Borgfirðingabók - 01.12.2014, Blaðsíða 21
21
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2014
á Hofs stöðum í Stafholtstungum og var þekktur hestamaður og hag-
yrð ingur. Magnús var léttur í máli og ágætlega hagmæltur. Stapasel
er varla jörð til að framfleyta ellefu manna fjölskyldu, en ég held að
séð hafi verið fyrir því að fjölskyldan liði ekki skort. Börn Magnúsar
og Sigríðar voru mjög dugleg að bjarga sér. Ein dætranna varð mikil
ævintýrakona, fluttist til Argentínu með þarlendum skákmeistara sem
hér keppti á skákmóti, giftist þar stórríkum hóteleiganda af evrópskri
aðalsætt og seinna auðugum bandarískum arkitekt. Hún má víst muna
tímana tvenna. Hún er önnur tveggja bændadætra úr Stafholtstungum
sem giftust háættuðum Evrópumönnum. Hin var Þuríður Grimaldi frá
Arnarholtskoti sem er löngu komið í eyði eins og Stapasel.
Til nágranna verður að telja þá sem dvöldust á sumrin í veiðihúsinu
við fossinn og sumarbústað jarðeigendanna, „Húsinu“, eins og það var
nefnt í daglegu tali. Samskipti voru talsverð á sumrin, bæði við fjölskyldu
jarðeigendanna, Friðriks Jónssonar kaupmanns og konu hans, frú Mörtu
Jónsson Bjarnþórsdóttur (hún var eina konan sem ég heyrði alltaf titlaða
þannig fyrir utan frú Vigdísi konu séra Gísla í Stafholti). Börn þeirra,
Sturla og Sigþrúður, komu oft heim í sendiferðir og auk þess lékum við
Sturla okkur stundum saman. Þá voru samskipti mikil við starfsfólkið
í húsunum, vinnustúlkurnar í „Húsinu“ og matráðskonur og túlka
veiði mannanna. Varð stundum úr þessu varanlegur kunningsskapur
við fólkið heima. Meðal þessa fólks var Guðbjörg sem Englendingarnir
köll uðu „Merry“ eða „Mary“ og var lengi matráðskona hjá þeim, mjög
glaðlynd og gamansöm, og Halldóra Gísladóttir, mikil myndarkona, sem
seinna varð húsfreyja á Sleggjulæk, einnig Þórarinn Sveinsson, seinna
læknir í Reykjavík, og Margrét Tómasdóttir sem varð hjúkrunarkona í
Reykjavík.
Almennt má segja að samkomulag við nágranna væri eins og best
verð ur á kosið og vissi ég aldrei til að upp kæmi neinn nágrannakrytur
út af ágangi fénaðar eða neinu þess háttar. Aftur á móti þótti sjálfsagt að
gera nágrönnunum hvers kyns greiða svo sem aðstoð við aðkallandi verk
og var aldrei ætlast til endurgjalds af neinu tagi.