Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 06.02.2023, Blaðsíða 19
18 Framkvæmdafréttir nr. 723
1. tbl. 31. árg.
Framkvæmdafréttir nr. 723
1. tbl. 31. árg.
19
En það er þannig að þegar neyðarakstur þarf að
komast þá er því bjargað þó allt sitji fast?
Árni Gísli: Það er þannig í okkar áætlunum. Ef þarf að
koma bíl í forgangsakstri um veginn þá er það reynt
eins og unnt er. Þá fer tæki á undan sem getur rutt og
komið sjúkrabíl eða öðrum tækjum í forgangsakstri
áfram. Í sumum tilvikum þurfum við að leita liðsinnis
björgunarsveita. Við reynum auðvitað gera allt sem við
getum.
Í jarðgöngum höfum við gripið til þess ráðs að
loka göngum til að forgangsakstursbílar með sjúklinga
komist í gegn sem allra fyrst.
Páll, fólk verður vart við að til dæmis
Hvalfjarðargöngum er lokað nokkuð oft?
Páll Hróar: Já, eins og Árni Gísli nefndi þá er yfirleitt
alltaf lokað þegar sjúkrabíll í forgangsakstri þarf að
fara gegnum göngin. Það gerist reglulega. Svo eru það
yfirleitt bílar sem virðast sækja í að bila í göngum.
Það er þá ekki óvanalegt að það sé biðröð við
gangamunna?
Páll Hróar: Já, en biðin er yfirleitt ekki löng. Í
forgangsakstri er biðin kannski í kringum sjö til átta
mínútur.
Árni Gísli: Ég er sjálfur búinn að vera í rúmt ár hjá
Vegagerðinni og það kom mér mjög á óvart hvað við
erum að loka jarðgöngum oft. Það er alveg ótrúlegt hve
margir bílar bila í göngum, en kannski ekki svo skrítið
því það er jú landslag í jarðgöngum, það eru brattar
brekkur til dæmis í Hvalfjarðargöngum. Oft verða menn
til dæmis bensínlausir, því þegar lítið er í tönkum og bíll
fer upp bratta brekku þá færist bensínið til í tanknum
og nær ekki að dælast til vélarinnar.
Það er mjög oft sem bílar verða eldsneytislausir,
þeir ofhitna eða eitthvað hrynur af þeim. Þá eru göngin
lokuð til að tryggja öryggi þeirra sem eru í göngunum,
og þannig að tæki geti komist til að hjálpa. Með þessu
er hægt að opna göngin hratt aftur. Ef það myndast
erfiðar aðstæður, með umferðaröngþveiti eða öðru,
þýðir það að lokunin varir lengur og hefur þá áhrif á
mun fleiri í mun lengri tíma.
Það eru mjög margir sem fara um Hvalfjarðargöng á
hverjum degi, eru það ekki um 7 til 8 þúsund bílar að
meðaltali á hverjum degi allt árið, og þá mun fleiri á
sumrin?
Páll Hróar: Raðirnar við göngin eru fljótar að verða mjög
langar ef lokunin varir lengur en í tíu mínútur. Við höfum
verið að reyna að stytta biðtímann með því að hleypa
umferð til skiptis inn í göngin til að láta hlutina ganga
sem greiðast fyrir sig.
En hvernig er að koma skilaboðum til fólks sem er
að bíða?
Páll Hróar: Það er náttúrulega lang best að sækja
upplýsingar á umferdin.is. Þar er skilaboðum komið til
skila til vegfarenda.
Umferðin hefur verið að breytast, við erum með
allt öðruvísi vegfarendur, ferðamönnum fjölgaði og
fækkaði svo aftur í covid. nú eru þeir að snúa aftur.
Finnum við fyrir þessu?
Árni Gísli: Það er óhætt að segja það. Við finnum fyrir
því bæði í auknu umferðarmagni og svo í ferðamönnum
sem eru óvanir að aka í þessum aðstæðum sem eru
hér. Þeir eru jafnvel í fyrsta sinn að upplifa snjó eða
jafn mikinn vind og hér getur orðið. Svo er það þannig
að vegakerfið okkar er ekki hraðbrautakerfi eins og
er í mörgum öðrum löndum og því mikil viðbrigði fyrir
marga. Við erum líka að sjá mun fleiri á ferðinni utan
sumartímans. Það eru krefjandi aðstæður að tryggja
að þessir ferðamenn hafi upplýsingar um það sem
þá varðar og að tryggja að þeir hafi hæfni til að aka í
aðstæðum sem þeir mögulega hafa aldrei séð áður.
En hvað gerið þið á sumrin?
Árni Gísli: Á sumrin minnkum við aðeins starfsemina hjá
okkur. Þá er tækifæri til að koma fólki í orlof. Þá eykst
líka umferð í gegnum jarðgöng og fjölgar atvikum þar
sem þarf að fylgjast með. Við erum líka með vöktun
og erum að taka á móti upplýsingum um skemmdir
á vegum. Eins eru fleiri hlutir sem geta gerst eins
og skriður og aðrar aðstæður á vegum sem þarf að
bregðast við.
Ég hef oft sagt að hópurinn okkar á vaktstöð
sé hópurinn á bak við tjöldin. Ef þú ekur í gegnum
jarðgöng hugsar þú kannski ekki til þess að þarna sé
fólk að fylgjast bæði með mælum og myndavélum.
Sömuleiðis þegar þú séð snjómoksturstæki, þá ertu
lítið að spá í því að það eru margir sem koma að
því að skipuleggja moksturinn, eru að fylgjast með
upplýsingum sem koma frá snjómoksturstækjunum
og frá tækjum í bílum eftirlitsmanna. Við tryggjum að
vegfarendur komist örugglega leiðar sinnar ef það er
hægt.
→
Tvær vaktstöðvar eru starfræktar hjá
Vegagerðinni, önnur í Garðabæ og hin á
Ísafirði. Þar er fólk á vakt allan sólarhringinn
við að vakta aðstæður á vegum, skipuleggja
vetrarþjónustu og loka vegum ef þörf krefur.