Goðasteinn - 01.09.2023, Page 229
227
Goðasteinn 2023
son og eiga þau tvo syni og tvö barnabörn. Yngstur er svo Hjalti Páll, fæddur
28. ágúst 1973. Maki hans er Kristjana Axelsdóttir. Þau eiga fjögur börn, en ein
dóttir þeirra, Inga Birna, lést á fyrsta ári þann 1. júlí 2012.
Ingólfur og Lilja, stofnuðu sitt fyrsta heimili í Drangshlíðardal sumarið 1959
er þau tóku jörðina þar á leigu. Síðar fengu þau svo tækifæri til að kaupa jörðina
sem hafðist með mikilli vinnu og útsjónarsemi. Húsakostinn þurfti meira eða
minna allan að endurnýja og m.a. að reisa nýtt íbúðarhús.
Ingólfur var bóndi í Drangshlíðardal að aðalstarfi allt frá því hann flutti
þangað, þar til Guðni sonur hans og Magðalena eiginkona hans tóku að fullu
við búinu.
Samhliða uppbyggingu húsakostsins, stækkaði bústofninn og við það varð
þetta aðeins léttara. Börnin hjálpuðu svo til við störfin heima við eftir því sem
aldur þeirra og aðstæður leyfðu. En það var líka stór þáttur í fjölskylduhaldinu
í Drangshlíðardal, að þangað komu börn víða að til sumardvalar hjá fjölskyld-
unni og stundum voru þau yfir veturinn einnig. Að vinnu þeirra var auðvitað
mikil hjálp og ljóst að þeim hefur liðið vel því mörg þeirra sem komu í Dalinn
sem börn, hafa æ síðan haldið tryggð við fjölskylduna og gera enn, sem er sann-
arlega þakkarvert.
Eftir að Ingólfur hætti sjálfur að búa, tók hann að sér að halda við girðingum
og enginn var lagnari við gömlu múgavélina í slættinum en gamli bóndinn sem
leit á hana eins og lifandi veru. Þegar byrjað var að leigja Skógaána út sem lax-
veiðiá tók Ingólfur að sér að fóðra laxaseiðin sem sleppt var í ána á hverju ári.
Hann vann það verk, eins og öll önnur, af sérstakri natni og samviskusemi.
Þó að heilsan bilaði þegar aldurinn færðist yfir, sjónin versnaði smátt og
smátt og skrokkurinn stirðnaði, var Ingólfur alla tíð einstaklega vel með á nót-
unum. Fylgdist vel með fólkinu sínu og því sem um var að vera í búskapnum
heima í Drangshlíðardal. Við lok ævinnar gat hann því stoltur litið yfir farinn
veg, enda búinn að skila drjúgu dagsverki.
Ingólfur sinnti á búskaparárum sínum ýmsum félagsstörfum fyrir Búnaðar-
félag Austur-Eyjafjalla, sem og fyrir Kaupfélag Rangæinga, enda var hann alla
tíð mikill samvinnumaður. Hann var einnig um árabil fulltrúi austur-eyfellskra
kúabænda á fundum Mjólkurbús Flóamanna.
Í frítíma sínum, sem auðvitað var af skornum skammti, var hann meðal
frumkvöðla í leiklistarstarfi í sveitinni fyrir ungmennafélagið Eyfelling og
kvenfélagið Fjallkonuna sem lengi var í miklum blóma. Hann tók þátt í upp-
setningu margra leikverka og sennilega stendur þar upp úr leikritið „Björn að
baki Kára“ sem var byggt á kafla úr Njálu og flutt í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð,
þjóðhátíðarárið 1974. Síðar sama ár var það einnig sett upp í Laugardalshöll-