Dagur - 12.12.1991, Blaðsíða 13

Dagur - 12.12.1991, Blaðsíða 13
Fimmtudagur 12. desember 1991 - DAGUR - 13 Hvað veist þú um það? spyr ég: Þú þekkir ekki Halldór H. af eigin raun. Þú reiðir þig á sögu- sagnir og þykist allt vita. Þó að þú lokir þig hér innan fjögurra veggja og lítir ekki einu sinni út um gluggann til að kíkja á stelpur. Þetta ljúfa vín, sem gælir við góm, er auðvitað frá Jerez de la Frontera, segir Nóri: Ég býst við að þú þekkir þar hverja þúfu. Viltu meira? Ég hef aldrei komið á bakka Gvaðalkívír-ár en ég veit nú samt sitt af hverju. Ég veit að markgreifinn, sem bruggar þetta vín og geymir á reyktum viðar- tunnum og færir úr einni tunn- unni í aðra á tveggja ára fresti áratugum saman áður en því er tappað á flöskur, hlaut fyrstu verðlaun fyrir hrossin sín í heims- keppninni í Austurríki í fyrra og að næstelsti strákurinn hans, sem er 67 ára, er alltaf að lenda í slagsmálum fyrir það hvað hann er orðljótur við bláókunnugar yngismeyjar á kvöldgöngu undir pálmatrjánum. Þetta veit ég þó ég hafi aldrei til Jerez komið. Og margt fleira. Vissir þú þetta? Nei, auðvitað ekki, það vissi ég. Áttu kannski frændfólk í Andalúsíu? spyr ég. Nóri svarar ekki þessari spurn- ingu. Hann tekur bláa og gráa Bing og Gröndal styttu af dreng með bolta upp af litla, innlagða hliðarborðinu þar sem hann hef- ur tyllt glasinu sínu, lyftir danska stuttbuxnadrengnum upp að and- litinu og skoðar hann í krók og kring. Hvað er það sem þú kallar „monkíbisnis“? spyr ég. Liljubetrekkið fræga og allar hinar byggingarvörurnar frá Garðari Gíslasyni eru ágæt dæmi, svarar Nóri: Annað er eft- ir því. Hvar sem er í öllum fyrir- tækjunum þar sem hann hefur tökin. Hann sleppir aldrei neinu tæ.kiþeri. Gengur alls staðar eins langt og hægt er. Stundum lengra, eins og í betrekksmálinu. Það kostaði hann meðlimsskírteinið í Arkitektafélaginu. En það verð- ur líka að gæta þess að við erum ekki að tala um neitt smáræði af veggfóðri. Margir hneykslast á þessu, heldur Nóri áfram: En ekki þeir sem öllu ráða. Halldór H. hækk- ar í áliti hjá þeim ef eitthvað er. Stundum gengur hann þó aðeins lengra en einhverjir geta sætt sig við. Samanber hvernig Mogginn brást við innherjaviðskiptunum í Eimskip. Það er auðvitað ekki út í hött að líkja hlutabréfakaupum Halldórs H. og Indriða og Harð- ar á skrifstofu Eimskipafélagsins við viðskiptasiðferði Rómönsku Ameríku. Að minnsta kosti eru allir sammála um það að í öllum sæmilega siðmenntuðum löndum væru þeir félagar komnir á bak við lás og slá. Meira að segja amma bílaviðgerðarmanns frænda míns og hún var nú einu sinni dómsmálaráðherra og ætti aldeil- is að vita hvað hún er að tala um. Nóri stendur upp og hellir hægt og rólega í fallegu, litlu kristals- glösin handa okkur. Hann talar mjög hægt, eins og hann þurfi að leita að hverju orði: Ég veit ekki hvort þú skilur til fulls hvaða hástéttarlíf það er sem Halldór H. er tákn fyrir og hvaða lífsstíll það er sem við erum þarna að ræða um. Þetta er alveg sérstakt „sósæétí“ hér í landinu. Þetta er fólkið sem kaupir dýru málverkin. Ekki á uppboðunum, heldur svona prívat. Þetta er fólkið sem byggir þessar fínu og risastóru „villur“, býður hvert öðru í lokaðar smók- ing- og síðkjólaveislur á einka- heimilum, heldur þessa gríðar- legu höfðingjasumarbústaði. Svona býr það sér til sérstakan heim, sem þetta áhrifafólk lifir í. Á sumrin