Goðasteinn - 01.09.2023, Page 226
224
Goðasteinn 2023
Meðfram störfum var hann héraðslögreglumaður til margra ára og var þá
einnig við sjúkraflutninga og kölluðu börnin hans hann „helgarlögguna“. Hann
var sérlega laginn að taka á slagsmálahundunum á böllunum; þegar menn voru
með æsing bjó hann yfir þessari lagni að róa mannskapinn. Léttleikinn var hans
aðalsmerki, hann var vinmargur, hress og kátur.
Ingi var mikill bíladellukarl og skipti reglulega um bíla. Vildi helst ekki eiga
þá lengur en 2 ár í senn. Fór hann mjög vel með bílana, sem og vörubílana og
rúturnar, og var snyrtimennskan höfð í fyrirrúmi í allri umgengni.
Ingi hafði gaman af tónlist, vildi hafa hana taktfasta og fjöruga. Hann söng
með Karlakór Rangæinga og naut þess félagsskapar. Þá var hann einn af stofn-
endum Kiwanisklúbbsins Dímons og björgunarsveitarinnar Dagrenningar.
Hann var félagi í Jeppaklúbbnum 1. apríl sem Helgi Ingvarsson stofnaði ásamt
fleirum og voru margar eftirminnilegar ferðir farnar, meðal annars á Lónsöræfi
sem honum varð tíðrætt um.
Um haustið 1998 lágu leiðir Inga og Gróu Halldórsdóttur saman. Þau Ingi og
Gróa voru umfram annað einstakir vinir og frístundasambúð þeirra varði í rúm
20 ár. Ýmsilegt var gert sér til gamans og ferðuðust þau mikið, bæði innanlands
og erlendis.
Ingi réðist í það verkefni að byggja sér hús og fluttist árið 2004 að Langanesi
13 við Rangárbakka. Hann var afar ánægður með húsið þar sem stórkostlegt út-
sýni er yfir sveitina sem hann elskaði og þar sem hann þekkti hvern einasta hól.
Ingi fylgdist vel með málefnum líðandi stundar, borðaði oft í Björkinni
ásamt góðum félögum og þá hitti hann fyrir karlana í bakaríinu á Hellu og tók
spjallið um daginn og veginn. Sjálfur hafði hann frá mörgu skemmtilegu að
segja, hann var afar mannglöggur, minnið var einstakt og þá vantaði ekki upp
á húmorinn.
Ingi greindist þrisvar á sinni lífsleið með krabbamein, fyrst árið 2000, en
hann kaus ætíð að horfa fram á veginn og þá hjálpaði til hvað hann var alltaf
hress og léttur í lund. Hann missti aldrei móðinn, var glaður fram til hinstu
stundar og hlakkaði til komandi daga því ætlunin var að kaupa nýjan jeppa.
Ingi kvaddi þetta líf á Kirkjuhvoli þar sem hann hljóp um túnin og sleit barns-
skónum í gamla daga.
Séra Sigríður Kristín Helgadóttir