Fréttir - Eyjafréttir - 21.09.2022, Qupperneq 19
21. september 2022 | | 19
Hulda Ástvaldsdóttir
Hulda Ástvaldsdóttir starfar í dag
hjá Idunn Seafoods eftir að hafa
starfað í Vinnslustöðinni í 37 ár
en hún ætlaði upphaflega bara að
koma í mánuð eða tvo.
Hulda er fædd og uppalin í
Keflavík en þegar hún kom til
vinkonu sinnar á vertíð til Eyja
árið 1985 kynntist hún eiginmanni
sínum, Ísleifi Arnari Vignissyni,
á Skansinum og hefur búið hér
síðan þá. Hulda man það eins og
það eins og það hafi gerst í gær
þegar hún hóf störf í Vinnslustöð
Vestmannaeyja. ,,Ég byrjaði þann
13. mars 1985.”
Blaðamaður hafði orð á því
hversu nákvæmlega hún myndi
þetta en þá stóð ekki á svörum.
,,Daginn áður en ég byrjaði, 12.
mars hafði orðið sprengjuhótun í
Vinnslustöðinni. Öllu starfsfólk-
inu var smalað saman út í rútur
og beið þar á meðan leitað var að
sprengjunni,” sagði Hulda.
Líkar vel
Hulda breytti um starfsvettvang á
árinu þegar hún færði sig yfir til
Idunn Seafoods, dótturfyrirtækis
Vinnslustöðvarinnar. Þar er verið
að niðursjóða þorsklifur í dósum.
Hulda mætir hálf sjö alla morgna
til ellefu og þrífur það sem þarf
að þrífa og þvær vinnufatnað
starfsmanna.
,,Mér líkar rosalega vel á nýja
staðnum, ég er frjálsari, skemmti-
legt fólk, þetta er minni vinnu-
staður og því töluvert færra fólk
hér en líkt og í Vinnslustöðinni er
rosalega gott fólk að vinna hér.
Við náum vel saman þó að flestir
séu af erlendu bergi brotnir en ég
og Dagur Arnarsson erum einu
Íslendingarnir í Idunni.”
Miklar breytingar
Hulda segir að miklar breytingar
hafi átt sér stað í geiranum síðan
hún hóf störf. ,,Ég var búin að
prófa allt hjá Vinnslustöðinni
nema nýja kerfið sem notað er í
dag á vöktunum. Það hefur allt
breyst svakalega mikið. Það var
miklu skemmtilegra í gamla daga.
Starfsfólkið var miklu meira
saman, eins og á borðunum í den
þegar ég var að byrja, það var
alltaf gaman í vinnunni, alltaf
stuð, eitthvað sem kom uppá, það
er miklu verksmiðjuvænna í dag,”
sagði Hulda og bætti við greinin
hefði þróast mikið á þessum tíma.
,,Í dag er allt orðið mikið hraðara,
það er miklu meira pælt í hlutum
og þá sérstaklega gæðamálum.
Hér áður fyrr varstu varla með
húfu á hausnum en í dag eru kom-
in hárnet fyrir skegg. Hreinlæti
er orðið miklu meira og öðruvísi.
Það er ekkert hægt að líkja þessu
saman,” sagði Hulda og hló.
,,Það var mjög gott að starfa hjá
Vinnslustöðinni annars hefði ég
verið löngu farin þaðan. Góðir
vinnuveitendur og yfirmenn sem
reyna að taka tillit til starfsfólks-
ins.”
Ragnhildur Þorbjörg
Svansdóttir
kom á vertíð til Vestmannaeyja
17 ára gömul árið 1990. Planið
var að stoppa í þrjá mánuði og
safna sér pening á vertíð. Plönin
breyttust þegar Ragnhildur kynnt-
ist eiginmanni sínum Vilhjálmi
Vilhjálmssyni og er Ragnhildur
hér enn þrjátíu og tveimur árum
síðar, orðin verksmiðjustjóri hjá
Marhólmum.
Ragnhildur og Vilhjálmur eiga
þrjú börn en þau heita Sigurður
Ingi, Sigurbjörg Jóna og Svanur
Páll og eru barnabörnin orðin
þrjú, Andrea Inga, Þorbjörg Sara
og Hákon Dagur. Ragnhildur vann
við fiskvinnslu fyrstu mánuðina
en endaði svo sem verslunarstjóri
í tuttugu ár. ,,Ég fór eftir það í tvö
ár til Vinnslustöðvarinnar en síðan
var mér boðið starf hjá Marhólm-
um. Þar hef ég nú unnið á tíunda
ár og starfa þar sem verksmiðju-
stjóri.”
Marhólmar er fyrirtæki sem
sérhæfir sig í fullvinnslu úr sjávar-
fangi sem landað er í Vestmanna-
eyjum. Í dag einbeitir fyrirtækið
sér að fullvinnslu hrogna, einkum
loðnuhrogna og hrognum úr
bolfiski. ,,Sem verksmiðjustjóri þá
sé ég um allan daglegan rekstur
og stýri framleiðslu fyrirtækisins
í samráði við mína yfirmenn. Eins
vinn ég mjög þétt með þeim í allri
vöruþróun. Þá eru starfsmanna-
málin einnig á minni könnu.
Hefðbundinn vinnudagur hjá mér
byrjar kl. sex á morgnana við
undirbúning á framleiðslu dagsins
en vinnslan hefst tíu mínútur í sjö
og lýkur deginum um klukkan
fimmtán,” sagði Ragnhildur.
Veltan tífaldast
Hlutverk Ragnhildar hjá
Marhólmum hefur breyst og
þróast umtalsvert á þessum tæpu
tíu árum sem hún hefur starfað
þar. ,,Er ég kom til starfa í febrúar
2013 vorum við ekki búin að opna
verksmiðjuna en hún var opnuð í
mars það ár. Fyrstu árin einkennd-
ust af vexti og þróun úr sprota-
fyrirtæki í fullburða rekstur. Til
að setja þessa breytingu og þróun
í samhengi þá veltu Marhólm-
ar tæplega 200 milljónum árið
2013 en í fyrra var veltan vel yfir
tveimur milljörðum og hefur því
meira en tífaldast á þessum tíma,”
sagði Ragnhildur og bætti við að
þessi tími hefði sýnt sér hversu
lifandi og skemmtilegur íslenskur
sjávarútvegur getur verið. ,,Mér
þætti gaman að sjá fleiri konur
hasla sér völl sem stjórnendur á
þeim vetvangi,” sagði Ragnhildur
að lokum.
Konur í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum:
Samantekt Gígja og Eygló