Goðasteinn - 01.09.2023, Page 77
75
Goðasteinn 2023
sagnamenn og konur sem kunnu forn fræði sem löngu voru týnd og gleymd á
dögum Snorra. Snorri vitnar víða til kvæða eftir forn skáld um heimildir sín-
ar – en hvaðan hafði hann þau kvæði? Og hvers vegna þegir Snorri svo þunnu
hljóði um námið og uppvöxtinn í Odda? Það er spurning sem hægt er að velta
lengi fyrir sér. Þrátt fyrir þögn Snorra hefur virðing hans fyrir fóstra sínum,
Jóni Loftssyni, verið einlæg úr því hann skírir fyrsta son sinn í höfuðið á höfð-
ingjanum í Odda.
sagnir af landnámsmönnum
Landnáma ber Sæmund fyrir sögninni um Naddodd, sem hraktist af leið þegar
hann ætlaði til Færeyja og kom að Austurlandi; gekk upp á fjall sem síðar heitir
Reyðarfjall, sá enga reyki frá mannabyggðum, sigldi burt og sá þá snjó falla á
tinda og nefndi landið Snæland. Naddoddur er sannarlega ekki algengt nafn
og manni fyrirgefst að álykta sem svo að nafnið, maðurinn og atburðurinn sé
hreinn skáldskapur eða einhvers konar goðsögn.
Sögur um skipreika norræna menn sem fuku yfir hafið og uppgötvuðu þann-
ig ný lönd eru flestar ósannfærandi sem „landafundasögur.“ Norrænir menn
sigldu helst með landsýn og ef þeir sigldu út á opið haf fylgdu þeir skýjafari eða
öðrum öruggum teiknum sem vísuðu á land framundan. Vissulega hafa menn
komist í hann krappan og lent í óveðri eða hafvillum en sloppið með skrekkinn.
Annars hefðu engar frekari sögur farið af þeim. En að þeir hafi slysast til að
finna óþekkt land í leiðinni og komist heilir til baka á ólöskuðu skipi má teljast
lygileg heppni.
Frá vesturströnd Noregs til Hjaltlands eru aðeins 300 km (162 sjómílur).
Frá Færeyjum til Íslands tæpir 700 km (378 sjómílur). Í júnímánuði árið 2005
sigldi sá sem hér skrifar með færeyskri áhöfn kútters Jóhönnu TG 326, undir
öruggri skipstjórn Hans Joensen í Líðini, undir seglum frá Suðuroy í Færeyjum
til Norðfjarðar á Íslandi. Við lögðum úr höfn kl. 19.00 og hrepptum aftakaveður
um nóttina. Þó lægði í dögun og rúmum sólarhring frá brottför sýndi skýjafarið
að ekki fór á milli mála að land var framundan. Við vorum komnir að mynni
Norðfjarðar þremur sólarhringum eftir brottför úr Suðuroy.
Hrakningar Naddodds eru seinni tíma tilbúningur, þegar menn voru búnir að
gleyma upphaflegum tilgangi ferðar hans. Rannsóknir á flugi stóru farfuglanna
sýna ljóslega að siglingaleiðin hingað hafi verið þekkt um aldir á Bretlandseyj-
um, enda fylgja fyrstu siglingar víkingaaldar flugleiðinni nákvæmlega eftir, frá
einni eyju til þeirrar næstu. Það hafa ekki verið merkilegir sjófarendur sem röt-