Goðasteinn - 01.09.2023, Qupperneq 82
80
Goðasteinn 2023
forneskju indó-evrópskra trúarbragða, en settar í nýtt samhengi í tengslum við
landnám Íslands. Þó er aldrei hægt að fela hið goðsögulega í fari þeirra, en það
merkir að saga þeirra er sköpuð af manni sem þekkir klassíska fornfræði, þekk-
ir goðsagnir stjarnhimins og þekkir einnig munnmælafrásagnir af Suðurlandi
um það fólk sem hér nam land, um tvöhundruð og þrjátíu árum áður en fyrstu
landnámsfrásagnir eru skráðar.
„Skipulagt samfélag getur ekki þrifist án sögu,“ segir Sverrir Jakobsson í
bók sinni Við og veröldin, um heimsmynd Íslendinga 1100–1400. Sæmund-
ur hefur kynnst erlendum ritum þar sem saga þjóðar var rakin til upphafsins
í þeim tilgangi að styrkja tilkall ákveðinna ætta til valda, eins og t.d. sögu
greifaættarinnar í Angers sem ég nefndi hér ofar. Við lestur slíkra rita hefur
Sæmundur skilið nauðsyn þess að Íslendingar ættu sambærilega sögu um upp-
haf sitt, t.d. svo svara mætti útlendum mönnum „þá er þeir bregða oss því, að
vér séum komnir af þrælum eða illmennum“ og til þess að upplýsa hina „er
vita vilja forn fræði eða rekja ættartölur.“ Þá er betra „að taka heldur að upphafi
til en höggvast í mitt mál, enda eru svo allar vitrar þjóðir að vita vilja upphaf
sinna landsbyggða eða hvers hvergi til hefjast eða kynslóðir,“ eins og segir í
Þórðarbók Landnámu.
Upphafssaga Íslandsbyggðar er einmitt sú saga sem kynslóð Sæmundar ber
höfuðábyrgð á, og þar á hann sínar málsgreinar, eins og aðrir úr þeim fámenna
hópi fræðimanna sem þá voru uppi og höfðu vald á ritlistinni.
Við höfum séð að saga Naddodds er kominn frá Sæmundi, og við höfum séð
að synir Naddodds nema hér land, rétt norðan við Oddalönd, og sjötti maður
frá Naddoddi, Hjalti Skeggjason, er annar forkólfa kristnitökunnar. Við höfum
séð að það eru klassískar menntir á bakvið landnámsfrásögnina af Ingólfi og
Hjörleifi, blandaðar leifum af fornum goðsögnum germanska ættbálksins.
Þegar við svo lesum um Hrafna-Flóka, sem sleppti þremur hröfnum af skipi
sínu meðan hann leitaði lands, líkt og Nói sleppti dúfunni þrisvar, verður ekki
lengur undan því skorast að staðsetja þessar landnámsfrásagnir fyrst og fremst
í ríki goðheims, klassískrar menntunar og kristins lærdóms. Svona frásagnir
geta bara lærðir og fróðir menn sett saman.
Samt sem áður sýna rannsóknir á borkjörnum úr Grænlandsjökli að ef menn
komu hingað til lands áratug fyrir hið hefðbunda landnámsár, þá var loftslag
hér við land mun kaldara en áratug síðar. Hafi einhver Flóki siglt hingað upp og
haft vetursetu, hefur hann án efa séð fjörð fullan af ís; og ekki bara einhvern
fjörð heldur mjög líklega sjálfan Breiðafjörð.
Svo þrátt fyrir þrjá hrafna og önnur goðsöguleg efni úr klassískum ritmennt-