er riðið á úrvalsgæðing- Guðni Þórðarsson. Ingólfur Guðbrandsson. Björn Theódórsson. um milli laxveiðiánna og rætt um málverkakaupin. En þetta er lok- aður selskapur og mottóið er að láta ekki mikið á sér bera út á við. Þegar yfirlitssýningar eru á verkum meistara íslenskrar mynd- listar og við myndir stendur „í einkaeign“, þá eru eigendurnir yfirleitt úr þessum hópi. Tengdafaðir dótturdóttur konu, sem keypt hefur öll sín magabelti af mömmu í 49 ár, var í skóla með einhverjum af sonum Halldórs H. og tíður gestur á heimilinu, segir Nóri: Hann segir sögu sem lýsir vel siðfágun Hall- dórs H. Stór og mikil mynd eftir Svavar Guðnason, sem einmitt var á yfirlitssýningu á verkum Svavars fyrir fáeinum árum, hékk niðri í kjallara í herbergi, sem strákarnir notuðu til samkomu- halds á námsárunum. Eitt kvöld- ið voru svo allt í einu komnar tvær Kjarvalsmyndir í staðinn á kjallaravegginn. Þá stóð yfir boð uppi á loftinu til heiðurs Svavari Guðnasyni og hafði myndin þá auðvitað verið flutt upp í stofu á meðan. Daginn eftir var Kjarval kominn upp á loft og Svavar aftur niður. Sami maðurinn kveðst oft hafa orðið aldeilis hlessa á flókinni matseld, fjölda fagurskreyttra rétta og því hvernig Margrét gat galdrað þetta allt fram án þess að blása úr nös, prúðbúin, elskuleg og brosandi, heldur Nóri áfram: Síðan var hann í fyrravetur boð- inn af einhverju tilefni í skólann þar sem atvinnukokkar læra til verka á íslandi. Einhvern veginn atvikaðist það svo að skólastjór- inn fór að segja þessum manni, sem er prestur að atvinnu, að hann hefði ekki haldið jólin hátíð- leg með fjölskyldu sinni í mörg ár. Ástæðan var sú að hann vann hjá Þorbirni í Borg sem yfirmat- sveinn og stóð öll jólin pung- sveittur að elda ofan í vinafólk Þorbjörns, höfðingjafjölskyld- urnar í bænum. Á aðfangadag sagðist hann ævinlega hafa mat- reitt rjúpurnar handa fjölskyldu Halldórs H. Jónssonar. Hann sagðist líka hafa matbúið fyrir allar veislur á því heimili árum saman. Þá varð klerki loks ljóst í hverju galdurinn við matseldina á Ægisíðunni í gamla daga var fólginn. Prestur sagði að sér þætti gam- an að vita hvernig Þorbjörn hefði reikningsfært þessi viðskipti, seg- ir Nóri: Hvort hann hefði verið að rukka þessa vini sína, Halldór H. og aðra pótentáta sem áttu heldur betur hönk upp í bakið á honum? Eða var það bara skrifað á reikning fyrirtækjanna sem hann skipti við? Það héldu sumir að Kjötbúðin Borg væri ekki annað en þessi litla búðarhola við Laugaveginn. En að húsabaki voru skúrar þar sem útbúinn var í stórum stíl matur í öll mötuneyt- in sem byggingarfyrirtækin ráku. Þannig varð Þorbjörn í Borg vell- ríkur. Hann eignaðist meira að segja stóran hut í Sameinuðum verktökum." í síðasta kaflanum sem hér birtist er komið inn á samkeppn- ina í ferðaskrifstofurekstrinum. Stúss í kringum almenning „Flugfélag íslands og Eimskip settu fyrir röskum tveim áratug- um á stofn ferðaskrifstofuna Úrval. Tilurð þess fyrirtækis lýsir Nóri svo: Einhver framsóknarmaður, blaðamaður af Tímanum, Guðni Þórðarson, stór og mikill rumur, stofnaði fyrirtæki, sem hann kall- aði Sunnu, á sjöunda áratugnum. Ekki leið á löngu áður en Guðni í Sunnu tók til dæmis upp á þeim andskota að leigja skemmtiferða- skip oj» sigla með þau drekkhlað- in af Islendingum í lystiferðir til útlanda. Þú getur ímyndað þér hvernig þetta fór í þá sem áttu að passa að