Goðasteinn - 01.09.2023, Side 261
259
Goðasteinn 2023
þörfum, og kom þeim öllum til þroska og manndóms. Hún var sannkallað höfuð
fjölskyldu sinnar, driffjöður í störfum og leik, jafnlynd og brosmild, glettin og
gamansöm, og gaf sig í öll verk af elju og þrótti, heilindum og samviskusemi.
Meðfram krefjandi bústörfum greip Steinunn í vinnu utan heimilis og vann
mörg haust við að salta gærur í sláturhúsinu í Djúpadal.
Eins og bústörfin og umgengnin við skepnurnar veittu Steinunni mikla gleði
og ánægju, var tenging hennar við náttúruna ekki síður fólgin í áhuga hennar
á ræktun blóma og trjágróðurs. Þannig ræktaði hún garðinn sinn í öllum skiln-
ingi, og kom upp fallegum görðum, bæði heima við bæ í Kastalabrekku og svo
í Króktúninu á Hvolsvelli, sem báðir vitnuðu um alúð hennar og næma tilfinn-
ingu fyrir lífi og gróðri.
Steinunn lét alla tíð mjög um sig muna í félagsstarfi sinnar sveitar og samfé-
lags, enda var hún félagslynd mjög og mannblendin, og lagði alls staðar gott til
mála. Hún var meðal stofnfélaga kvenfélagsins Framtíðarinnar fyrir 60 árum,
var virk í starfi Ungmennafélags Ásahrepps, sat um skeið í stjórn Slysavarna-
deildarinnar Gleym mér ei og átti um árabil sæti í sóknarnefnd Oddasóknar.
Eftir að þau hjónin voru flutt í Hvolsvöll tók Steinunn þátt í félagsstarfi eldra
fólks í héraðinu og stóð m.a. að stofnun Hrings, kórs eldri borgara í Rang-
árvallasýslu, enda var söngur alla tíð líf hennar, yndi og sálubót og setti mjög
svip sinn á heimilisbraginn í Kastalabrekku á sinni tíð, þar sem þau hjónin tóku
oft lagið saman í tíma og ótíma, heima í stofu eða í bílnum á leið í kaupstað;
alltaf var stund fyrir söng, og það breyttist ekki eftir að árin færðust yfir. List-
hneigðar Steinunnar sá víðar stað en í söngnum því hún var mikil hannyrða-
kona og liggur eftir hana viðamikið handverk af ýmsu tagi, prjónles, útsaumur,
saumaðar flíkur og hekl, og hún fékkst einnig við listmálun og postulínsmálun,
auk þess sem hún skar út í tré og þæfði ull. Má segja að flestir hlutir hafi leikið
í höndum hennar, því hún var laghent og útsjónarsöm og glögg á virkni ýmissa
tækja og tóla. Sjálf gerði hún við rafmagnstækin þegar þau biluðu fyrr á árum,
og Land Rovernum í Kastalabrekku hélt hún gangfærum.
Steinunn hafði mikla ánægju af ferðalögum innan lands og utan, og nýtti
tækifærin meðan nokkrar af dætrum hennar bjuggu erlendis til að heimsækja
þær.
Á Hvolsvelli tóku þau Steinunn og Sigurður upp nýja búgrein, ef svo má segja,
því þau ólu silungsseiði í kerjum að húsabaki, sem síðan var sleppt í Þúfuvatn.
Sú fiskirækt, bæði fyrr og síðar, lagði svo grunninn að margri ánægjustund fjöl-
skyldunnar við veiðiskap þar innfrá, og þar var Steinunn síst eftirbátur yngra
fólksins í veiðinni, enda fylgdi henni löngum kappið og áhuginn, hvort sem hún
var að spila við barnabörnin eða fylgjast með íþróttum í sjónvarpinu.