Goðasteinn - 01.09.2023, Side 123
121
Goðasteinn 2023
sambandi við frillu sína, Ragnheiði, hafði jafnvel í huga að dveljast með henni í
Þórsmörk.5 Kemur þá Þórsmerkurljóð í hugann og rómantísk stemning. En Jón
lét undan síga og sleit sambandi sínu við Ragnheiði. Afskipti Þorláks af frillulífi
höfðingjanna hafa aldrei mætt samúð eða skilningi hér á landi. Sigurður Nordal
ritaði, „En boð og bönn kirkjuvalds ... um samband karla og kvenna hafa aldrei
gefizt vel á Íslandi“.6 Þegar ég kenndi í menntaskóla fyrir hálfri öld sögðu sumir
skólapiltar í tímum að Þorlákur hefði verið leiðindagaur en ég reyndi að verja
hann, hann hefði vissulega verið siðavandur og einlífur en þó komi skýrt fram
að hann hafði gaman af alls kyns skemmtunum, svo sem hljóðfæraslætti.7 Auk
þess hefði hann gefið fátæku fólki fé til að ganga í hjónaband þegar ekkert
bannaði. Ég trúði á alvöruna í stefnunni um siðavendni, þóttist skilja mikilvæg-
ið, siðbót yrði ekki komið á án þess að siðbæta klerka fyrst.
Vandi íslenskra fræðimanna sem fylgdu söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar
var sá m.a. að þeir höfðu ekki áhuga á málstað kirkjunnar. Þeir hirtu ekki um
gildi þess að prestar eða aðrir klerkar væru siðavandir, annað var mikilvægara,
þjóðfrelsi. Þeim virtist alveg yfirsjást að Jón Loftsson og Gissur Hallsson, höfð-
ingi af ætt Haukdæla, voru djáknar og hlutu að fara á undan með góðu fordæmi.
Erkibiskup ávarpaði Jón og Gissur í bréfum sínum sem klerka og höfðingja og
sagði að þeir ættu að vera fyrirmyndir og láta af frillulífi sem erkibiskupinn
líkti við búfjárlífi.8
Við höfum ástæðu til að halda að Jón Loftsson hafi tekið boðskap erkibisk-
ups alvarlega. Í fyrsta lagi hafa þeir Gissur skilið boðskapinn ágætlega, eins og
erkibiskup tók fram í bréfi. Í öðru lagi vildi Jón vera fyrirmyndarklerkur, enda
segir í Oddaverjaþætti m.a.: „Hann var hinn vísasti maður á klerkligar listir
... Hann var djákn að vígslu, raddmaður mikill í heilagri kirkju ...“ og að hann
hafi búið kirkjur sínar sem best.9 Í þriðja lagi var Jón náfrændi Noregskonungs,
Magnúsar Erlingssonar (d. 1184), sem hafði fallist á kröfur erkibiskups.
Það kom aldrei til harðra átaka milli Jóns og Þorláks um staðinn í Odda
vegna flótta erkibiskups til Englands. Jón átti sama kost og Sigurður Ormsson,
goðorðsmaður á Svínafelli, Sigurður afhenti biskupi Svínafell og tók við því
aftur af honum sem léni, „um stundar sakir“.10 Hann hafði þannig ráðstöfunar-
rétt í umboði biskups. Sama hefði getað gilt um Odda að sinni.
5 Þorláks saga b, 178.
6 Sigurður Nordal, Íslenzk menning I, 315.
7 Þorláks saga a, 78.
8 Íslenzkt fornbréfasafn I, 262, 263.
9 Þorláks saga b, 166.
10 Þorláks saga b, 165. Sigurður var goðorðsmaður en virðist ekki hafa verið vígður.