Bændablaðið - 15.08.2024, Síða 20

Bændablaðið - 15.08.2024, Síða 20
20 Fréttaskýring Bændablaðið | Fimmtudagur 15. ágúst 2024 Koltvísýringur, CO2, er kolefnissameind samsett úr einni kolefnisfrumeind og tveimur súrefnisfrumeindum. Á meðan menn lifa af því að anda að sér súrefni, þá lifa plöntur á því að anda að sér koltvísýringi. Með ljóstillífun taka plönturnar koltvísýringinn úr andrúmsloftinu, kljúfa sameindirnar og nota kolefnið sem næringu og skila súrefni út í andrúmsloftið. Koltvísýringur er því lífsnauðsynlegur plöntunum. Hann er til staðar í andrúmsloftinu í ákveðnum styrkleika. Inni í gróðurhúsum, þar sem þéttleiki plantna er oft mikill, er hægt að auka styrkleika koltvísýrings með því að dæla honum inn í framleiðsluhúsin í ákveðnu magni. Með því eykst vöxtur og gæði plantnanna og starfsemi þeirra verður hraustari sem skilar sér í meiri og betri afurðum. Koltvísýringur er því mikilvægt hráefni í ylræktarframleiðslu. Oft er talað um kolsýru í þessu samhengi, eða fljótandi CO2, en til samræmingar verður hér talað um koltvísýring. Framleiðslubrestur vegna skeytingarleysis Aðeins eitt fyrirtæki á landinu, Linde Gas, útvegar koltvísýring hér á landi. Á undanförnum árum hefur megn óánægja aukist meðal viðskiptavina þeirra með viðskiptahætti fyrirtækisins. Lýsir það sér meðal annars í skeytingarleysi gagnvart garðyrkjuframleiðslunni, þannig fá bændur ekki það magn af koltvísýringi sem þeir hafa skuldbundið sig til að kaupa og afhending hefur verið gloppótt. „Það hafa komið tímabil þar sem við fáum annaðhvort tilkynningu um að ekki sé hægt að afhenda vöruna, eða þá að það sé frestun á afhendingu og við því beðin um að skrúfa niður í gróðurhúsunum og spara á meðan,“ segir Axel Sæland, formaður búgreinadeildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands. Bændur hafi lent í því að vera koltvísýringslausir svo vikum skiptir sem hefur bein áhrif á framleiðslumagn og gæði afurðanna. Þetta kemur aftur niður á rekstraröryggi garðyrkjustöðvanna. Axel segir að Linde Gas hafi sett fyrir sig skort á koltvísýringi. „Þeir vitna yfirleitt í þá borholu sem þeir hafa verið að vinna úr hér á landi,“ segir Axel og vísar þar í Hæðarenda í Grímsnesi. „Þeir segja að borholan sé ekki að sinna því sem þeir vonuðust til. Þá hefði maður haldið að innflutningur ætti að koma í staðinn, þótt það sé bagalegt að flytja inn til landsins koltvísýring. En þetta er nauðsynleg vara og maður hefði ætlast til þess að fyrirtækið myndi sinna sínu hlutverki, því það hefur augljóslega leiðirnar til að tryggja sér koltvísýring.“ Axel bendir á að fyrirtæki sem séu með einokun á markaði lúti ákveðnum skuldbindingum gagnvart markaði. „Markaðurinn er í dag háður þessu fyrirtæki á Íslandi. Þeir þurfa að vanda til verks og það á að vera viðskiptavinum til góða að geta leitað til trausts aðila.“ Viðskiptalegur aulaháttur „Við erum að keyra 800–900 ppm í húsunum. Í andrúmsloftinu er styrkurinn um 430 ppm,“ útskýrir Hafberg Þórisson, forstjóri garðyrkjustöðvarinnar Lambhaga sem framleiðir salat. Þegar framleiðsluhúsin hafi engan auka koltvísýring séu plönturnar fljótar að nýta það sem til er í andrúmsloftinu og styrkur koltvísýrings fellur. „Og þegar ppm-ið er komið niður í tvö hundruð, eins og oft hefur átt sér stað, þá er enginn vöxtur í plöntunum.“ Hafberg segir að sér virðist sem forsvarsmenn Linde Gas átti sig ekki á þeim vanda sem upp komi í framleiðslunni þegar stöðvar verða koltvísýringslausar. Hann hafi ekki fengið það magn sem hann hafi samið um og hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þessa. „Við notum nær tíu tonn á mánuði. Í tönkunum eru sjálfvirkir mælar sem gefa boð í stöðvarhúsið til þeirra og þá eiga þeir að koma og afgreiða mig.“ Það hafi hins vegar ekki gengið eftir og segir Hafberg þetta afskiptaleysi valda því að hann vilji geta leitað til annarra aðila sem afhenda koltvísýring á öruggari hátt. „Ég ætla mönnum ekki að þeir séu illir út í okkur. Þetta er bara viðskiptalegur aulaháttur sem kemur illa niður á okkur.“ Stórfyrirtæki í einokunarstöðu Árið 1983 var borað fyrir heitu vatni að Hæðarenda í Grímsnesi. Í vatninu sem fannst kom gas sem reyndist vera nær hrein kolsýra. Sett var upp vélasamstæða og fyrirtækið Kolsýruvinnslan var stofnað árið 1988 sem seldi garðyrkjubændum og drykkjarvöruframleiðendum koltvísýring. ÍSAGA er fyrirtæki sem stofnað var árið 1919 í samstarfi við sænska fyrirtækið AGA. Fyrirtækið starfaði á markaði fyrir innflutning, framleiðslu, sölu, leigu og dreifingu á gashylkjum, gasi og öðrum lofttegundum. Árið 1998 keypti ÍSAGA verksmiðjuna á Hæðarenda og lagði um leið niður efnaverksmiðjuna Eim sem fyrirtækið hafði keypt árið 1994. Eimur framleiddi koltvísýring í Þorlákshöfn. Var þá öll framleiðsla og sala á koltvísýringi komið undir eitt fyrirtæki. Árið 1999 keypti þýska efnafyrirtækið Linde fyrirtækið AGA og eignaðist þar með ÍSAGA. Árið 2012 tók ÍSAGA svo yfir viðskiptasamninga og lausafé fyrirtækisins Strandmöllen ehf. sem seldi hér lofttegundir fyrir málmiðnað og heilbrigðisgeirann. Við þá yfirtöku myndaðist einokunarstaða á markaði hér á landi, að því er fram kemur í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 15/2013. Árið 2020 var nafni fyrirtækisins ÍSAGA breytt í Linde Gas. Linde hafði runnið saman við bandaríska gasfyrirtækið Praxair árið 2018. Samsteypan Linde plc er því langstærsta gasfyrirtæki í heimi og raðar sér árlega á lista stærstu fyrirtækja jarðar. Á vef félagsins segir að starfsemi fyrirtækisins sé í yfir hundrað löndum og hjá því starfi yfir áttatíu þúsund manns. Höfuðstöðvar Linde Gas á Íslandi eru við Búðarhellu í Hafnarfirði en skráðir eigendur fyrirtækisins eru sænskir; þeir Jonas Anders Nyström, Robin Lars Olofsson og Klas Fredrik Stylander. John Olander er forstjóri Linde Gas. Guðrún Hulda Pálsdóttir gudrunhulda@bondi.is Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á ylræktarframleiðslu á Íslandi. Bændur segja að fyrirtækið Linde Gas notfæri sér markaðsráðandi stöðu sína á vafasaman hátt. Einn garðyrkjubóndi fékk nóg og tók málið í sínar eigin hendur. Garðyrkja: Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.