Goðasteinn - 01.09.2023, Side 268
266
Goðasteinn 2023
Þorsteinn var liðtækur félagsmálamaður, enda maðurinn félagslyndur mjög
og hafði mikinn áhuga á fólki og ánægju af kynnum við skemmtilegt fólk.
Hann lét um sig muna í félagsstarfi af ýmsu tagi austur á Rangárvöllum, m.a.
í starfi og verkefnum Lionsklúbbsins Skyggnis. Þorsteinn kom einnig að mál-
efnum sveitarfélagsins og átti sæti í bygginganefnd Rangárvallahrepps. Hæst
bar þó áhuga hans á starfinu, en hann lét sig miklu varða Vistheimilið í Gunn-
arsholti og velferð og aðstöðu vistmannanna, og hag þeirra bar hann mjög fyrir
brjósti. Þorsteinn var góðhjartaður mannvinur með stóran og opinn faðm, og
þeir góðu eiginleikar nýttust honum vel, bæði í einkalífi hans og flóknu og erf-
iðu starfi, þar sem reyndi mjög á innsæi og samúð með örlögum annarra, og
hann mátti hvergi neitt aumt sjá.
Þorsteinn og Helga keyptu sér sumarbústað í Hraunborgum í Grímsnesi
2003, og dvöldu þar sumrin löng síðan í þeim unaðsreit, sem færði þeim kær-
komna hvíld frá ys og þys borgarlífsins, og þar hefur fjölskyldan notið margra
góðra samverustunda síðan.
Þorsteinn var heilsuhraustur jafnan og kenndi sér sjaldan meins, og vantaði
nær aldrei í vinnu alla sína starfsævi. Hann var heldur ekki kvartsár, og eins og
hann sagði sjálfur, þoldi hann engan ræfildóm! Eftir áttrætt tók hjartabilun að
hrjá hann með tilheyrandi slappleika, og ágerðist þessi sjúkdómur síðustu tvö
árin. Þorsteinn dvaldi á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut síðustu tvær
vikurnar, þar sem sýnt var að hverju dró. Hann var ekki alls kostar sáttur við
þá hörðu kosti, því lífslöngunin var sterk og áhugi hans á lífinu óbilaður. En
hann vissi að hverju stefndi, gerði ráðstafanir með fallega skilnaðargjöf handa
Helgu, konu sinni, og kvaddi með reisn. Þorsteinn lést á þjóðhátíðardaginn, 17.
júní 2022, 84ra ára að aldri.
Þorsteinn var kvaddur frá Áskirkju 7. júlí 2022 og jarðsettur í Gufunes-
kirkjugarði.
Sigurður Jónsson
prestur í Áskirkju, Reykjavík