Goðasteinn - 01.09.2023, Síða 139
137
Goðasteinn 2023
störin sem þar yxi væri ekki nærri eins góð og sumir héldu fram.1 Um Safamýri
var rætt, skrifað og þrætt í tugi ára. Sýslunefnd deildi við Búnaðarfélag Íslands,
Búnaðarfélagið ræddi við landsverkfræðing en hann var önnum kafinn og
þannig liðu árin. Örnefni á uppdrætti frá árinu 1929 gefa skýra mynd af því
hversu votlent svæðið var orðið á þessum tíma: Votastykki, Illaflóð, Fosshólmi,
Stóruvíkuráll, Þríkeldur, Þverós og Innstavatn eru fáein dæmi. Það kom þó að því
að Geir G. Zoëga vegamálastjóri mætti á staðinn. Honum leist ekki vel á verkið
og vildi heldur bíða eftir annarri stíflu, annars staðar, sem leysa skyldi annan
vanda og vonandi þennan líka. Hann vildi sem sagt heldur ráðast á Markarfljót.
En bændur í Þykkvabæ þoldu ekki lengur við og loks tókst að fá Geir til að
leggja á ráðin um að hemja vötnin sem gengu á Safamýri.2 Þrætunum lauk
og tími framkvæmda gekk í garð. Þvert á hrakspár Sigurðar Guðmundssonar
í Helli hafðist að hemja mesta vatnaáganginn sem gekk á Safamýri, og það á
stuttum tíma. Hann hafði þó nokkuð til síns máls. Um sumarlok 1923 var búið
að stífla vötnin en við tók áratuga vinna við skurðgröft og garðahleðslu til að
endurbæta Safamýri.
Að stífla Djúpós var mjög dýrt og þó að ríkið tæki þátt í kostnaði voru
hlutaðeigandi bændur vafalaust þreyttir og blankir árin á eftir. (Þorsteinn
nokkur Björnsson ofreyndi sig til dæmis svo við verkið að hann neyddist
til að taka sér hvíld frá búskap, hóf verslunarrekstur og hefur síðan verið
orðaður sem einn af stofnendum Helluþorps.)3 Tæpur áratugur leið frá stíflun
Djúpóss þar til Landþurrkunarfélag Safamýrar tók til starfa. Ásgeir L. Jónsson
vatnsvirkjafræðingur mætti reglulega á fundi félagsins frá stofnun þess og eru
skýrslur hans af þeim fundum fyrstu árin flestar á þennan veg:
Daginn eftir mætti ég á fundi hjá Framræzlufélagi Safamýrar, er haldinn var í
Þykkvabænum. Var þar rætt um hvort byrja skyldi framkvæmdir til þurkunar
og áveitu á Safamýri, á komandi vori. - Að umræðum loknum var málinu
frestað.4
Skurðgröftur hófst loksins um 1933 og sumarið 1935 var búið að grafa
þrjá kílómetra með hjálp skurðgröfu Ríkisins. Þá var enn langt í land, því
aðaláveituskurðurinn skyldi verða sjö kílómetrar. Aðspurður hvort þetta myndi
1 (Sigurður Guðmundsson, 1898).
2 (Árni Óla, 1962).
3 (Ingibjörg Ólafsdóttir, 2020).
4 (Ásgeir L. Jónsson, 1932).