Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 06.02.2023, Blaðsíða 7
6 Framkvæmdafréttir nr. 723
1. tbl. 31. árg.
Framkvæmdafréttir nr. 723
1. tbl. 31. árg.
7
Árið 1909 var haldin í París alþjóðleg ráðstefna
um vegi og í niðurstöðum var birt mynd fjögurra
viðvörunartákna. Frummyndin sýnir táknin á hringlaga
fleti en vísbendingar eru um að fljótlega þar á eftir hafi
táknin verið komin á þríhyrndan flöt eins og er í dag.
Ef farið er hratt yfir sögu þá er það
umferðarráðstefna í Genf 1949 sem leggur grunninn
að nútíma merkjakerfinu. Í gögnum þaðan má
sjá 22 viðvörunarmerki, 18 bannmerki og nokkur
leiðbeiningamerki.
Frekari stöðlun varð svo á Vínarráðstefnunni
1968 með síðari tíma viðbótum og höfum við
Íslendingar fylgt þeim staðli að mestu án þess þó að
vera eitt af aðildarlöndunum.
Vörður og vegvísar
Í Stjórnartíðindum fyrir Ísland árið 1880 er að finna
reglugjörð fyrir hreppstjóra. Þar segir í kaflanum
„Almennar skyldur“ 23. grein: „Hreppstjóri hefur
samkvæmt nánari fyrirmælum sýslumanns umsjón
yfir fjallvegum og sýsluvegum, ferjum, brúm, vörðum,
sæluhúsum, sjávarljóskerum og öðrum merkjum eða
miðum, sem sett eru upp farmönnum til leiðbeiningar.
Verði hann þess áskynja, að slík merki hafi verið tekin
burt eða skemmd eða villumerki sett upp, ber honum
að sjá um, að gert verði sem fyrst við hin réttu merki,
en að villuvörðurnar verði rifnar og önnur villumerki
tekin niður, og er hreppsnefndin skyld að aðstoða
hann í þessu. Þar að auki ber honum að grennslast
eftir, hverjir hafi orðið sekir í slíkum afbrotum, og
senda sýslumanni skýrslu um það og aðrar aðgjörðir
sínar.“ (Stafsetning er færð til nútíma hér og hér eftir í
tilvitnunum).
Það má sjá af þessu að vörður á leiðum um
óbyggðir voru alvörumál sem þurfti að annast. Hleðsla
þeirra var vandasöm og mikilvægt að staðsetja þær
rétt. Árið 1893 skrifaði Páll Jónsson vegfræðingur
(ævisaga hans eftir Jón Helgason heitir „Orð skulu
standa“) um vegagerð á Fjarðarheiði í Austra og lýsir
vörðunum þar í löngu máli. Þar segir hann: „Vegvísari,
það er steindrangi sem stendur út úr vörðunni og
stefnir á næstu vörðu“. Þannig var hægt að fá mið á
næstu vörðu ef þoka var eða blindhríð.
Annars tíðkaðist það á ferðalögum á milli landshluta
að koma við á bæjum og fá leiðsögn um næsta áfanga.
Oft voru góðgerðir þegnar í leiðinni. Það var sú eina
vegvísun sem hægt var að fá og þótti sjálfsögð.
Í Fjallkonunni í apríl 1904 er þessi áskorun: „Enn
skal þess getið, að mælst var til, að landsstjórnin léti
hlaða vörður til vegvísis með Mosfellsheiðarvegi milli
byggða og með flutningabrautinni frá Eyrarbakka.“
En svo kom ný tækni til vegvísunar. Í Norðra
segir í desember 1910: „Góður vegvísir er nú síminn
en hægt er að fylgja honum milli sveita og yfir heiðar.“
Símalínurnar hafa sjálfsagt verið lagðar meðfram
þekktum leiðum milli bæja og byggðarlaga og gaf þá
auga leið að staurarnir reyndust þar ágæt vegvísun.
En það var kallað eftir merkjum á vegamótum.
Í Suðurlandi birtist grein í febrúar 1916 (höf. P.
Eyvindsson): „Vegvísar á gatnamótum. Það liggur í
augum uppi, hve gott það væri, ef settir væru vegvísar
á öll hin helstu vegamót á öllu landinu. Það yrði til
mikilla þæginda fyrir ferðamenn. Á vegvísunum þarf
að sjást nafn brautarinnar eða vegarins (veganna), og
hve langt sé til næsta bæjar og nafn hans. Til dæmis
ef vegvísir stæði við vegamót hjá Elliðaánum, ætti
hann að vera þríarmaður og sinn armurinn stefna eftir
hverri vegarleið. Á einum stæði: Til Reykjavíkur (beggja
megin) og vegalengdin í tölum (5,2 km) en á hinum:
Austur yfir fjall . . .Til Þingvalla . . . (vegalengdartala
fyrir aftan). Þessu líkt á öðrum aðalvegamótum út um
land. Mér finnst að heppilegra sé, að vegvísarnir séu
svartir (staur og skilti) en stafirnir sem á standa hvítir.
Í skuggsýni sést betur hvítt á svörtu og í snjódrífu
og fannhvítu sjást vegvísarnir betur tilsýndar, ef þeir
eru svartir. Getur það bjargað mannslífi, ef svo ber
undir, að hann er á ferð að vetri til í villugjörnu veðri.
Þótt vegvísar séu nauðsynlegir að vetrinum , þá eru
þeir einnig gagnlegir á sumrum, koma oft að góðu
haldi, fyrir utan það hvað þeir eru nytsamir, eru þeir
fræðandi, og koma ókunnum ferðamanni að góðu liði
á óglöggum vegum þar sem vegir skiptast, ekki síst
á fjallvegum. Menn losna við þau óþægindi að fara
afvega, af þeirri fyrirhugðu leið. Einnig geta þeir stytt
ferðamanninum leið. Hann sér ef til vill að hann getur
farið skemmri leið en hann bjóst við að fara.“
→
Mynd 3. Varða með vegvísara,
steindranga sem benti á næstu vörðu.