Helgarpósturinn - 11.12.1986, Page 19

Helgarpósturinn - 11.12.1986, Page 19
JÓHANNA KRISTJÓNS- DÓTTIR, MORGUNBLAÐINU: ENGINN TELJANDI LJÓÐUR AÐ VERA FLJÓT AÐ LESA! Það fer mikið eftir því hvernig bækur eru á ferðinni hvernig ég vinn gagnrýni. Sumar bækur hrað- les ég og grauta í þeim, fæ hugmynd um efnið, legg þær frá mér og geymi í fáeina daga áður en ég les þær aft- ur. Aðrar bækur hraðles maður ekki, les kannski 10—20 blaðsíður í einu og hvílir sig. Eg get verið með 2—3 bækur í takinu í einu en það fer að sjálfsögðu eftir bókunum og mik- ill munur er á hvort um er að ræða skáldverk sem maður tekur hátíð- lega eða til dæmis bók um kyn- reynslu kvenna. Það er útilokað að hafa sömu vinnubrögð. Hversu margar bækur ég kemst yfir að lesa í jólavertíðinni er líka mjög misjafnt. Ég fékk til dæmis í hendur í fyrradag bók sem ég las á þremur klukkustundum og myndi treysta mér til að endursegja — en á samt eftir að lesa hana. Undanfarna daga hef ég verið að lesa nýjustu bók Sigurðar A. Magnússonar og mun ekki skrifa ritdóm um hana strax og einnig hef ég verið að lesa bókina eftir Milan Kundera sem er mjög seinlesin. Sumar aðrar bækur er hægt að gleypa í sig. Annars er ég afskaplega fljót að lesa, enda er ég af þeirri kynslóð þegar allt var lagt upp úr hraða. Ég tel það engan telj- andi Ijóð á ráði mínu því ég skrifa aldrei um bók nema hafa lesið hana að minnsta kosti tvisvar. Ég er líka frekar fljót að skrifa ritdóm því' ég skrifa sjaldan nokkuð fyrr en ég hef lagt niður fyrir mig hvað ég ætla að segja. Ég man ekki eftir neinu tilviki þar sem ég hef skipt um skoðun á bók eftir að hafa skrifað um hana ritdóm en það er ekki þar með sagt að slíkt geti ekki gerst. Yfirleitt er maður ekki að lesa sömu bækurnar upp aftur og aftur, að minnsta kosti líður þá einhver tími á milli. GUNNLAUGUR ÁSTGEIRS- SON, HELGARPÓSTI: TÍMI EKKI AÐ LESA GÓÐAR BÆKUR HRATT Yfirleitt vinn ég gagnrýni þannig að ég les bókina í striklotu, bíð síðan í nokkra daga, hugsa um hana og læt hana meltast. Meðan á þeim bið- tíma stendur fer ég jafnvel að lesa aðrar bækur. Siðan sest ég niður með bókina, blaða í gegnum hana og glöggva mig betur á henni. Yfir- leitt skrifa ég lítið hjá mér en það fer þó eftir því um hversu umfangsmikl- ar bækur er að ræða. Það er ómögulegt að svara hversu fljótur ég er að lesa, það veltur á hversu löng bókin er og huernig hún er. Ég get verið mjög fljótur að lesa enda hef ég komið mér upp ákveð- inni tækni við lestur og fór eitt sinn á hraðlestrarnámskeið sem nýtist mér stundum vel. Ef ég er að lesa góðan texta þá tími ég hins vegar ekki að lesa mjög hratt. Góðar bæk- ur sem mér finnst varið í les ég því hægt en þær sem mér finnst illa skrifaðar les ég hratt. Oftast nær er ég fljótur að skrifa ritdóma því þegar ég er búinn að hafa bók í bakþankanum í nokkra daga er ég búinn að forma mér skoðun, ákveða og setja í röð það sem ég vil láta koma fram. Að vísu bögglast það þó stundum fyrir mér. .. Það að skrifa ritdóm er endapunktur á lengra og flóknara ferli og er í rauninni minnsta vinn- an, en getur tekið allt frá tveimur tímum upp í heilan dag. Ég hef aldrei talið hversu margar bækur