Bændablaðið - 15.08.2024, Síða 7
7Bændablaðið | Fimmtudagur 15. ágúst 2024
Í síðasta tölublaði Bændablaðsins, nú fyrir
sumarfrí starfsmanna, slógum við á létta
strengi og ákváðum að setja upp einhvers
konar stefnumótasíðu hér á blaðsíðu sjö.
Ekki er annað hægt að segja en áhuginn hafi
verið gífurlegur. Færri komust að en vildu í hóp
þeirra útvöldu, en fiðringur fór um landið þegar
við hófum úthringingar fyrir efnið.
Eftir að blaðið fór í dreifingu var eins og við
manninn mælt að ákafur skjálfti hríslaðist um
landsmenn. Fjölmiðlar gripu efnið, bæði útvarp
og blöð og vakti það mikla lukku. Til viðbótar
fengu starfsmenn Bændablaðsins sendar ýmiss
konar fyrirspurnir um hina lukkulegu aðila, auk
þess sem mikill áhugi var fyrir að fá að komast
að í næsta Bænder.
En nú velta áhugasamir lesendur væntanlega
fyrir sér upplifun þeirra sem tóku þátt í
Bændernum svo og hvort ástalíf þeirra hafi tekið
stakkaskiptum. Svarið við því er auðvitað ekki
á eina vegu, en öll áttu þau það sameiginlegt að
mæla hundrað prósent með því að taka þátt – ef
ekki væri fyrir annað en skemmtanagildið.
Aðspurð sögðu þau mörg hver ættingja og vini
hafa haft sérstaklega gaman af, en einnig gæfu
sig á tal við þau ókunnugir sem glottu við tönn
og /eða dáðust að þeim á einn hátt eða annan.
Nýjar vinabeiðnir streymdu til sumra
viðmælenda, einn var boðaður í viðtal hjá morgun-
útvarpi Rásar 2 og annar fékk bónorð frá
Bandaríkjamanni.
Sá þriðji sem rætt var við sagði heilt yfir
lítið nýtt að gerast í ástamálunum en vill
benda Viðskiptablaðinu á að það var nær eini
fjölmiðillinn sem ekki hampaði Bændernum.
Hefur það kannski bak við eyrað þegar Bænder
birtist aftur á síðum blaðsins.
Ekki er áætlað að halda stefnumótasíðu
Bændablaðsins sem reglulegum dálki, en
auglýsum auðvitað ef við tökum upp þráðinn. /sp
Ps. Farið var rangt með nafn Theodóru
Drafnar, hún er Skarphéðinsdóttir,
ekki Baldvinsdóttir.
Guðmundur Skúli Þorgeirsson fær hér stuðning og aðhlynningu eftir
sundafrekið hjá björgunarsveitarstúlkunni Sæunni Líf Christophsdóttur en
Guðmundur Skúli hefur synt tvisvar í klauffar Sæunnar og farið létt með.
Hólmfríður Bóasdóttir, hótelstóri í Holt Inn, er stolt þegar hún kemur í land, Hrönn ásamt bræðrunum Jóhanni og Jóni Ágústi taka á móti henni en sjóriða hrjáir sundmenn yfirleitt þegar stigið er upp úr sjónum.
Vísnahornið
Flestir komnir yfir miðjan
aldur muna Stefán Jónsson
fréttamann. Hnyttinn var
hann og hlífði fáum. Þessa
fékk fyrrum dagskrárstjóri
sjónvarpsins, Emil Björnsson:
Séra Emil giftir og grefur
glatt er í himnaranninum.
Eru á ferli úlfur og refur
í einum og sama manninum.
Þegar mynd birtist af Bjarna
Ben., þ.e. þeim eldri, sitjandi á
úlfalda, orti Stefán fréttamaður:
Áður voru ær og kýr,
yndi landsins barna.
En nú er komið kameldýr
í klofið á honum Bjarna.
Um Seltirning sagði hann:
Seltirningurinn sefur fast
í sínu bóli.
Ekki er þetta um hann last,
en ólíkt hóli.
Stefán var gráglettinn sem
hefur kannski erfst frá honum.
