Goðasteinn - 01.09.2023, Page 221
219
Goðasteinn 2023
Helga Sigríður Elimarsdóttir Kinsky
frá Kanastöðum
f. 1.5. 1932 – d. 13.10. 2022
Helga Sigríður Elimarsdóttir fæddist á Kanastöðum
í Austur-Landeyjum 1. maí 1932. Foreldrar hennar
voru hjónin Stefanía Sigríður Pálsdóttir húsfreyja, frá
Ytri-Sólheimum í Mýrdal, og Elimar Tómasson kennari,
frá Skammadal í Mýrdal, sem þá áttu heima í Tjarnarkoti í Austur-Landeyjum.
Helga var frumburður þeirra, en yngri alsystir hennar var Gerður Stefanía, sem
lést 2020. Sár harmur var kveðinn að heimilinu í októbermánuði 1938, þegar
Sigríður, móðir Helgu, dó þrítug að aldri frá eiginmanni og ungum dætrum, en
Helga var þá sex ára gömul og Gerður litla tæplega eins árs. Gerður fór þá þegar í
fóstur að Hólmum, en Helga fylgdi föður sínum. Seinni kona Elimars, sem kom
að Tjarnarkoti árið eftir, var Guðbjörg Jónína Pálsdóttir frá Álfhólahjáleigu í
Vestur-Landeyjum, sem gekk Helgu í móður stað og reyndist henni vel að öllu
leyti. Helga var þó ævinlega mjög hænd að föður sínum, og sóttist eftir að vera
í návist hans. Gömul vísa sem hann orti til hennar og skrifaði inn í bók sem
hann gaf henni í sumargjöf, segir meira en mörg orð um föðurkærleika hans til
dóttur sinnar:
Hjartans litla Helga mín,
hlýja vorið bjarta
verndi bernskubrosin þín
og barnslegt vor í hjarta.
Elimar og Guðbjörg eignuðust saman fjögur börn, Heiðar, Höllu, Auði, sem
lést 2007, og Margréti. Elimar lést 87 ára gamall í febrúar 1988, og Guðbjörg
féll frá níræð að aldri í maímánuði 2005.
Elimar og Guðbjörg fluttust með börnum sínum frá Tjarnarkoti í þinghúsið á
Krossi, þar sem þau áttu heima um skeið, en þaðan fluttist fjölskyldan búferlum
vestur í Grafarnes við Grundarfjörð. Þar varð Elimar skólastjóri í fullu starfi í
barnaskóla í vaxandi þorpi, en fyrir austan hafði hann verið farkennari á launum
hluta úr ári. Þessi vistaskipti breyttu því miklu um afkomu fjölskyldunnar og
urðu Helgu, sem þá var 13 ára gömul, kærkomin mjög. Henni leið vel á nýjum
stað, varð hluti af samheldnum árgangi barnanna í Grafarnesi og fermdist árið
eftir frá Setbergskirkju. Hún hafði líka nóg við að fást, bæði í félagsskap vina