Goðasteinn - 01.09.2023, Page 253
251
Goðasteinn 2023
Svo sem áður sagði, hóf unga parið sambúð í Kópavogi en flutti svo til
Reykjavíkur. Þau leigðu þar næstu árin, en reistu sér á meðan einbýlishús að
Teigagerði 12, sem þau urðu að selja þegar þau fluttu búferlum frá Reykjavík
með dætur sínar árið 1953 og hófu búskap hér á Mið-Grund. Hróbjartur bróð-
ir Siggu, sem ætlaði að taka við búrekstrinum með foreldrum sínum, lést í
hörmulegu slysi 26. sept. 1947 og í ljós kom að gömlu hjónin treystu sér ekki til
að búa áfram ein. Það er enginn vafi á að þessi ráðstöfun var ekki á óskalista
ungu hjónanna, en skylduræknin og hjálpsemin réðu för. Þau höfðu kynnst
þægindum rafmagnsins í Reykjavík, en hér var því ekki að heilsa á þeim tíma
og heimilisstörfin því erfiðari en ella. Sambúðin við eldra fólkið á bænum var
heldur ekki alltaf góð og Sigga talaði oft um það þegar frá leið, að ungt fólk og
eldra ætti ekki að reka saman heimili.
Sigga og Guðmundur reistu sér nýtt íbúðarhús á MiðGrund og fluttu inn
í það 1957. Árið eftir byggðu þau fjós og hlöðu og gerðu mikið átak í ræktun
jarðarinnar. Guðmundur glímdi við vandamál í lungum eftir að hafa fengið
berkla og legið á Vífilsstöðum, og heilsan versnaði við að meðhöndla heyið í
sveitinni. Svo fór að hann þurfti að leggjast á sjúkrahús þar sem hann greindist
með krabbamein. Þar lést hann 6. ágúst 1962, eftir snarpa baráttu. Þá stóð Sigga
ein uppi með sex börn, uppeldisson og aldraðan föður. Af miklu harðfylgi og
dugnaði hélt hún búskapnum áfram á Mið-Grund. Sýndi framúrskarandi fyr-
irhyggju og kom öllum börnum sínum á legg, af mikilli elju og ósérhlífni. Það
er öruggt að dagarnir hjá henni á þessum árum hafa verið langir og hvíldin
næsta lítil.
Þegar Guðbjörg, yngsta dóttirin, hafði lokið gagnfræðaskólanum árið 1975,
brá Sigga hinsvegar búi og Bára dóttir hennar og Lárus tengdasonur tóku við á
Mið-Grund.
Þá tók hún að sér störf í virkjunum Landsvirkjunar á hálendinu, þar sem hún
starfaði til nokkurra ára í mötuneytinu í Sigöldu og í 5 ár var hún ráðskona við
Hrauneyjafossvirkjun.
Eftir þennan kafla í lífinu flutti Sigga svo til Reykjavíkur aftur, þar sem hún
bjó um tíma. Hún hafði verið hagsýn á meðan hún vann uppi í virkjunum og
festi kaup á raðhúsi í Arnartanga í Mosfellsbæ og leigði út, flutti aldrei þar inn.
Seldi síðan þegar hún flutti til Reykjavíkur og keypti íbúð í Hrafnhólum og
síðar hús við Brekkubyggð 51 í Garðabæ. Þar bjó hún allt til þess tíma er hún
flutti á hjúkrunarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli í september árið 2011. Fyrir
sunnan starfaði hún sem ráðskona í Stálvík í Garðabæ í nokkur ár og síðar á
Vífilsstöðum, þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir.