Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 06.02.2023, Blaðsíða 11
10 Framkvæmdafréttir nr. 723
1. tbl. 31. árg.
Framkvæmdafréttir nr. 723
1. tbl. 31. árg.
11
Tvískipting blindhæða á Vestfjörðum
Það var fleira gert til að bæta umferðaröryggi á vegum.
Lýður Jónsson vegaverkstjóri á Vestfjörðum (f. 1897
d. 1982) mun fyrstur manna hafa skipt blindhæðum
með merkingu en skv. grein í Tímanum 13.5.1970 var
það árið 1954 í Dýrafirði, á veginum milli Haukadals
og Meðaldals. Ég, sá sem þetta ritar, hef þekkt
þessa sögu í áratugi og taldi að við skiptinguna hefði
Lýður notað umferðarmerki þar sem ör vísaði niður til
vinstri (í vinstri umferð). En það er fyrst núna þegar
ég skoða heimildir að ég átta mig á því að í fyrstu
voru skiptingarnar gerðar með gulmáluðum steinum,
umferðarmerkið kom ekki fyrr en með reglugerð 1959
og væntanlega ekki í almenna notkun fyrr en talsvert
síðar. Í Skutli, blaði Alþýðuflokksins á Ísafirði, birtist
1955 löng grein um umferðarmerki og umferðaröryggi.
Þar segir: „Á nokkrum stöðum í Vestur-Ísafjarðarsýslu
eru gulmálaðir steinar látnir skipta akbrautum á
blindhæðum. Einföld og kostnaðarlítil framkvæmd en
til mikils hagræðis og aukins öryggis fyrir ökumenn“.
Í blaðagreininni er annars bent á að nánast engar
umferðarmerkingar séu á Vestfjörðum og geti það
valdið miklum vandræðum þegar tengingu verði komið
á við þjóðvegakerfi landsins og umferð væntanlega
stóraukast. Í Tímanum þann 17. ágúst 1960 birtist
þessi klausa: „Velunnari blaðsins, sem nýkominn er úr
ferðalagi um Vestfirði leit við hjá blaðinu í gær og sagði
frá athyglisverðri nýjung á veginum fyrir Dýrafjörð, sem
er nýlagður. Sú nýjung er, að á öllum blindum hæðum
og beygjum og gatnamótum er veginum tvískipt með
gulum steinum, þannig að bílar neyðast til að aka á
réttum kanti í stað þess sem oft sést, að þeir aka á
miðjum vegi eins og vegurinn sé þeirra einna og einskis
annars.“ Það liðu s.s. nokkur ár þar til aðrir landsmenn
en Vestfirðingar höfðu frétt af þessari nýjung.
Aðalbrautir og fyrsta
umferðarmerkjareglugerðin
Í auglýsingu lögreglustjórans árið 1954 segir:
„Aðalbrautarmerki standa við hver vegamót,
þar sem hliðargötur skera aðalbrautir. Einnig við
hringaksturstorg. Merkið táknar forrétt þann, er
aðalbrautir njóta. Lýsing: Ferhyrnd málmplata með
ávölum hornum, máluð gul í svartri umgerð með
svörtum stöfum. Áletrun: Stanz-Aðalbraut-Stop“.
↖
Mynd 9. Tilraun til að sýna hvernig blindhæðum var skipt með
gulmáluðum steinum á Vestfjörðum.
↓
Mynd 11. Stöðvunarskyldumerki sem var í notkun þar til
umferðarmerkjareglugerðin kom út 1959.
↑
Mynd 10. Akbrautarmerki (vinstri umferð) kom í
reglugerð 1959 en það hefur tekið nokkur ár að
koma því í notkun á öllum blindhæðum.