ég les fyrir jól og á erfitt með að svara því, enda les ég fleiri bækur en þær sem ég skrifa um. Það eru þó alltaf einhverjir tugir. Ég veit ekki hvort ég geti sagt að ég breyti um skoðun á bókum frá fyrsta lestri, en eðlilega skoðar mað- ur bækur í mismunandi samhengi. Þegar maður fær í hendur ferska bók skoðar maður hana gjarna í samhengi við aðrar bækur sem eru að koma út, eða í samhengi við það sem höfundur hefur áður skrifað en þegar frá líður getur maður hins vegar séð hana í víðara samhengi og öðruvísi. Þetta fer alveg eftir því hvernig maður tekur á verki því maður notar ekki alltaf sömu aðferð og það veltur á verkinu hvaða leið er best að fara. Að minnsta kosti nota ég ekki ákveðna formúlu. Mér finnst dagblöðin eiga að upplýsa um ákveðna hluti, um hvað bókin er, út á hvað hún gengur og hvernig þetta er gert. í stuttum ritdómum forðast ég að nota mjög greinandi aðferð og reyni heldur að gefa lesandanum hugmynd um bókina. ÁRNI BERGMANN, ÞJÓÐVILJANUM: ÉG ER FEIKNARLEGA FLJÓTUR AÐ LESA Það fer alveg eftir bókinni hversu langan tíma ég er að vinna að gagn- rýni. Nýtt íslenskt skáldverk krefst til dæmis margfalt meiri tíma en þýdd, klassisk skáldsaga og ævisaga er annað en íslenskt skáldverk, sem krefst mesta tíma og einbeitingar að mínu mati. Ég held að sjálf vinnan við gagnrýnina sé svipuð hjá öllum sem skrifa ritdóma: að skrifa niður hjá sér ákveðin atriði jafnóðum og ef ekki gefst tími til að lesa bókina tvisvar að fara þá betur yfir einstök atriði. Það er misjafnt hversu margar bækur ég les en af reynslu liðinna ára sýnist mér það vera tvær til þrjár bækur á viku. Stundum verða þær fleiri ef ég bæti við ljóðakver- um eða barna- og unglingabókum sem eru fljótlesnar. Bókafjöldinn getur þannig farið frá tveimur upp í fimm bækur á viku í nóvember og desember. Ég er feiknarlega fljótur að lesa, það er nokkuð sem ég kom mér upp á skólaárunum, en það er geysilega misjafnt hversu fljótur ég er að skrifa ritdóminn. Yfirleitt gengur það þó vel fyrir sig þegar ég er kominn niður á ákveðna línu, hvernig ég ætla að veita upplýsing- arnar og það sem ég hef um bókina að segja. Ég held að flestir breyti um skoð- un á verkum frá því þeir lásu þau fyrst, en slíkt gerist ekki á einhverj- um dögum eða vikum, heldur miklu fremur árum. Það er alltaf að gerast og fer eftir þeirri breytingu sem verður á manni sjálfum milli ára. Það besta væri að láta einhvern tíma líða frá fyrstu lesningu og þar til ritdómurinn er skrifaður en því miður er sjaldan tími til þess. Bjarni heitinn frá Hofteigi sem skrifaði gagnrýni fyrir Þjóðviljann í u.þ.b. tvo áratugi var til dæmis stundum fram á vor að skrifa ritdóma um jólabækurnar. Það væri eflaust æskilegt því langbest er að geta lát- ið ákveðnar bækur eiga sinn tíma í huganum áður en skrifað er um þær. Jóhanna Kristjónsdóttir: „Sumar bækur hraðles ég. Aðrar bækur hraðles maður ekki..." Gunnlaugur Ástgeirsson: ,,T(mi ekki að lesa góðan texta hratt." Árni Bergmann: „Best væri að láta ákveðnar bækur eiga sinn tíma ( huganum áður en ritdómur er skrifaður." HELGARPÓSTURINN 19 B

x

Helgarpósturinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.