Goðasteinn - 01.09.2023, Page 38
36
Goðasteinn 2023
Hið (svo gott sem) ómögulega
Eins og gefur að skilja er framboð keppnishestanna frá Íslandi takmarkað. Það
kemur því fyrir að knapar og hross reyna sig við fleiri keppnisgreinar en þau
hafa áður gert. Þá svífur gamli góði ungmennafélagsandinn yfir vötnum og
knapar reyna að gera sitt besta.
„Við höfðum aldrei tekið þátt í þeirri grein áður,“ segir Elvar þegar hann
lýsir hvernig var að taka þátt í keppni í 250 metra skeiði. Til að lesendur geti
gert sér grein fyrir hversu mikill ungmennafélagsmaður Elvar er, að taka þátt í
þessari grein, er rétt að bera greinarnar gæðingaskeið og 250 metra skeið stutt-
lega saman:
Í gæðingaskeiði hleypir knapi hesti sínum á stökk, tekur hann niður á skeið
og lætur skeiða á milli tveggja viðmiðunarpunkta en hægir að svo búnu niður í
kyrrstöðu. Þetta er mikil nákvæmnisgrein þar sem gefin er einkunn sem saman
stendur af mati á niðurtöku, skeiðinu sjálfu, niðurhægingu og tíma. Keppnis-
hross í gæðingaskeiði þurfa að hafa mikið jafnaðargeð, vera þjál og vel tamin
og svara svo fínum ábendingum að áhorfendur geri sér varla grein fyrir þeim.
Keppnishestar í 250 metra skeiði er annar þjóðflokkur og oft hamagangur á
hóli þegar þeir etja kappi. Spretturinn hefst inni í startbás þar sem margir þeirra
láta ófriðlega, prjóna og hvía. Skyndilega opnast básinn og þá er bara eitt sem
gildir – að vera fljótur, fljótur, fljótur. Fljótur út úr básnum, fljótur niður á skeið,
fljótur á skeiði og fyrstur í mark. Þar skeytir enginn um hvar eða hvernig hestur
og knapi stöðvast. Hvort það er í þessari eða næstu sýslu er aukaatriði.
Greinarnar tvær eru því eins ólíkar og hástökk og stangastökk og sérhæfing
keppnishrossanna eftir því.
„Ekki nóg með að við hefðum aldrei tekið þátt í 250 metra skeiði, Fjalladís
hafði aldrei stokkið út úr startbás áður! Við fórum þarna að morgni keppnis-
dags og gengum með hana inn í básinn í fyrsta sinn. Daníel Gunnarsson, knapi
í íslenska landsliðinu, aðstoðaði mig við að fara með hana inn, opna og teyma
út. Það var allur undirbúningurinn.“
Elvar og Fjalladís fóru sína frumraun í 250 metra skeiði og uppskáru besta
tímann, öllum að óvörum. Úrslitaviðureignin var svo við liðsfélagann Daníel
Gunnarsson. Eftir frábært start úr básnum, niðurtöku og fyrsta kaflann sóttu
Daníel og Eining frá Einhamri á Elvar og Fjalladís sem þó höfðu það naumlega.
Hjá stóðu áhorfendur orðlausir og Elvar orðinn tvöfaldur heimsmeistari!
„Að keppa í þessari grein og ná þessum árangri var miklu meira en ég bjóst
nokkurn tímann við. Ég ætla bara að þakka Fjalladís fyrir þetta, hún er náttúr-
lega ótrúleg, fljót að læra og með einstakt geðslag. Hún er svo miklu meira