Stuðlaberg - 01.04.2022, Blaðsíða 18
18 STUÐLABERG 1/2022
Fastmótað form veitir öryggi
Rætt við Anton Helga Jónsson
Anton Helgi Jónsson er ljóðskáld. Hann hefur
sent frá sér bækur með óbundnum ljóðum en
einnig mjög vel unnin hefðbundin ljóð. Eftir hann
hefur komið út limrukver sem hefur notið mikilla
vinsælda og eins hefur hann gert kvæði sem vakið
hafa athygli.
Ég var eitthvað að setja saman vísur sem
strákur og vann mér það til frægðar að senda
botn inn í vísnaþátt í útvarpinu og fá hann
lesinn upp. Þessar yrkingar komu einhvern
veginn ósjálfrátt en um fermingu var ég
farinn að yrkja ansi mikið meðvitað og hef
síðan þá verið nær óstöðvandi. Ég veit ekki
hvers vegna.
Fyrstu ljóðin sem ég heyrði og lærði að
einhverju leyti voru þjóðkvæðastef sem
mamma hafði yfir, Ló, ló mín, Lappa og
Fuglinn í fjörunni en síðan var auðvitað
mikill utanbókarlærdómur í skólanum en
þar var ekki allt jafn skemmtilegt. Fyrsta
kvæðið sem ég man eftir að hreif mig var
Þótt þú langförull legðir eftir Stefán G. Það
var eitthvað við hljóminn sem snerti mig þar
en fyrsta kvæðið sem ég man eftir að hafa
heyrt og lært sjálfviljugur, kannski ellefu
ára, var eftir Stein Steinarr. Mér er sú stund
ógleymanleg. Þetta var á Strandgötunni í
Hafnarfirði, fyrir framan Skálann. Besti vinur
minn kom uppveðraður til mín og sagði:
Hefurðu heyrt þetta? Síðan þuldi hann upp
„Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.“ Ég
hafði aldrei heyrt aðra eins snilld og lærði
línur Steins á staðnum.
Tólf ára flutti ég úr Firðinum til Reykjavíkur
og varð sama ár eða ári seinna sendisveinn
á skrifstofu Olíufélagsins. Þar unnu ungir
menn sem létu stundum fjúka í kviðlingum
og það varð til þess að ég fór að kasta fram
vísum líka. Einn ungu mannanna tók sig
þá til og bað mig að skjótast út í Mál og
menningu fyrir sig til að kaupa kver um
íslenska bragfræði. Það gerði ég og þegar
ég kom aftur upp á skrifstofu afhenti hann
mér kverið og sagði: „Þú mátt eiga þessa
bók. Lærðu það sem stendur í henni.“ Síðan
sneri hann sér að sinni vinnu en ég hlýddi
og tileinkaði mér smám saman það sem var
í þessu ágæta bragfræðikveri. Ég orti mikið
undir alls konar bragarháttum og háttleysum
öll mín unglingsár og gaf loks út lítið kver
þegar ég var 19 ára, haustið 1974. Undir
regnboga heitir kverið og það inniheldur eitt
eða tvö ljóð sem mér þykir ennþá vænt um og
læt stundum fljóta með á upplestrum.
Hverjir voru helstu áhrifavaldar þínir þegar þú
varst að tileinka þér listina?
Fyrstu kvæðin sem ég setti saman áttu að
vera dægurlagatextar en það var sú grein
ljóðlistarinnar sem mig langaði og langar svo
sem enn til að fást við og eiginlega skil ekki
hvers vegna ég fór að gefa út bækur. Fyrir
mig var það óvænt góður bragfræðiskóli að
vinna hjá Olíufélaginu en þar fór líka að vinna
fyrsta skáldið sem ég hitti á ævinni, Jóhanna
G. Erlings. Hún hefur líklega aldrei gefið út
bók en á þessum tíma orti hún lipra texta fyrir
vinsæla söngvara og tónlistarmenn, Ragga
Bjarna, Ellý, Ingibjörgu í B.G. og Bjögga. Ég
man eftir því að einn daginn komu popparar
sem ég mat mikils að sækja til hennar texta.
Hvenær sem ég sá hana eitthvað annars
hugar eftir það var ég viss um að hún væri að
setja saman texta og bar svo mikla virðingu
fyrir henni að ég gat varla komið upp úr mér
orði í návist hennar, sem var óhepppilegt
vegna þess að hún var minn næsti yfirmaður
í fyrirtækinu. Jóhanna G. Erlings var mín
fyrsta fyrirmynd á þessu sviði en síðan féll
ég gjörsamlega fyrir Þorsteini Erlingssyni og