnum olíufat, stáltunnu
sem var höfð á stokkum utanhúss. Þurfti töluvert yfir veturinn á
ljósfæri utanhúss og innan.
Eftir að Þorsteinn fór alfarinn að heiman 1929 og Magnús fór
að vera í Stafholti á veturna jókst álagið á Jón við gegningarnar.
Þá var farið að ráða vetrarmenn honum til aðstoðar. Sá fyrsti var
Sigurður Sigurðsson frá Veiðilæk (seinna mágur Jóns).Hann var
mörgum mannkostum búinn, jafnlyndur og æðrulaus, verkmaður
ágætur og lagtækur. Okkur varð vel til vina, meðal annars smíðaði
hann handa mér leikfang sem ég hafði lengi mikla ánægju af. Einn
vetur var Lói (Leó Magnússon) frá Grafarkoti. Hann var gaman-
samur og hláturmildur. Seinna voru Jón Bjarnason frá Einifelli
(lengi til heimilis á Hvassafelli), að mörgu leyti sérkennilegur, og
Ási (Ásmundur Eysteinsson) frá Höfða í Þverárhlíð (seinna bóndi
á Högnastöðum). Hann var ársmaður, var líka sumarið eftir. Fyrir
áhrif frá Jóni Snorrasyni, sem var með markafróðustu mönnum, fór
Ásmundur að fá þann áhuga á fjármörkum, sem heita má að hann
yrði landsfrægur fyrir. Á Laxfossi voru til margar markaskrár sem
Ásmundur las spjaldanna milli. Hann hafði alveg einstakt sjónminni,
var ekki einasta glöggur á fé og minnugur á mörk, heldur þekkti hann
hesta og jafnvel hunda þeirra sem fóru um veginn.
Ef innistaða var svo að féð komst ekki í vatn þurfti að flytja vatn
í húsin. Það var flutt í stömpum á kerrum og jafnvel hestasleða þegar
færð var þyngst. Ég man varla til að sleðinn væri notaður til annars.
Féð varð þorstlátt af síldinni og síldarmjölinu. Sums staðar var borinn
snjór í húsin til að slökkva þorsta fjárins en aðrir höfðu ótrú á því,
og man ég ekki til að það væri nokkurn tíma gert á Laxfossi. Að
sjálfsögðu þurfti alltaf að flytja vatn í fjósið handa kúnum, en þær eru
mjög þorstlátar sem kunnugt er.