Goðasteinn - 01.09.2023, Síða 222
220
Goðasteinn 2023
og skólasystkina og á gestkvæmu heimili föður hennar og stjúpu munaði um
krafta hennar við heimilisstörfin, og utan heimilis fór hún ung að vinna í fiski.
Hún var einnig ráðskona hjá vegavinnuflokkum, og var kaupakona sumartíma
á Hólavatni í Austur-Landeyjum. Helga fór til náms við Húsmæðraskólann á
Varmalandi tvo vetur, 1953–1955, og hafði bæði gagn og ánægju af því námi,
sem nýttist henni vel til frambúðar.
Í kjölfar þess hélt Helga til Reykjavíkur, og vann þar ýmis störf næstu ár, t.d.
í Öskjum og prenti og í Iðnó, en lengst af í eldhúsum heilbrigðisstofnana, bæði
á Hvítabandinu við Skólavörðustíg, Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg og
á Fæðingarheimili Reykjavíkur við Eiríksgötu frá stofnun þess. Helga gat sér
gott orð fyrir dugnað sinn, ósérhlífni og samviskusemi alls staðar þar sem hún
starfaði, og snyrtimennsku hennar var við brugðið.
Á Hvítabandinu kynntist hún Jóni Þórðarsyni, forstöðumanni þeirrar
stofnunar, og leiddu þau kynni til náins sambands þeirra sem stóð nokkur ár
þótt ekki tækju þau upp sambúð. Jón lést 1973. Dóttir þeirra Helgu er rut, fædd
1957, hjúkrunar- og upplýsingafræðingur. Hún er gift Guðmundi Ósvaldssyni
framkvæmdastjóra, og eru þau búsett í Hafnarfirði. Börn þeirra eru fjögur. Elstur
er Eyvindur, fæddur 1980, verkfræðingur, kvæntur Vilhelmínu Jónsdóttur.
Börn þeirra eru Guðbjörg og Ari. Kolbeinn er næstelstur, fæddur 1983. Hann er
stýrimaður og sigmaður hjá Landhelgisgæslunni. Eiginkona hans er Borghildur
Gunnarsdóttir, og dóttir þeirra er Vaka Hild. Næstyngstur er Tómas, f. 1984,
verkfræðingur, kvæntur Hrafnhildi Harðardóttur. Dætur þeirra eru Ester Ösp
og Hekla Rut. Yngst er Klara, f. 1990, læknir í Svíþjóð. Sambýlismaður hennar
er Pétur Rafnsson.
Helga hafði mikla ánægju af ferðalögum, og fór ásamt Rut og Guðmundi og
fjölskyldu margar ferðir um Ísland og einnig til útlanda, bæði um meginland
Evrópu og Bandaríkin meðan heilsan leyfði.
Helga var trúuð kona þótt ekki bæri hún á torg þau málefni né önnur er næst
stóðu hjarta hennar, en hún var engu að síður opin fyrir þeirri list sem lýkur upp
hjarta mannsins og vekur með honum tilfinninguna fyrir undrum og fegurð
lífsins og draumkenndum veruleika tilverunnar. Ljóðlistin átti því greiða leið
að huga hennar og tilfinningum, og hún naut þess ekki síður að hlusta á góða
tónlist. Góður skáldskapur í lausu máli var henni líka að skapi og hún las einnig
ævisögur sér til ánægju og fróðleiks.
Síðasta aldarfjórðunginn átti Helga heima á Sólvangsvegi 1 í Hafnarfirði.
Þar á „Sólvangstorfunni“ átti hún góða nágranna sem höfðu margt saman að
sælda, ferðuðust í hópferðum um landið, stunduðu leikfimi og vörðu saman
ótal frístundum. Helga undi þar vel hag sínum og eignaðist góða kunningja og