Goðasteinn - 01.09.1988, Blaðsíða 193
1915 giftist hún Sigurði Jónssyni frá Berjanesi og hófu þau það
ár búskap saman með tengdaforeldrum hennar í Berjanesi. 1920
festu þau kaup á jörðinni Eyvindarhólum og fluttu þangað með
börnunum sínum tveimur er þá voru fædd og tengdaforeldrum
hennar. Þeim hjónum búnaðist vel að Eyvindarhólum. Börnin
þeirra urðu 11, en tvö þeirra misstu þau, annað í æsku en hitt þegar
það var komið til fullorðinsára.
Sigurður sótti afla til sjávar, en hann var farsæll sandaformaður
í mörg ár og Dýrfinna vann öll matföng heima og börnin hennar
muna hvernig allt var best hjá mömmu, skyrið og smjörið, já allur
matur sem hún fullvann og síðan allt annað, fötin sem hún
saumaði, allt sem hún prjónaði, já hvernig, já hvernig spyrjum við
í dag, gat húsmóðirin komið þessu öllu í verk. Dýrfinna var fyrsti
formaður kvenfélagsins Fjallkonunnar og var það í samfellt 17 ár
og áreiðanlega var hún hamingjusöm að fá að vinna í sveit sinni að
þeim málum sem tilgreind voru í lögum kvenfélagsins. Þannig var
hún hvern dag fram á ævikvöld, hamingjusöm og þakklát í senn,
hógvær með þeim hætti að hún vildi ekki láta hafa fyrir sér og alls
ekki að sín væri í einu eða öðru getið. Hún var glöð fyrir hvern dag
sem henni hafði verið gefinn, en gleði hennar var tengd sveit hennar,
heimili og fjölskyldu. í þessu umhverfi tók hún þátt í gleði annarra
og sorg. Ríkidæmi þeirra hjóna, sem stóðu alltaf hlið við hl.ið og
virtu og elskuðu hvort annað, voru börnin öll og síðar tengdabörn
og barnabörn. 1971 missti Dýrfinna mann sinn og bjó eftir það í
skjóli barna sinna. Það varð gleði hennar á ævikveldi að prjóna og
senda til allra ættingja og vina. En ég held að vinir hennar hafi verið
á nær hverju heimili í þessari sveit og miklu víðar. Áreiðanlega
umlék hlý hugsun hennar þann hinn sama og prjónað var fyrir og
hver veit nema sú hugsun hafi yljað eins mikið og blessuð ullin. Hún
heimsótti börnin sín og þau með tengdabörnum og ættingjum áttu
mót við hana heima í Eyvindarhólum og það voru ævinlegar gleði-
stundir. Hún var allt til hins síðasta sæl og hamingjusöm. 26. apríl
sl. kenndi hún sér þess meins sem boðaði það sem varð. Hún var
lögð inn á Sjúkrahús Suðurlands á Selfossi og andaðist þar 7. maí
1986.
Goðasteinn
191