Goðasteinn - 01.09.2023, Page 237
235
Goðasteinn 2023
heima vistarskólann að Strönd þegar hún var barn en þegar hún fékk berkla við
12 ára aldurinn lá hún heilt sumar veik heima. Sú takmarkaða skólaganga sem
henni bauðst varð því enn styttri fyrir vikið. En á bænum var vitanlega ávallt
þörf á öllum þeim höndum sem buðust, og Klara sinnti sínu.
Það var svo í gegnum mág sinn Gunnar, sem giftur var Elínu Björk systur
hennar, sem Klara kynnist Heiðmundi Einari Klemenzyni. Hann var jú bróðir
Gunnars. Hæg heimatökin, en svona gekk þetta nú gjarnan fyrir sig hér í
gamla daga. Úr varð samband og svo hjónaband árið 1956 sem stóð allt þar til
Heiðmundur lést snemma árs 1992.
Fyrst um sinn bjuggu þau í Reykjavík en hlýddu kalli heimahaganna og
fluttu að Kaldbak árið 1958 og hófu þar sauðfjárbúskap. Klara hafði gaman af
kindunum og var mjög fjárglögg. Þær fengu gjarnan skemmtileg nöfn, kindurnar
hennar Göggu. Narfi Tómas Páll, Flangsvesenoglætiklanka, Ogennvætir
og Þrautir-vinnur-allar, svo dæmi séu tekin.
Saman eignuðust þau Klara og Heiðmundur tvær dætur, þær Elínu Guðrúnu
og Sigríði Helgu – Ellu og Siggu. Á bænum voru þau hjónin samstíga í verkum
og unnu til jafns bæði inni- sem útiverk.
Það var ekki tekið út með sældinni að hefja búskap á þessum árum og hafa þurfti
fyrir lífinu í sveitinni. En þau hjónin voru heppin með nágranna. Þingskálafólkið
og systkinin í Hrólfstaðarhelli mynduðu þéttofið samfélag með þeim hjónum og var
mikill samgangur á milli bæja. Það hafa eflaust verið erfiðir tímar og mikið álag á
Klöru að halda heimili og búi gangandi. Það hefði án efa verið nær ómögulegt ef
ekki hefði verið fyrir þetta þétta samfélag bæjanna í kring.
Klara var alla tíð mjög listræn og það lék allt í höndunum á henni, hvort sem
það var saumaskapur, listmálun eða útskurður. Hún gat á einhvern undraverðan
hátt skapað eitthvað úr engu. Hér á árum áður var pappír ekki á hverju strái
og meira að segja sígarettukartonin fágæt munaðarvara. Úr þeim klippti
hún fríhendis út allskonar pappafólk og pappadýr fyrir börnin sín. Stundum
sendi hún útklippt ævintýrin til barnanna á bæjunum í kring, þeim til gleði og
ánægju.
Klara var nefnilega listakona. Hana hefði langað til að læra myndlist og
leggja stund á listina. Sköpunargáfan leyndi sér ekki og eftir hana liggur mikill
fjöldi málverka sem prýða fjölmörg heimili.
Ekki var hún síðri við saumavélina. Henni fannst alla tíð gaman að punta sig
og vera píffleg, sem merkir að vera fínn í tauinu. Þegar á barnsaldri var hún farin
að sauma á systkini sín. Þegar blöðin bárust með myndum af nýjustu tískunni
vestanhafs, útvíðum buxum eða álíka pífflegum fatnaði, voru stúlkurnar á
Kaldbak daginn eftir komnar í útvíðar buxur.