Goðasteinn - 01.09.2023, Qupperneq 260
258
Goðasteinn 2023
Álftaveri. Foreldrar hans voru hjónin Þórunn Pálsdóttir, húsfreyja í Norðurhjá-
leigu, og Jón Gíslason bóndi þar og alþingismaður. Þau stofnuðu sitt fyrsta
heimili í Reykjavík en réðu sig svo sem ráðshjú að Geldingalæk á Rangárvöll-
um 1950–1951. Þaðan fluttust þau að Kastalabrekku í Ásahreppi, þar sem þeirra
beið mikið verk á nær húsalausri jörð. Þar byggðu þau allt upp, bæði íbúðar- og
peningshús, brutu land til ræktunar og komu sér upp glæsilegu og afurðasömu
búi, svo orð fór af. Voru þau Steinunn og Sigurður um árabil í hópi bænda sem
treyst var fyrir verknámsnemum úr Bændaskólanum á Hvanneyri, sem urðu
allmargir í áranna rás og áttu hjá þeim góða vist. Í Kastalabrekku bjuggu Stein-
unn og Sigurður óslitið af miklum dugnaði og elju í hálfa öld, til 2001, er þau
létu lokið ævistarfi sínu, brugðu búi og fluttust að Króktúni 14 á Hvolsvelli.
Sigurður lést 9. nóvember 2009.
Steinunn og Sigurður eignuðust átta börn. Elstur þeirra var Sveinn, f. 1951.
Hann lést 2017. Eftirlifandi eiginkona hans er Gróa Ingólfsdóttir, og börn þeirra
eru Sveinn Ægir, Steinunn Guðný, Hildur Kristín og Sigurður Bjarni. Næstelst
er Þórunn, f. 1954. Hún var gift Guðmundi Ágústssyni, en þau skildu. Börn
þeirra eru Ingibjörg, Ágúst, Sigríður Steinunn, Bjarni og Einar Þór. Þriðja í
röðinni er Sigurveig Þóra, f. 1957, gift Lárusi S. Ásgeirssyni. Synir þeirra eru
Ásgeir Bjarni og Sigurður Þór. Hildur er fjórða í röðinni, f. 1958. Hún var gift
Árna Sigurðssyni, en þau skildu. Börn þeirra eru Sigurður Jósef, Bjarni, Jón
Þór, Unnsteinn, Svavar, sem lést af slysförum 1997, og Svava Ósk. Bjarni var
fæddur 1961. Hann lést 1985. Sambýliskona hans var Hulda Hansen, og börn
hennar eru Berglind, Kristófer, sem lést 2016, og Emanuel. Guðlaug er f. 1965,
gift Agnari R. Agnarssyni. Börn þeirra eru Erlingur og Steinunn. Hjördís er
næstyngst, f. 1969. Hún var gift Aðalsteini Bjarnasyni, en þau skildu. Börn
þeirra eru Sóley Birna, Sigurður Nökkvi, Svanhildur Guðný og Arnbjörn Ósk-
ar. Yngst barna Steinunnar og Sigurðar er Jóna, f. 1970, gift S. Kolbeini Gunn-
arssyni. Synir þeirra eru Ólafur Helgi, Steinar Guðni og Kolbeinn Þór. Afkom-
endur Steinunnar voru við lát hennar 81 að tölu og að meðtöldu tengdafólki
111.
Steinunn reyndist öllum sínum stóra barnahópi afar ástrík og umhyggjusöm
móðir, þar sem enginn fór varhluta af kærleika hennar og blíðu, og hún studdi
við börnin sín í námi og störfum, í byr og andstreymi. Barnabörnin juku enn
við hamingju hennar og lífslán, þegar þau tóku að fæðast eitt af öðru, enda
fylgir blessun barni hverju og þeim fagnaði hún öllum af einlægu hjarta. Þrátt
fyrir miklar annir á stóru búi, þar sem Steinunn annaðist að mestu um kýrnar
og fjósaverkin, en Sigurður hafði fjárbúskapinn meira á sinni könnu, hafði hún
alltaf stund að gefa börnunum sínum, sinnug um smátt og stórt í lífi þeirra og