Goðasteinn - 01.09.2023, Page 219
217
Goðasteinn 2023
Þegar hún sneri heim úr húsmæðraskólanum beið hennar ungur maður,
Eyvindur Ágústsson. Eyvindur er fæddur í Auraseli í Fljótshlíð 3. janúar 1937.
Hann átti heima á næsta bæ, Snotru, frá 10 ára aldri og voru þau því leikfélagar
frá barnsaldri og talsverður samgangur á milli bæja. Eyvindur hreppti stóra
vinninginn, þau Eyvindur og Rúna gengu í hjónaband 12. júlí 1959 og hófu
búskap á Skíðbakka.
Börn þeirra hjóna urðu fjögur; Ágúst Ómar, Elvar, Hafsteinn og Halldór
Gunnar sem lést barn að aldri.
Sonarmissirinn reyndi mjög á Rúnu, söknuðurinn og sorgin fylgdu henni
alla ævi og átti hún erfitt með að minnast hans eða tjá sig um missinn. Til
minningar um Halldór Gunnar gáfu þau hjónin Krosskirkju nýjan skírnarfont.
Þegar ungu hjónin tóku við búskap á Skíðbakka var mikið verkefni
framundan. Er Eyvindi minnisstætt þegar hann sá á eftir konu sinni ganga með
fötuna í hendinni, hröðum og ákveðnum skrefum, til fyrstu mjalta eftir að þau
tóku við. Hún ætlaði sko að standa sig.
Húsmóðurstarfið í sveitinni var mikið starf. Allur matur gerður heima,
kökubakstur, saumaskapur, auk venjulegra bústarfa sem Rúna gekk í jöfnum
höndum. Halldór afi hennar var á heimilinu á meðan hann lifði til ársins 1970
og síðar meir Elín móðir hennar. Alltaf voru vinnumenn og -konur á bænum
á sumrin og þá naut hún líka aðstoðar móður sinnar sem oftast var heima um
helgar og í öðrum frítíma. Öll föt á synina voru saumuð heima, hvort sem það
voru spariföt eða annað. Á þessum tíma voru 50 kílóa sekkir af hveiti og sykri
til í búrinu enda heimilið stórt. Alla tíð var passað upp á að ekkert vantaði og
mikil fyrirhyggja í innkaupum, enda sjaldan farið í búðir en vikulega sendi
kaupfélagið pantanir heim að dyrum.
Eyvindur og Rúna byggðu íbúðarhúsið og fluttu í það á fyrsta árinu. Í
framhaldinu voru byggð fjárhús, fjós og vélageymsla, túnin ræktuð og búið
vélvætt. Alla tíð stóðu þau hjónin þétt saman þó að það hafi líka hvesst inn
á milli eins og gengur. Öll þessi vinna gerði Rúnu afskaplega vinnusama og
skipulagða.
Er fram liðu stundir lagði Rúna talsvert á sig til að læra grunn í enskri tungu.
Þá náði hún sér einnig í grunnþekkingu á tölvur.
Hún vildi vera sjálfstæð og hafa eitthvað milli handanna og fór því
fljótt að vinna utan heimilis. Hún var um langt skeið handavinnukennari í
Barna skól anum í Gunnarshólma og um tíma kenndi hún líka almenna kennslu.
Er fram liðu stundir vann hún m.a. í Prjónastofu á Hvolsvelli og í Skólaskjóli
Hvolsskóla.
Rúna var mjög sjálfstæð í skoðunum og hafði sterkar meiningar á mörgu. Frá