Goðasteinn - 01.09.2023, Page 75
73
Goðasteinn 2023
Mér þykir ljóst, eins og margir hafa reyndar bent á, að Íslendingabók hafi
fyrst og fremst verið ætluð til landkynningar, til upplýsingar fyrir erkibiskup
og páfa um sögu þjóðarinnar og stöðu hennar innan hins kristna heims. En hún
var ekki síður gjaldgeng sem kennslubók fyrir innlenda skólasveina. Má vera
að það sé orsökin fyrir því að til voru næg afrit af henni til að endast fram á
17. öld, þegar Brynjólfur biskup lét Jón Erlendsson í Villingaholti skrifa bókina
upp, meira að segja í tvígang, en það eru einu afritin sem við eigum af Íslend-
ingabók.
Í áðurnefndum formála Snorra segir hann áfram um Ara: „Hann ritaði, sem
hann sjálfur segir, ævi Noregskonunga eftir sögu Odds Kolssonar Hallssonar af
Síðu, en Oddur nam að Þorgeiri afráðskoll.“ Svo ekki hefur Noregskonungaævi
Ara verið frá Sæmundi runnin, en mögulega gæti konungaævi Danmerkur, sem
Snorri nefnir, hafa verið byggð á langfeðgatali Skjöldunga sem Sæmundur setti
saman.
Langfeðgatal Skjöldunga var sérstaða Oddaverja í samkeppni um völd og
áhrif. Áttvísi er talin til elstu bókmenntagreina hér á landi, þ.e. ættartölur. Ætt-
artölum hafa stundum fylgt frásagnarverðar greinar um þá einstaklinga sem
einhverjar sögur fóru af, sem unnu einhver afrek eða voru minnistæðir fyrir
aðrar sakir. Það mun vera sú grein sem kölluð er mannfræði, enda fara þessi
hugtök jafnan saman í frásögum: ættvísi og mannfræði. Það hugtak hefur þó án
efa gildnað og bólgnað að vöxtum eftir því sem ritöldinni óx fiskur um hrygg.
Ástæðan fyrir því að mönnum þóttu ættartölur svo mikilvægar sem raun ber
vitni, er auðvitað augljós: Niðjum konunga og stórmenna sögunnar ber ekki að-
eins að sýna virðingu heldur hafa þeir líka frumburðarrétt til valda og áhrifa í
samfélaginu. Ekki dugði bara að skrásetja ættartöluna; hana þurfti að sjálfsögðu
að auglýsa með einhverjum hætti, flytja fyrir menn á samkomum.
Við nútímamenn verðum að skilja að forn fróðleikur af þessu tagi var ekki
bara skemmtun eða áhugamál, það var aðeins ytri birtingarmyndin; þetta var
fyrst og fremst hagnýt þekking sem hafði gríðarlegt mikilvægi í samfélaginu.
Langfeðgatal Oddaverja
Fræðimenn eru almennt sammála um að Skjöldungasaga, sem ekki er lengur
til, og Orkneyingasaga séu báðar runnar úr garði Oddaverja. Bjarni Guðnason
segir í riti sínu um Skjöldungasögu að langfeðgatal Oddaverja hafi m.a. ver-
ið skráð heimild sögunnar; langfeðgatalið hefst með Skildi og nær 27 liði til
Sigfúsar Loðmundarsonar, föður Sæmundar, en í Ynglingatali og Háleygjatali