Stuðlaberg - 01.04.2022, Side 14

Stuðlaberg - 01.04.2022, Side 14
14 STUÐLABERG 1/2022 Árið 1986 gaf Hörpuútgáfan út bókina Þyrill vakir sem hefur að geyma úrval ljóða Halldóru úr frumortum ljóðabókum hennar. Dóttir hennar, Þóra Elfa Björnsson, valdi ljóðin og skrifaði formála. Auk út gefinna bóka sinna skrifaði Halldóra mikið í blöð og tímarit, bæði greinar um ýmis málefni og einnig fjölmargar smásögur. Einna þekktust er hryllingssagan Faðmlag dauðans sem oft er getið í sýnisbókum íslenskra bókmennta. Þá er fjölmargt af efni því sem Halldóra safnaði og samdi enn óútgefið. Þýðing Halldóru á Bjólfskviðu kom út, sem fyrr segir, árið 1983, á vegum bókaforlagsins Fjölva. Pétur Knútsson sá um útgáfuna en Alfreð Flóki myndskreytti. Bjólfskviða (Béowulf) er eitt af höfuðritum fornenskrar tungu. Hún er varðveitt í einu handriti frá ofanverðri 10. öld en er af flestum talin vera töluvert eldri. Höfundurinn er ókunnur en kviðan er skrifuð á Englandi. Hún er 3182 langlínur (þ.e. braglínupör, í bókinni er braglínuparið sett upp sem ein lína, það kallast langlína) eða 6364 braglínur miðað við fornyrðislag. Bragarhátturinn er nánast eins og fornyrðislag. Ekkert rím er í kviðunni, hrynjandi óregluleg, braglínulengd lauslega afmörkuð og stuðlasetning þannig að ýmist er þar einn stuðull eða tveir í frumlínu og höfuðstafur í fyrsta áhersluatkvæði í síðlínu. Þessum bragarhætti heldur Halldóra í þýðingunni. Sögusvið Bjólfskviðu er Skandinavía á 8. eða 9. öld. Þar segir frá hetjunni og stríðsgarpinum Bjólfi sem berst við risann Grendel og móður Grendels sem er mikið skrímsli. Síðar, þegar hann er orðinn kon­ ungur á Gautlandi, berst hann við dreka og lýkur bardaganum með því að báðir falla. Inn í söguna fléttast svo atburðir úr fornsögu Dana, Gauta og Svía. Bjólfskviða var fyrst prentuð í Kaupmannahöfn 1815 í útgáfu Gríms Jónssonar Thorkelín, sem gerði merkar rannsóknir á kviðunni. Náfrænkur „Fornenska og íslenska eru náfrænkur, en líkjast þó meir hvor annarri en margar alsystur, sem oft vill vera.“ Hér fyrir neðan er sýnishorn af nokkrum línum úr Bjólfskviðu á frummálinu og þýðing á sama texta eftir Halldóru. Frumtexti:   –  —  Forðam secgum wearð, ylda bearnum, undyrne cuð, gyddum geomore, þætte Grendel wan hwile wið Hroþgar, heteniðas wæg, fyrene ond fæhðe fela missera, singale sæce, sibbe ne wolde wið manna hwone mægenes Deniga, eorhbealo feorran, fea þingian, ne þær nænig witena wenan þorfte beorhtre bote to banan folmum, ac se æglæca ehtende wæs, deorc deaþscua, duguþe ond geogoþe, seomade ond syrede, sinnihte heold mistige moras. Men ne cunnon hwyder helrunan hwyrftum scriþað. Halldóra: – — Því var ýtakindum sagt með sanni í söngvum fornum hversu grimmlega Grendill réð Hróðgeiri lengi haturníð efla, firn og fádæmi fjölda missera, sífelldar sakir. Sætast né vildi við manna neinn af mengi Dana eður fjörvarböl féi gjalda; virðar vitrir væntu engra bjartra bóta af banahöndum. Urðu ofsóknir illyrmis dimmur dauðskuggi, djarfa og unga hvekkti og hugstal. Hverjar nætur mistur mýrar mönnum ókunnar, hvarleiður helriði úr hvarfi skreið.

x

Stuðlaberg

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.