Orti hann um starfsmann RÚV
sem féll úr söðli og hlaut
höfuðskaða. Óttast var um
blæðingu á heila:
Um höfuðbrotið aðeins eitt,
ég inna vil.
Það blæðir aldrei inn á neitt,
sem ekki´er til
Ekki þarf að kynna Þórarin
Eldjárn. Hér er ein úr
Disneyrímum:
Nemur löndin Andrés önd,
argvítugur steggur.
Dauða hönd á dal og strönd
Disneyvélin leggur.
Alltaf er stutt í gamansemi
Þórarins:
Niðri í bæ var gömul geit
sem gekk þar teit í leit að beit.
Fann hún grænan gróðurreit,
grasið sleit og beit spikfeit.
Löggan kom í hamsi heit;
-Heyrðu geit, þú ert úr sveit.
Geitin sagði sár:- Ég veit.
Síðasta stráið beit. Og skeit.
Úr Gamanvísnabókinni:
Ef menn hafa ekki neitt
umtalsvert að segja
þá er nú svona yfirleitt
ágætt ráð að þegja.
Karl Sigtryggsson verkamaður
á Húsavík orti:
Argir knýja vindar vog,
velta skýjaborgir.
Margir flýja undan og
elta nýjar sorgir.
Egill Jónasson á Húsavík var
þekktur og snjall hagyrðingur.
Hann mun hafa sneitt að
kvensemi Karls Sigtryggssonar
í þessari:
Að þér lið var oft á sjó,
allra sviða manndóm barstu,
þóttir iðinn aflakló,
en aldrei miðaglöggur varstu.
Miklir jarðskjálftar urðu á
fimmta áratug síðustu aldar á
Húsavík. Níu mánuðum síðar
fæddust óvenju mörg börn:
Allt er í lagi okkur hjá,
eignast börnin hver sem getur.
Loksins bregður ljósi á,
landskjálftana í fyrravetur.
Umsjón: Magnús Halldórsson
mhalldorsson0610@gmail.com
Hefð er fyrir því að synt sé til heiðurs afrekskúnni Sæunni yfir
Önundarfjörð í ágúst og árið 2024 er engin undantekning.
Um sundið og Sæunni er ítarlega fjallað í 16. tölublaði Bændablaðsins
í fyrra og afrek hennar er þekkt. Í stuttu máli stóð til að slátra kúnni Hörpu
í sláturhúsinu á Flateyri í október 1987, það þóttu henni vond tíðindi og
óásættanleg, hún lék því á alla, sleit sig lausa og synti sér til lífs þvert yfir
Önundarfjörð. Þar var hún tekin í fjós á Kirkjubóli í Valþjófsdal og gegndi
hún nafninu Sæunn upp frá því.
Núna verður synt í klauffar hennar þann 31. ágúst og í anda Sæunnar
verður fyllsta öryggis gætt og til þess að svo megi verða þarf að leita til
björgunarsveita og kajakræðara á svæðinu til að fylgja afreksfólkinu yfir
fjörðinn, um það bil 2,5 km og stundum í ólgusjó. / bs
Sæunn setur öryggið á oddinn
Ívar Kristjánsson, öryggisstjóri og stjórnarmaður í Sæunnarsundi, mundar
hér sjónaukann og hefur vökult auga á öryggisgæslu sundsins. Honum
á vinstri hönd er Bernharður Guðmundsson frá Kirkjubóli í Valþjófsdal,
sonur Sigríðar og Guðmundar Steinars, sem tóku á móti Sæunni í fjörunni
í Valþjófsdal um árið. Bernharður er eins og Ívar í stjórn Sæunnarsunds
og forsprakki þessa árlega viðburðar.
Myndir / bs
Ef skip Landhelgisgæslunnar er á svæðinu renna þau inn fjörðinn og eru
til taks ef á þarf að halda.
Jón Ágúst, stjórnarmaður í Sæunnarsundi, leggur ætíð gjörva hönd á
undirbúning og öryggisgæslu og leiðir hann hér þaulvanar Sæunnar-
sundskonur, Magneu Hilmarsdóttur og Ernu Héðinsdóttur í öruggt skjól
eftir sundið yfir fjörðinn.
Bænder:
Sumarskjálftinn