Goðasteinn - 01.09.1988, Blaðsíða 74
gengur í áttina heim að Miðkoti, þau systkin fara að giska á það sín
á milli hvaða kona þetta væri.
Kemur þeim saman um að þetta muni vera Hallfríður á Skákinni,
en sú kona bjó á litlu koti sem var skammt frá Miðkoti. Fyrir neðan
stéttina sunnan við bæinn i Miðkoti var lítill kofi sem kallaður var
Hjallur. Umrædd kona gekk heim að þessum kofa, og hvarf þeim
systkinum sjónum. Þau dokuðu við og biðu þess að konan kæmi.
Þau bjuggust við að hún hefði þurft að stoppa sinna erinda í hvarfi.
En þegar þau fór að lengja eftir að hún léti sjá sig fóru þau að gá
í kringum kofann úti og inni, en þar var enga konu að sjá.
Þarna hagaði svo til að þessi kofi stóð einstæður og konan gat
i enga átt farið án þess að oörnin sæju, því þau höfðu ekki augun
af kofanum. Og biðu þess spennt að hún kæmi, þvi það þótti alltaf
skemmtileg tilbreytni þegar gesti bar að garði. Þennan dag fór þessi
umrædda kona Hallfríður ekkert frá bæ.
Lestin
Þegar faðir minn Jóhann var unglingspiltur, milli tektar og
tvítugs eins og það var kallað, réðist hann vinnumaður að Eystra
Fíflholti, Vestur Landeyjum, til Jónasar Pálssonar og konu hans
Sigríðar. Þar dvaldist hann í nokkur ár, og leið honum þar vel hjá
því ágæta fólki.
Það var eitt gamlárskvöld að hjónin í Gerðum, Gísli og Þórunn,
buðu honum að koma og spila við heimilisfólkið, þegar útiverkum
væri lokið. Þáði hann þetta boð með þökkum, og lagði af stað strax
eftir kvöldmat. Þetta var örstutt bæjarleið, aðeins nokkurra
mínútna gangur. Það var logn og blíða, en nýfallinn snjór. Hafði
drifið í logni um daginn, en var stytt upp.
Á milli bæjanna er lækur sem kallaður er Fljót. Það mun hafa
verið nokkuð vatnsmikið fyrr meir. Á Fljótinu var gömul brú.
Þegar Jóhann er rétt kominn að brúnni, sér hann hvar maður kemur
riðandi á norðurbakka Fljótsins, með fjóra eða fimm klyfjahesta
í taumi, alla skaflajárnaða.
Þessi lest kom frá austri og rölti klyfjaganginn til vesturs. Jóhann
furðaði sig á hvaða ferðalag þetta gæti verið og ákvað að minnast
72
Goðasteinn