Skinfaxi - 01.03.2022, Blaðsíða 35
S K I N FA X I 35
Íþróttir eru fyrir alla
Skautasambandið er fyrsta sérsambandið sem
tók íþróttir fatlaðra inn í þjálfaranámið. Þar er
kerfi Special Olympics kynnt, sem og einstakl-
ingsnálgunin.
„Þetta er innleitt af fullum þunga og vonandi
koma hin samböndin svo inn líka,“ segir Helga.
„Þetta eru engar geimverur, bara börn og ung-
menni eins og allir aðrir. Það þarf enginn að
vera hræddur við þau. Þau eru alveg jafn yndis-
leg og öll önnur börn. Ég held að það sé
hræðsla hjá félögum að það kosti allt of mikið
að hafa þau hjá sér. Og vonandi verður engin
þörf á mínu félagi í framtíðinni, því börnin kom-
ast alls staðar inn. Við viljum aðeins að íþróttir
fatlaðra verði sýnilegri,“ segir Helga.
Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík eru
með áfanga um sértækar íþróttir. Íþróttakenn-
arar framtíðarinnar fá því kennslu í því að allir
geta tekið þátt í íþróttum.
„Þeir fara á milli félaga og fá að fylgjast með
æfingum og það er frábært að taka saman
hvað er í boði. Það eru margir svo fastir í því
að það sé erfitt að kenna fötluðum krökkum
en þetta eru bara krakkar, yndislegir krakkar.
Það þarf meiri vitundarvakningu hjá íþrótta-
félögum um að þeim ber lagaleg skylda til að
taka á móti öllum. Það gleymist og það er svo-
lítið gert af því að útiloka þessa krakka. En
ég tel að vitundarvakningin sé að byrja og
háskólarnir eiga stórt skref í því. Svo er bara
spurning hvað allir hinir gera. Við vorum með
risa ráðstefnu síðasta vor og ég vona að hún
hafi skilað einhverju,“ segir Helga.
Fatlaðir og ófatlaðir æfa saman
Öspin stefnir á að auglýsa starfið í bæklingum
sem dreift verður á heilsugæslustöðvum,
sjúkraþjálfunarstofum og þjónustumiðstöðvum.
„Við ætlum að gera bæklinginn rafrænan
og höfum ráðið til okkar ljósmyndara til að taka
myndir í öllum deildum til að nota í bækling-
inn. Við viljum sýna myndir með áherslu á
gleði í íþróttum, sýna hvað það er gaman að
æfa íþróttir,“ segir Helga, en í Öspinni er
mikið horft í lífsleikniþáttinn. „Sumir eiga erfitt
með samskipti við aðra en með lífsleikniþætt-
inum reynum við að fá einhver samskipti í gang
og það hefur reynst okkur mjög vel. Þannig
viljum við að fólk nái árangri í íþróttum, þegar
því líður vel og finnur að það er í öruggu um-
hverfi. Það er grunnurinn að árangri. Það gleym-
ist oft, því íþróttir eru svo árangursmiðaðar.“
Með tár í augum
Hjá Öspinni æfa fatlaðir og ófatlaðir. Helga
segir í raun mikilvægt að breyta lögum félags-
ins til að komast inn hjá fleirum en Íþróttasam-
bandi fatlaðra. Mismunur felist nefnilega í
gömlu lögunum.
„Í gömlu lögunum stóð að Öspin væri
íþróttafélag fyrir einstaklinga með fötlun. Við
þurfum að breyta þessu því að Öspin er íþrótta-
félag sem sérhæfir sig í þjónustu við einstakl-
inga með fötlun og sérþarfir. Öll íþróttafélög
eiga að vera opin öllum en það er samt ástæða
fyrir því að Öspin er til, því að ekki eru öll
íþróttafélög opin öllum. Þessi börn eru ekki
endilega velkomin annars staðar,“ segir Helga
og bætir við að þótt 90% iðkenda félagsins
séu með fötlun séu þar líka ófatlaðir iðkendur.
Allir fá sömu einstaklingsmiðuðu þjálfunina.
„Okkur langar að opna umræðuna um það
að fatlaðir þurfa líka pláss. Íþróttir eiga að
vera fyrir alla og við getum gert þetta saman.
Það þarf ekki að vera aðskilnaður. Við erum
með „unified“ pör sem hafa verið að keppa
og ná mjög góðum árangri. Þetta er líka góð-
ur grunnur,“ segir Helga og bætir við að
áhersla sé lögð á að skapa samfélag iðkenda.
„Krakkarnir þekkjast og eflast og við erum
alltaf með félagsleg markmið. Það er rosalega
gaman að sjá muninn á einstaklingum sem
koma til okkar. Sum koma kannski brotin, hafa
verið á hliðarlínunni í íþróttum í skólanum og
fá ekki að taka þátt þar, eiga bara að sitja og
horfa á, og svo eru þau farin að njóta sín á
æfingunum hjá okkur. Maður fær bara tár í
augun að sjá það. Það skiptir alveg rosalega
miklu máli því að svo taka þau þetta með sér út
í lífið í samskiptum við aðra og eru ekki jafn
rosalega feimin og þau voru þegar þau byrj-
uðu,“ segir hún að lokum.