enginn utanaðkomandi færi að sigla með fólk um hafið sem Guð hafði úthlutað Eim- skipafélaginu. Fólk hljóp til og keypti sér far með Guðna, án þess að fá svo mikið sem sam- viskubit yfir því sem það var að gera Eimskipafélaginu með því að fara ekki frekar með Gullfossi til Edinborgar eða Kaupmanna- hafnar. Það gat valið um báða þessa staði. Og það var fjandans nóg. En þú veist hvað fólk getur verið heimtufrekt og blint þegar skemmtanafíknin nær tökum á því. Fleiri höfðu tekið upp á svona fíflagangi áður, en þessi sami Guðni var líka farinn að flytja fólk í þúsundatali flugleiðis til Mallorca þar sem það eyddi sum- arfríinu, sukkaði og sólundaði gjaldeyri með öðrum Norður- landabúum og Englendingum. Að vísu leigði hann yfirleitt flug- vélar af Flugfélagi íslands til þessara flutninga en það var alls ekki hægt að treysta honum. Það sýndi sig best þegar hann vildi ekki sætta sig við verðið, sem átti að skammta honum eitt sumarið, og var svo óskammfeilinn að gera samning við Loftleiðir. Annar ámóta frakkur utan- garðsmaður, barnakennari að nafni Ingólfur Guðbrandsson, þú þekkir nú kauða, var líka farinn að leigja flugvélar og senda ógn- arstórar hjarðir af íslensku fólki, sem sumt hafði aldrei komið til útlanda áður, suður að Miðjarð- arhafi þar sem það drakk og drabbaði fyrir skít á priki og söng „Yfir kaldan eyðisand“ við flam- enco-undirleik. Og þarna varst þú eitt sinn hjarðsveinn, góði minn. Suður í déskotans svækj- unni. Þó að þetta sólarlandapakk væri að megninu til sauðsvartur almúgi sem hvorki kunni nægi- lega mikið í tungumálum og mannasiðum til að ferðast á eigin spýtur né átti fyrir farseðlum á réttu verði með Flugleiðum, slæddist alltaf eitthvert almenni- legt borgunarfólk með. Sem sé spónn úr þeirra aski. Og það var heldur aldrei að vita hvar þetta endaði með Sunnu og Útsýn. Svo græddu þrjótarnir á tá og fingri meðan bullandi tap var hjá sjálfu Flugfélaginu, sem átti að hafa öll ferðamálin í friði fyrir sig. Ráðamönnum Eimskips og Flugfélagsins kom því sjálfum í hug að stofna ferðaskrifstofu til að kenna þessum nýríku bögu- bósum lexíu. Ferðaskrifstofan hét Úrval. Fenginn var afskap- lega geðfelldur ungur maður sem hafði brennt sig svo í ævintýra- mennsku á þessu sviði, ásamt með skátaforingja þínum sem stakk af og gerðist ráðgjafi afrísks einræðisherra, að hann hafði fengið ákafa löngun til að starfa undir vernd stórveldis. Það var Steini, sonur Lárusar Blöndal bóksala, bróður Guðmundar hagyrðings í Lindu-umboðinu, frænda Ástmundar í Stálsmiðj- unni og Sveins í Héðni. Allt önd- vegismenn. Vondur var Ingólfur, en verri var Guðni. Það var því rökrétt að byrja á því að knésetja hann. Úrval fór að fljúga til Mallorca og átti nú aldeilis að sópa sólar- landamarkaðinn. En nýja ferða- skrifstofan átti, þrátt fyrir þessa sterku bakhjarla, frá byrjun mjög erfitt uppdráttar og voru ferða- skrifstofur brautryðjendanna tveggja, Útsýn og Sunna, nær alls ráðandi á markaðnum enn um hríð. Svo reis upp á vegum sam- vinnumanna fyrirtækið Sam- vinnuferðir. Það sameinaðist síð- ar ferðaskrifstofunni Landsýn, sem verkalýðsfélögin keyptu í því augnamiði að auðvelda nið- urgreiðslur á sólarlandaferðum til handa meðlimum sínum. Þessi ójafna samkeppni var erfið fyrir einkareksturinn. Samningar um leiguflug við Flugfélagið urðu erfiðari eftir að Úrval hóf starfsemi sína. Sunna fór