Goðasteinn - 01.09.2023, Side 264
262
Goðasteinn 2023
fyrir Þrótt og verktakafyrirtæki Gunnars Ásgeirssonar, vann uppi í virkjunum
og var í vikurflutningum.
Eftir að Sæmundur hætti með útgerðina flutti fjölskyldan austur á ný og
lengst af sinnar starfsævi vann hann á bílaverkstæðinu á Rauðalæk. Eins og
lífsstarf hans ber með sér hneigðist hugur hans snemma að bifreiðum og vélum
og öllu er þeim viðvék.
Þau hjón byggðu í félagi við Svövu dóttur sína húsið í Reiðholti sem er úr
landi MeiriTungu og fluttu þangað árið 2004.
Sæmundur var að eðlisfari rólyndur og dagfarsprúður í viðmóti. Hann var
hæglátur, heimakær og hlýr í viðmóti. Fjöskyldan var honum allt, þótt færri
stundir hafi gefist fyrr á árum til að sinna henni, þegar vinnan varð að ganga
fyrir til að hafa í sig og á. Hann var léttur í lund og átti auðvelt með að umgang-
ast fólk, var félagslyndur en átti líka auðvelt með að vera einn með sjálfum sér.
Hann var vinur vina sinna og alltaf tilbúinn að rétta fram hjálparhönd, fljótur
til þegar einhver í fjölskyldunni þurfti á aðstoð að halda, og ófáar eru ferð-
irnar sem hann hefur skutlast og handtökin sem hann hefur látið í té vinum og
vandamönnum.
En það fór enginn neitt með hann, því hann var fastur fyrir þegar því var
að skipta. Hann var næmur, bæði á mannlegar tilfinningar og börnin hændust
að honum. En hann sá líka og skynjaði það sem okkur flestum er hulið. Með
árunum lærði hann að lifa með þessu aukanæmi. En hann fann t.d. alltaf fyrir
„nágrannanum“ í hólnum í Reiðholti. Hann var fróður, hlustaði mikið á útvarp-
ið og var stálminnugur. Hann naut þess að fara til Vatna sem voru hans Paradís.
Þangað lá leiðin þegar kostur var á, og best þótti honum að una þar í faðmi fjöl-
skyldu og vina og eiga dætur hans, fjölskyldan og góðir vinir dýrmætar minn-
ingar frá slíkum stundum. Þau Þórunn ferðuðust einnig víða með dæturnar á
sumrin um landið meðan þær voru yngri og hann naut þess að ferðast bæði
innanlands og til annarra landa því nokkrar ógleymanlegar utanlandsferðir fór
hann í.
Hann var einn af þessum mönnum sem alltaf stóð með sínu fólki. Ráðagóð-
ur, góðviljaður, hreinskiptinn, hlýr í viðmóti og kíminn.
Sæmundur bar sig vel, þótt á móti blési. Þessi eiginleiki hans kom ekki síst
í ljós í hin seinni ár þegar hann tókst á við heilsubrest og var oft illa haldinn af
verkjum. Hann æðraðist ekki og hélt sínu striki meðan stætt var. Hann lést á
Sjúkrahúsi Suðurlands, 16. des. sl. eftir skamma sjúkrahúslegu.
Útför hans fór fram frá Árbæjarkirkju 30. desember 2022 og hann var jarð-
settur í Árbæjarkirkjugarði.
Halldóra J. Þorvarðardóttir