Goðasteinn - 01.09.2023, Page 210
208
Goðasteinn 2023
Haglega berðu hamarinn,
handverk allt með prýði.
Er sem brosi bærinn minn,
bjart af þinni smíði.
Já, hann bar hamarinn haglega og var jafnvígur á hann með báðum höndum
og sú einkunn sem hann fær í þessari vísu skýrir vel hvers vegna hann var eft-
irsóttur smiður en lengst af starfaði hann hjá Trésmiðju Kaupfélags Rangæinga,
byggingarfélaginu Ási og síðar Krappa.
Árni var líka haukur í horni fyrir Minjastofnun þegar kom að því að við-
halda og endurbyggja hús í héraðinu. Á sviði húsverndarmála vann Árni að
viðgerðum og nýsmíði glugga í Hlíðarendakirkju, gamla bænum í Múlakoti
og Akureyjarkirkju í Landeyjum. Árni endurgerði einnig gólfið í Hlíðarenda-
kirkju.
Árni Þorsteinn hafði góða tilfinningu fyrir íslenskri tungu. Hann las mikið
enda hafði hann hann gaman af skáldskap og ljóðum og var sjálfur hagmæltur
og setti stundum saman vísur.
Hann var liðtækur hljóðfæraleikari, spilaði mest á píanó en gat líka leikið
á gítar, harmonikku, trompet og saxófón. Hann hafði næmt tóneyra og spilaði
mest eftir eyranu og hafði ríka tilfinningu fyrir hljómagangi.
Um árabil spilaði hann í hljómsveit með vinum sínum og voru þeir liðtækir
á sveitaböllunum hér á árum áður. En uppáhaldstónlistin hans var djass. Árni
var ekki einungis flinkur hljóðfæraleikari, hann var líka liðtækur briddsspilari
og snemma sýndi hann hæfileika sem skákmaður. Hann varð oftar en einu sinni
skákmeistari Rangæinga.
Árni Þorsteinn Sigurðsson bjó yfir mörgum góðum mannkostum. Hann var
einstakur öðlingur, ljúfur, greiðvikinn og trygglyndur. Hann var listfengur og
hafði ríkt verksvit og hugsaði í þaula hvernig hann ætti að leysa verk af hendi.
Hann var nákvæmur og hógvær, hæglátur og dulur og því ekki opinskár með
eigin líðan eða tilfinningar.
Enda þótt Árni ætti góða félaga og vini var hann einfari að eðlisfari.
Hann kunni vel að vinna einn og lagði sig fram um að geta leyst flókin verk-
efni, sem ekki margir gætu leikið eftir honum, s.s. að reka stóð og koma því á
hús.
Enda þótt Árni væri heimakær fór hann engu að síður alloft út fyrir land-
steinana. Lengst af var hann einhleypur en árið 1998 hóf hann sambúð með
Aagot Emilsdóttur og bjuggu þau saman þar til hún andaðist árið 2012. Árni
eignaðist einn son, Grétar Þórarinn, sem fæddur er 1973. Hann var ættleiddur.