Goðasteinn - 01.09.2023, Blaðsíða 55
53
Goðasteinn 2023
Tún býlisins hefur verið lítið, eða um 1 ha. Til samanburðar má nefna að
gamla heimatúnið í Odda (með hjáleigum) er rúmir 20 ha. Ekki er hægt að
fullyrða að tún höfuðbólsins hafi verið svo stórt strax á fyrstu öldum byggðar
en þó er margt sem bendir til þess að það hafi verið orðið stórt mjög snemma,
m.a. staðsetning 10. aldar fjóss í hellum sunnarlega í túninu, við Langekru. Má
ætla að fjósinu hafi verið valinn staður innan túnsins.
Ekki er hægt að sjá að hlaðinn garður hafi afmarkað tún býlisins við Eystri
Rangá en innan þess eru fimm tóftir á svæði sem er 95x50 m stórt og snýr NNA
SSV. Allar eru tóftirnar fornlegar og bendir útlit þeirra til þess að þær séu frá
víkingaöld eða snemma á miðöldum. Þrjár stærstu tóftirnar eru skálalaga, sem
er einkennandi lögun húsa frá víkingatíð. Líklegt er að tóft A á minjasvæðinu
sé af fjósi. Hún er 27 m löng, í nokkrum halla til suðausturs og óljóst má greina
heygarð sem er sambyggður tóftinni að suðvestanverðu. Eru lögun og halli
tóftar, auk heygarðs, skýr einkenni fjósa frá elstu tíð.5 Önnur stór tóft er neðan
og suðaustan við þessa tóft og er hún 22,5 m löng. Í upphaflegri skráningu
var hún túlkuð sem mögulegur bústaður.6 Hún er illa farin af reiðgötum og
fjárgötum sem liggja yfir hana, auk þess sem brotnað hefur af austurenda
hennar sem er frammi á árbakkanum. Lítið hólf virðist vera í suðvesturhorni
tóftarinnar, utan við aðalrýmið, en ekki er útilokað að þar sé jarðhýsi sem ekki
tengist húsinu. Þriðja skálalaga tóftin (D) er syðst á minjasvæðinu og er hún 23
m löng. Hinar tvær tóftirnar eru minni. Tóft C er vel greinileg en innanmál sést
aðeins í norðausturenda hennar. Verið getur að yngri byggingar séu ofan á eldri
minjum á þeim stað en það er ekki greinilegt. Tóft E er mjög ógreinileg og er
í halla til norðvesturs, móts við skálalaga tóft D. Búið er að fljúga með dróna
yfir svæðið og taka myndir af því, auk þess sem yfirborðslíkan hefur verið gert
af svæðinu til þess að draga fram minjar sem sjást illa af jörðu niðri. Þau gögn
hafa ekki leitt í ljós fleiri minjar en þær fimm tóftir sem hér hafa verið nefndar.
Sumarið 2023 var aftur farið á vettvang til þess að kanna aldur og eðli
minjanna með borkjarnarannsókn. Stuðst var við gjóskulög í borkjarnasýnum
við aldursgreininguna og viðmið um jarðvegsþykknun út frá afstöðu jarðlaga
og gjóskulaga í uppgreftinum í Odda.7 Þar virðist jarðvegsþykknunin vera
0,57 mm á ári. Nokkur gjóskulög eru þekkt á svæðinu en sjást misjafnlega vel.
Gjóskupar frá því um 1500 er mjög afgerandi og samanstendur af gjósku úr
Heklu frá 1510 og gjósku úr Kötlu frá 1500. Ógreinilegri er gjóska úr Heklu
frá 1341 og 1158 og Eldgjá frá 939 en víða finnst gjóska úr Kötlu frá 920 og
5 Berson, Bruno 2002, bls. 54-57.
6 Kristborg Þórsdóttir (ritstj.) 2023, viðauki I, bls. 15
7 Magnús Á. Sigurgeirsson 2022, bls. 2.