Árbók Reykjavíkurborgar - 01.10.1983, Qupperneq 125
109
Það gleymist hinsvegar, að þótt ekkert stæði nú í vegi fyrir búferlaflutningum
og húsakynni og annar aðbúnaður allur til reiðu á fyrirheitna staðnum, er ekki
þar með sagt, að fólk á miðjum aldri geti eftir áratugi við verslunar- og skrif-
stofustörf ráðist í erfiðisvinnu. Menn geta jafnframt rétt gert sér það í
hugarlund, hvort langur starfstími við sérhæfð störf geri fólki yfirleitt ekki
erfiðara um vik að breyta til, jafnvel þóttþað hafi á sínum tíma notið mikillar
menntunar. Endurmenntun, endurþjálfun og hvað það nú allt saman heitir, sem á
að vega upp á móti þessu, gerir það ekki í þeim mæli, sem ætlast er til, enda
eru aðgerðir af þeim toga nú í auknum mæli notaðar til þess að fela atvinnuleysi
með því að taka fólkið út af atvinnuleysisskrá þann tíma, sem það sækir námskeiðin
en að sama skapi eru minni vonir bundnar við, að þau auðveldi fólkinu að fá störf
á ný. Sums staðar gengur þetta svo langt, að talið er nauðsynlegt að búa ungt
fólk undir það í framhaldsskólum, að svo geti farið, að það verði án launaðrar
vinnu allt sitt líf. Vonandi kemur ekki til neins af þessu hérlendis, en atvinnu-
leysi mun engu að síður fara vaxandi á næstu árum hér á höfuðborgarsvæði í einni
eða annarri mynd, en vonandi bitnar það ekki ætíð á hinura sömu.
Einhver kynni að ætla, að landsmenn gætu vikið sér undan því að færa sér í nyt
þá tækni, sem flýtir fyrir þessum ósköþum, en þar eigum við engra kosta völ, þótt
ekki sé vegna annars en þess, hve háð við erum miklum utanríkisviðskiptum við þær
þjóðir, sem þegar hafa tileinkað sér hin nýju vinnubrögð. Án tækninnar yrðum við
ekki samkeppnisfær. Hinsvegar er ljóst, að fyrst okkur er nauðugur einn kostur að
taka hinni nýju tækni opnum örmum, ber okkur að gera okkur þann mat úr henni sem
við getum og virkja hana til nýsköpunar eftir föngum. Á því sviði bíða okkar
miklir möguleikar, án þess að ég ætli að telja þá upp hér, eða það, sem þarf að
vera til staðar, en Atvinnumálanefnd Reykjavíkur tekur nú þátt í samstarfi við
Háskóla Islands og viðræðum við fleiri aðila um ýmislegt þar að lútandi. Þess skal
aðeins getið, að Atvinnumálanefnd Reykjavíkur og Háskólinn gerðu nú í vor með sér
samstarfssamning og réðu Jón Hjaltalín Magnússon verkfræðing til þess að sinna
tvíþættu verkefni, sem á að leiða til þess að örva hátækniiðnað í Reykjavík og
nýta betur þá krafta innan Háskólans, sem geta orðið þessum iðnaði að liði. Miklar
vonir eru bundnar við þetta samstarf og má gera ráð fyrir því, að umræddur samningur,
sem gildir til áramóta, verði endurnýjaður.
Ég geri þetta að umtalsefni hér vegna þess, að áhrif hátækniiðnaðar, eða hverju
öðrjj orði, sem hann nefnist, verða æ víðtækari og það, sem örvar slíkan iðnað
hérlendis er líklegra en nokkuð annað til þess að skila árangri einmitt vegna hinna
víðtæku áhrifa í öðrum greinum. Þessi iðnaður og öll sú tækni, sem hann byggist
á, krefst mikillar þekkingar hjá notendum jafnt sem framleiðendum og mikillar
þekkingar úr mörgum ólíkum greinum. Framleiðendur verða að þekkja þarfir notendanna
nánast í smáatriðum og engir nema notendurnir sjálfir koma þeirri þekkingu til skila.