Stuðlaberg - 01.04.2022, Síða 15
STUÐLABERG 1/2022 15
Halldóra hóf að þýða Bjólfskviðu árið
1966. Hún þýddi hana beint úr frummálinu,
vildi ekki hafa hliðsjón af öðrum þýðingum.
Í formála að útgáfunni segir Pétur Knútsson
meðal annars:
„Þýðingarmáti hennar er allsérstæður
og athyglisverður. Fornenska og íslenska
eru náfrænkur, en líkjast þó meir hvor
annarri en margar alsystur, sem oft vill vera.
Sami svipurinn er með setningaskipan og
orðaforða þeirra, og búa þær yfir nauðalíkum
skáldskaparhefðum. Halldóra færir sér
skyldleika þeirra ríkulega í nyt. Þýðing
hennar gefur íslenskum lesanda glögga
mynd af máli frumtextans, hljómfalli þess
og merkingarsviði, það er eins og löngu
hljóðnaður hörpusláttur kvikni aftur á
ölbekkjum í meðförum hennar.“
Pétur ritaði grein um þýðinguna þar sem
hann lýsir vinnubrögðum Halldóru og lýkur
á hana lofsorði fyrir frumleika og vandvirkni
(Skírnir, tímarit Hins íslenska bókmenntafélags,
158. árg. 1984, 223–244).*
Það fer ekki á milli mála að þýðing Halldóru
á þessu forna kvæði er mikið afrek. Textinn
ber með sér hvílíkt vald hún hefur haft á
íslensku máli. Henni tekst að tengja íslensku
þýðinguna frumtextanum á aðdáunarverðan
hátt og nýta sér skyldleika tungumálanna,
eins og Pétur Knútsson bendir á. Textinn er
fyrndur og víða blandinn orðum sem ekki eru
notuð í daglegu máli en samt vel skiljanlegur
hverjum þeim sem þekkir íslenska tungu.
Halldóru verður seint fullþakkað þetta verk.
RIA.
* Auk þess er áhugasömum bent á aðra grein: „The
Intimacy of Bjólfskviða.“ Beowulf at Kalamzoo:
Essays on Translation and Performance. Ritstj. Jana
K. Schulmann og Paul E. Szarmach. Kalamazoo:
Medieval Institute Publications, 2012: 186–206.
Þeirri bók fylgir athyglisverð hljóðupptaka á
geisladiski af fyrsta kafla kviðunnar í flutningi
Vilborgar Dagbjartsdóttur skálds.
Að standa á sama
Halldóra var fljúgandi hagmælt, eins
og öll systkini hennar, og gott skáld. Hér
á eftir fara þrjár af lausavísum hennar:
Oft eru í glösum föngin fín
freistingin á hvers manns vegi.
Margur drykki minna vín
myndi hann eftir næsta degi.
Þó mér sitthvað þætti að
og þótt ég kenndi ama
Á langri ævi lærði ég að
láta mér standa á sama.
Þótt ég leiti heiminn hálfan
hvergi ber þig fyrir mig.
Leggi ég bara augun aftur
engan sé ég nema þig.
Halldóra B. Björnsson var næstelst
af systkinunum átta í Grafardal.