Goðasteinn - 01.09.2023, Page 137
135
Goðasteinn 2023
við gætum fengið þessar 25 tunnur af sementi sem okkur vantaði til að gera
við sundlaugina og gætum við tekið það hvaða dag sem væri. Jafnframt sagði
hann að Hallgrímur hefði mælt svo fyrir að við ættum ekkert að borga fyrir
það. Þetta var einstaklega vel og höfðinglega gert af Hallgrími. Hann var ekkert
kunnugur hér eystra, en þar sem hann var sjálfur mikill afreksmaður í íþróttum
vildi hann með þessu sýna góðan hug sinn til íþróttamála hér í sveit og veita
þeim stuðning.
Sementið flutti svo Magnús í Steinum eða einhverjir af sonum hans austur
fáum dögum seinna, en þeir feðgar gerðu þá út vörubíl til flutninga. Var síðan
hafist handa við lagfæringu á lauginni. Við byrjuðum á að setja grjót í ána til
að veita henni frá laugarstæðinu og þurrka upp á eyrinni. Að því loknu bárum
við sement og annað efni á bakinu eins og áður inn gilið og á vettvang. Því
næst var slegið upp og steypt eins og til stóð, þrátt fyrir ótíð og leiðindaveður
öðru hverju. Þegar við steyptum langvegginn að austan notuðum við heitt vatn
í steypuna af tilviljun og trúlega af því að það var nærtækara en kalt vatn. Þetta
sýndi sig að vera hið mesta snjallræði, því að um nóttina gerði hörkufrost sem
hefði getað eyðilagt allt okkar verk. En vegna heita vatnsins kom þetta ekki að
sök og reyndist steypan jafngóð eftir.
Þessi veggur hefur síðan dugað og laugin stendur enn, þótt nú sé hún lítið
notuð og ekkert haldið við. Upphaflega var byggður einn klefi við hana, en það
reyndist of lítið, þegar sundkennslan var orðin þarna mikil og árviss. Nokkru
síðar voru því byggðir tveir aðrir búningsklefar með sturtum og snyrtingu, svo
að vel var fyrir öllu séð.
Svo sem frá sagði hér að framan var Ungmennafélagið Eyfellingur stofnað
hinn 23. desember 1922 og verður því sjötugt seint á þessu ári. Á stofnfundinum
var fyrsta stjórn félagsins kosin, en hana skipuðu Björn Andrésson, formaður,
Eyjólfur Þorsteinsson, gjaldkeri, Gissur Gissurarson, ritari, og meðstjórnendur
þeir Ólafur Eiríksson og Sigurjón Ingvarsson. Fullyrða má að Björn Andrésson
væri frumkvöðull að þessu merkilega félagsstarfi, en margir aðrir fylgdu honum
fast eftir og unnu að verkefnum af brennandi áhuga. Þegar tímar liðu tóku
þessir menn við forystu félagsins sem og öðrum störfum þess og verkefnum.
Mætti í þeim hópi minnast margra ágætra félagsmanna, sem þó of langt yrði
upp að telja á þessum vettvangi. Fyrrum gegndi ég ýmsum störfum fyrir
félagið okkar og var formaður þess um skeið. Frá þeim árum á ég margar góðar
og skemmtilegar minningar. Það má eiginlega segja að fólk hér í sveit hafi
með tilkomu ungmennafélagsins upplifað merkilegt blómaskeið í íþrótta- og
félagslífi. Á þessu tímabili var á vissan hátt lagður grunnur að framförum og
menningarlegri grósku sem lyfti mannlífinu á æðra stig.