Skinfaxi - 01.05.2024, Blaðsíða 8
8 S K I N FA X I
Fá sjokk yfir tölunum
„Þegar ég hitti fulltrúa íþróttafélaga segja þau tvennt við mig: Í fyrsta
lagi að þau kunni ekki að þjálfa börn með fötlun og viti þess vegna ekki
hvernig á að þjálfa þau. Hin spurningin snýst um það hver á að borga
fyrir þjálfunina,“ segir Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri Allir með.
Svarið við fyrri spurningunni er sú að sama aðferð er notuð við börn
með fötlun og þau sem ekki eru með hana. En svo er það hin spurning-
in, sem snýr að kostnaðarhliðinni. Henni er ekki svarað með jafn auð-
veldum hætti. En samt. Möguleikarnir á svörum eru fleiri við þeirri
spurningu en þeirri fyrstu.
Í byrjun mars skrifaði Valdimar, fyrir hönd Íþróttasambands fatlaðra
og verkefnisins Allir með, undir samning við fulltrúa Ungmennafélags
Selfoss og Íþróttafélagið Suðra á Selfossi. Félögin skuldbinda sig með
samningnum til að bjóða að lágmarki upp á eina æfingu í viku í eitt ár
fyrir iðkendurna og geta leitað ráðgjafar hjá Íþróttasambandi fatlaðra
og Allir með. Hvatasjóður Allir með styrkir verkefnið.
Allir með er verkefni til þriggja ára, sem styrkt er af íþróttahreyfing-
unni, ÍSÍ og UMFÍ og Íþróttasambandi fatlaðra auk þriggja ráðuneyta;
Mennta- og barnamálaráðuneytisins og Heilbrigðisráðuneytisins og
Félags- og vinnumálaráðuneytisins. Undir samninginn skrifuðu Valdi-
mar, Helgi S. Haraldsson fyrir hönd Ungmennafélags Selfoss og Ófeigur
Ágúst Leifsson frá Íþróttafélaginu Suðra.
Fá börn í íþróttum
Frá fyrstu drögum gengur verkefnið Allir með í stórum dráttum út á að
fjölga tækifærum í íþróttum fyrir börn með fötlun. Valdimar segir að
þegar hann hafi komið til starfa árið 2023 hafi hann byrjað á því að
átta sig á stöðunni.
„Þegar við fórum að skoða stöðuna og átta okkur á því hvað þetta
væri stór hópur urðum við fyrir talsverðu sjokki, það eru rúmlega þrjú
þúsund börn með fötlun á Íslandi. Innan íþróttahreyfingarinnar eru
aðeins 4% sem æfa íþróttir. Það eru rétt rúmlega 200 börn. Þetta merkir
einfaldlega að börn og ungmenni með fötlun á aldrinum sex til 16 ára
er eiginlega ekki að finna innan íþróttahreyfingarinnar,“ segir hann og
leggur áherslu á að markmið Allir með sé að breyta því.
Valdimar lagði aftur land undir fót til að finna út úr því hvernig best
væri að ná markmiðum verkefnisins. Hann komst fljótt að raun um að
þrátt fyrir góðan vilja úti um allt var ljóst að íþróttafélög þyrftu stuðning
til að stíga skrefið og opna dyrnar fyrir iðkendur með fötlun og þær
mismunandi áskoranir sem þeim geta fylgt.
„Ég fór víða, heimsótti sveitarfélög um allt land og byrjaði síðan á
því að vinna með fimm sveitarfélögum: Mosfellsbæ, Kópavogi, Akur-
eyri, Garðabæ og Árborg.“ Hvatasjóður Allir með er nýttur til að
styrkja félögin til verksins.
Valdimar segir alla vilja gera iðkendum með fötlun kleift að stunda
íþróttir. Til að styðja þau í því hafi verið ákveðið að setja á laggirnar
Hvatasjóð, sem styður þau íþróttafélög sem fara af stað með þjálfun
fyrir börn með fötlun. Sjóðurinn styrkir nú níu félög með þessum hætti
og eru þau komin mislangt á veg.
Enginn gerir neitt einn
Valdimar segir það sama að sjálfsögðu gilda um börn og ungmenni
með fötlun og önnur. Mikilvægt sé að virkja fólk svo að það einangrist
ekki.
„Við sjáum hjá þeim félögum sem bjóða sérstaklega upp á íþrótta-
æfingar fyrir iðkendur með fötlun að þátttakendur eru að stórum hluta
eldri iðkendur. Þau yngri eru ekki að skila sér í íþróttastarfið í miklum
mæli. Um þrjú þúsund börn og ungmenni standa utan íþróttastarfsins
og það er hætta á að þau einangrist. Þetta gengur ekki lengur. Skilvirk-
asta leiðin til að ná til þeirra er í gegnum íþróttahreyfingu og hefð-
bundin íþróttafélög,“ segir Valdimar.
„En íþróttahreyfingin gerir þetta ekki ein. Við þurfum öll að hjálpast
að svo að þetta takist. Þar þurfa samfélagið, skólarnir og foreldrarnir
að hjálpast að.“
Góð ráð fyrir íþróttafélög
• Fyrst þarf félagið að ákveða að bjóða upp á íþróttir fyrir börn
með fötlun.
• Íþróttafélagið þarf að kynna framboðið.
• Íþróttafélagið þarf að ná til foreldra barna með fötlun og þau
munu blómstra í íþróttum.
• Árangursríkast er að vinna með félagsþjónustu á hverjum
stað og hverju hverfi. Félagsþjónustan er í beinu sambandi
við notendur og hverfamiðstöðvar.
Átak íþróttahreyfingarinnar felst í því að búa til tækifæri fyrir börn með fötlun til að stunda íþróttir.