Stuðlaberg - 01.04.2022, Blaðsíða 12

Stuðlaberg - 01.04.2022, Blaðsíða 12
12 STUÐLABERG 1/2022 Eitt ljóðið heitir Áramót: Af gamalkunnri gleði svíf með glimmerskraut í hári. Við flugelda og fjör og líf við fögnum nýju ári. Veislur, gleði’ og húllumhæ. Við höldum nýjársteitin og aftur strengjum óraunsæ áramótaheitin. Ljóðabókin Ég er nú bara kona er frumleg og um margt nýstárleg, þar má sjá óvænt sjónarhorn og skemmtilegt hugarflug og ekki síður góð tök á bragforminu. Þessa bók verða allir unnendur hefðbundinna ljóða að eignast. Skuggi fóstrar fagurlit blóm JPV­útgáfa hefur sent frá sér bókina Blá stjarna efans eftir Valdimar Tómasson. Þetta er sjötta ljóðabók Valdimars, 46 blaðsíður að stærð í litlu broti, inniheldur tuttugu og sex ljóð sem eru stutt, fyrirferðarlítil og hógværleg og láta lítið yfir sér við fyrstu sýn. Þegar betur er gáð og nánar lesið vinnur Valdimar á, hinn lágværi tónn fangar hugann og lesandinn hrífst með. Hávaði er ekki alltaf besta leiðin til að ná athygli. Ljóð Valdimars eru öguð og vel unnin og hvergi orði ofaukið. Hann beitir stuðlasetningu af mikilli fimi, form ljóðanna er ekki óskylt forn yrðislagi. Skoðum ljóð sem heitir Umsátur: Gerræði lyginnar býður griðlönd fá. Loftið fyllir falsþefjandi hégómi og eini vitaloginn villuljós ágirndar. Jörðina níðir nístandi græðgi uns funandi lífsneisti fjarar við kaldan stein. En skuggi fóstrar fagurlit blóm. Annað ljóð í bókinni heitir Blik: Trygga blóðsjúka blekkingarvíma. Í fjarska má raunveruleikinn roða. En ég dvel í ró við draumalindir. Hér er ekki einu orði ofaukið. Falleg bók og vel ort. Valdi eins og hann gerist bestur. Ó, hvílíkt fagnaðarundur Bókaútgáfan Gullbringa hefur sent frá sér bókina Allt og sumt eftir Þórarin Eldjárn. Þetta er vísnabók, eitthundrað vísur, sem fjalla um allt milli himins og jarðar. Hér er Þórarinn í essinu sínu. Efnistök eru oft óvænt og sjónarhornin nýstárleg. Samt er það svo að oftar en ekki hrekkur lesandinn við og hugsar með sér, jú, auðvitað, þetta er augljóst mál – þegar einhver er búinn að benda á það. Skoðum vísu sem ber heitið Leiðsögn: Ó, hvílíkt fagnaðarundur það yrði og brautin greið ef sérlegur siðblindrahundur sýndi okkur rétta leið. Önnur heitir Kalt vor: Ótrúlegt er þetta þol, það má skoða héðan: Esjan klædd í ullarbol en alveg ber að neðan. Og svo er það Organistinn: Á orgelið Bach með bravúr flytur, baðar út höndum og fótum. Rétt eins og kafteinn í kokkpitt situr, kóarinn flettir nótum. Skemmtileg bók, full af gamanmálum og glensi. RIA.

x

Stuðlaberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.