Stuðlaberg - 01.04.2022, Blaðsíða 23
STUÐLABERG 1/2022 23
Grímsvatnagrallari
Snilldarbrögð Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings
Grímsvatnagrallari heitir rit sem Jökla
rannsóknafélagið gaf upphaflega út árið
1975. Tilefnið var 25 ára afmæli félagsins.
Innihaldið er ekki af lakari endanum
því að það saman stendur af söngtextum
eftir Sigurð Þórarins son jarðfræðing sem
þá var formaður félagsins. Ritið var svo
endurútgefið árið 2012 í tilefni af því að þá
hefði Sigurður orðið hundrað ára.
Í kverinu eru þrjátíu og sex söngtextar.
Marga þeirra þekkir hvert mannsbarn
á Íslandi og þeir eru fyrir löngu orðnir
ómissandi hluti af sönghefð okkar. Þar má
nefna textann Land veit ég langt og mjótt
og það fræga Þórsmerkurljóð, sem hver
einasti Íslendingur hefur einhvern tíma
sungið (fjallað er um tilurð Þórsmerkurljóðs í
Stuðlabergi 2/2020, bls. 9). Hér er raunasagan
um þá sélegu píu Siggu Geira, hér er þekkt
ljóð um senjórítur suður á Spáni og vísur
um ótímabært andlát Sigga á Vatnsleysu
og ekkjuna Þóru. Þarna er líka einn mest
sungni partísmellur Íslandssögunnar fyrr og
síðar um að lífið sé skjálfandi lítið gras, hér
er ljóðið sem allir kunna, Svífur yfir Esjunni
sólroðið ský, sem heitir reyndar Vorkvöld í
Reykjavík og þarna er söngurinn yndislegi,
Vestast í Vesturbænum / hvar vorsól fögur
skín. Aðrir textar í kverinu eru líklega minna
þekktir en allir eru þeir vel gerðir og undir
lögum sem henta til söngs.
Sigurður var fæddur 1912 og lést 1983.
Hann var einkum þekktur fyrir vísindastörf
á sviði jarð og öskulagafræði en hann kunni
auk þess öðrum betur að gera söngvæna
texta. Hann var líka einstaklega fundvís á
fallegar og melódískar laglínur til að yrkja
við. Tveggja binda ævisaga hans, Sigurður
Þórarinsson — Mynd af manni, kom út fyrir
síðustu jól. Sigrún Helgadóttir skráði og
Náttúruminjasafnið gaf út. Bókin hlaut
íslensku bókmenntaverðlaunin 2022 í flokki
fræðibóka og rita almenns efnis.
Einn textinn í kverinu er gerður við lagið
Sofðu unga ástin mín og heitir Vögguljóð
jöklamæðra:
Sigurður hafði gaman af því að taka lagið
og gítarinn var aldrei langt undan.