Goðasteinn - 01.09.2023, Page 76
74
Goðasteinn 2023
eru ættliðir konunga og jarla 27 að tölu. Nafnafjöldinn var um leið tímatalið, en
tímatalið er einmitt það sem sagnfræðingum þessa tíma þótti mest um vert að
reyna að koma heim og saman.
Þótt Skjöldungasaga og Orkneyingasaga verði ekki til sem heildstæð ritverk
fyrr en eftir daga Sæmundar, líklega undir handarjaðri langafabarns Sæmund-
ar, Páls Jónssonar Skálholtsbiskups, er óhætt að gera fastlega ráð fyrir rituðum
heimildum frá hendi Sæmundar sem höfundar hafa nýtt sér; ættartölum, mann-
fræðigreinum og kvæðum og svo hefur hin fjölbreytta munnlega sagnageymd í
umhverfi Oddastaðar verið mikil uppspretta heimilda.
Í bók sinni Um haf innan, færir Helgi Guðmundsson prófessor nokkur rök
fyrir því að Sæmundur hafi stundað nám við Nikulásarklaustrið í Angers í
Anjou-héraði. Ég mun síðar fjalla aðeins um hvar Sæmundur gæti hafa numið,
en eitt af því sem Helgi dregur fram í þessu efni varðar rit Sæmundar um Nor-
egskonunga. Anjou var greifadæmi og þar réði ríkjum Fulk Rechín á árunum
1068-1109. Hann lætur snemma rita sögu greifadæmisins til að styrkja tilkall
sitt til valda.
Í þessari frásögn er greifaættin rakin til forföður sem nefndist Ingelgarius og
varð greifi í Angers árið 870. Þetta ártal og þetta nafn hringir óvæntum bjöllum
við eyru Íslendinga en gæti auðvitað verið hrein tilviljun: Ingelgarius – Ingólfur
Arnarson. En í sögu greifanna er einnig nefndur Fulk le bon (hinn góði) sem
ríkti til 960 og eftir hann kom Geoffroi grisegonelle (gráfeldur) sem tók við
völdum það ár. Í sögu Noregskonunga finnum við Hákon góða (le bon) sem ríkti
til 960 og á eftir honum kemur Haraldur gráfeldur (grisegonelle). Hér höfum
við því tvenn viðurnefni og ártal sem er sameiginlegt í tveimur alls óskyldum
heimildum – og það getur ekki verið tilviljun, segir Helgi Guðmundsson. Sæ-
mundur hefur því notað sögu greifaættarinnar í Angers sem fyrirmynd þegar
hann samdi rit um Noregskonunga.
Það er ekki óþekkt aðferð sagnfræðinga á miðöldum að miða við hið þekkta
til að draga hið óþekkta fram í dagsljósið. Sæmundur hefur þá miðað við þá
greifa sem voru samtímamenn þeirra Noregskonunga sem hann var að reyna að
varpa ljósi á í þeim tilgangi að búa til tímatal. Hann notar ártölin og viðurnefn-
in: hinn góði, le bon og grisegonelle, gráfeldur.
En hafi það nú verið raunin, er eðlilegt að maður spyrji hvort t.d. frásögn
Snorra í Heimskringlu um það hvernig Haraldur gráfeldur fékk viðurnefni sitt
sé upphaflega komin frá Sæmundi og sé úr Noregskonungatali hans, eða hafi
verið munnleg frásögn sem Jón Loftsson miðlaði til fóstursonar síns. Eða hvað-
an fékk Snorri þá vitneskju sem hann byggir frásagnir sínar á?
Sæmundur stendur nær þessum fornkonungum í tíma og á hans dögum voru