Goðasteinn - 01.09.2023, Síða 131
129
Goðasteinn 2023
skóli og voru þar saman komnir ungir efnismenn hvaðanæva að í landinu til að
læra sund og þjálfa sig í öðrum íþróttum. Raunar þurfti Björn ekki að fara á
námskeið til að læra að synda, því að það hafði hann lært að eigin frumkvæði í
Reykjavík haust eitt nokkru áður. Hann gat því einbeitt sér í ríkara mæli að því
að nema alla tækni við að kenna öðrum að synda og varð vel ágengt.
Að loknu námskeiði dvaldist hann um sumarið við sjóróðra á Austfjörðum
en sneri síðan heim um haustið. Hófst hann þá þegar handa við undirbúning að
því að kenna sveitungum sínum að synda og varð það þá fyrst fyrir að koma
upp einhverri aðstöðu til kennslunnar. Kunnugt var um jarðhita í árgilinu fyrir
innan bæinn á Seljavöllum og vildi Björn kanna hvort ekki mundu tök á að
gera þar sundlaug, svo að menn þyrftu ekki að iðka sund í köldu vatni. Var
fyrst leitað til Jóns Jónssonar bónda og smiðs á Seljavöllum, og heimilaði hann
góðfúslega að þessi aðstaða yrði könnuð með tilliti til slíkra framkvæmda.
Sunnudag einn um haustið fóru þeir tveir inn úr, Björn Andrésson og Björn
Guðmundsson í Gíslakoti, bróðir Jóhanns kaupmanns í Steinum, til að skoða
heitu uppspretturnar og aðstöðu til þess að gera þarna sundlaug. Leist þeim
þunglega á að þar mætti nokkuð gera, því að þar sem heita vatnið kom fram úr
klöppunum féll Laugaráin beljandi upp að berginu, svo að þar var ekkert rými
fyrir nein mannvirki. Sneru þeir brátt frá og voru vondaufir um að þarna væri
nokkuð hægt að aðhafast varðandi sundlaug. Brátt skildu með þeim leiðir, því
að Björn Guðmundsson tók stefnuna að Gíslakoti, en Björn Andrésson kom
vestur yfir hálsinn og um garð hér á Þorvaldseyri. Hittist þá svo á að faðir minn,
Ólafur Pálsson, var úti við og tóku þeir tal saman. Ég var þarna nálægur sem
ungur drengur og sá að allt í einu risu þeir báðir upp frá garðstæðinu sem þeir
sátu á og gengu í áttina að Seljavöllum. Þar leit pabbi á aðstöðuna með Birni
og sá þá strax hvernig leysa mætti úr vandamálinu. Sagði hann að það yrði best
gert með því að grafa fyrir lauginni á eyri við ána nokkru innar en hinir höfðu
ætlað og leiða síðan vatnið þangað í stokk eða röri frá uppsprettunum.
Þetta hafði þeim félögum ekki hugkvæmst í fyrri ferðinni, því þeir álitu að
heita vatnið yrði að fá að renna beint niður, þar sem það var. En Björn Andrésson
sá brátt að pabbi hafði lög að mæla og að uppi á eyrinni mæti vel gera dálitla
sundlaug. Hann hófst því þegar handa við að safna liði og næsta laugardag
mættu á staðinn árla morguns 25 vaskir menn og allir vopnaðir skóflum og
öðrum nauðsynlegum verkfærum. Var síðan unnið þarna sleitulaust allan
laugardaginn og síðan sunnudaginn og var þá lokið við að grafa laugarþróna,
klæða hana með torfi í botninn og var grasið látið snúa upp, hlaða veggi að
austan og sunnan og leiða heitt vatn í þróna.
Strax að verki loknu og þegar laugin var orðin full af notalega volgu vatni