fljótlega sjálf út í flugrekstur, sem átti eftir að verða hennar banabiti, þótt hún sigraði í sam- keppninni um Mallorca-farþeg- ana. Flugleiðir urðu, eftir sam- einingu 1974, enn erfiðari samn- ingsaðili um leiguflug, eftir því sem einokunarstaða þeirra styrktist, auk þess sem allar nýju og gömlu ferðaskrifstofurnar urðu sífellt skuldugri þeim vegna uppgjörs fyrir farmiðasölu með áætlunarfluginu. Guðni pakkaði saman á seinni hluta áttunda áratugarins, en Ingólfur hélt áfram að berjast við vindmyllurnar nær allan níunda áratuginn þar til herkostnaðurinn hafði etið upp allar fyrningar hans frá góðæristímunum og hann missti fyrirtæki sitt, Útsýn, í hendur nýs eiganda. Sá rekstur gekk ekki betur en svo að Ómar Kristjánsson í Þýsk-íslenska nennti ekki að standa í þessu og Flugleiðir eignuðust Útsýn. Þá datt einhverjum það snjall- ræði í hug að pússa Útsýn saman við Úrval og búa til ferðaskrif- stofuna Úrval-Útsýn. Hvorugt fyrirtækið átti miklar eignir. í rauninni var bara verið að sam- eina tvö tapfyrirtæki. Útsýn hafði þó átt sitt mikla blómaskeið, en Ferðaskrifstofan Úrval hafði tap- að fé jafnt og þétt í tvo áratugi. Og flest það starfsfólk Útsýnar, sem slægur var í, þeir sem starfað höfðu með Ingólfi Guðbrands- syni að því að byggja hérlendis upp vandaða ferðaþjónustu, flutti sig yfir í Ferðamiðstöðina- Veröld. Hvað gera fulltrúar eigend- anna þegar illa árar í fyrirtækjum sem þeir hafa allt vald en engin tök á? Þeir skipta um stjórnend- ur. Og nú eru þeir aftur og aftur búnir að skipta um framkvæmda- stjóra, en rekstrarárangurinn heldur áfram að vera slakur og markaðshlutdeildin í hópferðum var ekki nema um 20% árið 1990. Þetta er lýsandi dæmi um það að stjórnunarstíll og rekstrarhættir einokunarfyrirtækja duga illa í venjulegri samkeppni, þar sem viðskiptavinurinn hefur um marga kosti að velja. Traust sérþekking, góð þjón- usta og gömul, jafnvel persónu- bundin viðskiptavild veldur miklu um það hvert einstaklingur beinir viðskiptum sínum. Ekki ólíkt því að fara í klippingu eða hárgreiðslu. Verðið er svipað, því að allar þessar íslensku ferða- skrifstofur eru of litlar til að ná svo mjög hagstæðum samning- um. Hvorki Eimskipafélagið né Flugleiðir geta veitt starfsfólki sínu reynslu í samkeppni við önnur fyrirtæki. Þar vantar helsta hvatann. Venjulegur flugfarmiði til London fæst bara með Flug- leiðum, á sama verði hvar sem hann er keyptur. En ef fólk vill fara í frí til Suðurlanda, er um tugi möguleika að velja, margvís- leg þjónusta í boði á mjög mis- munandi verði. Mér þykja þetta nokkuð athyglisverðar vangaveltur hjá Nóra á sviði þar sem ég er, eða öllu heldur var talsvert vel heima. Og hvort sem það er rétt að snilld Eimskipafélagsmanna í hagræðingu og stjórnun njóti sín síður við ein skilyrði en önnur, þá er það staðreynd að eina ferða- skrifstofan sem ekki þarf að semja við eiganda samkeppnisað- ila síns um dýrasta kostnaðarþátt „framleiðslu" sinnar, skarar ekki fram úr á sínu sviði, nema síður sé. Flugleiðir og Eimskip hafa átt Úrval-Útsýn saman. í ársskýrslu Eimskipafélagsins, sem lögð var fyrir hluthafa á aðalfundinum í mars 1991, er bókfærður eignar- hlutur skipafélagsins í ferðaskrif- stofunni 35 milljónir króna og til- greint að það nemi 18,5% eignar- aðild. Öll eignin væri með sama útreikningi metin á 190 milljónir. Á árinu 1991 mun sú breyting hafa orðið, að Úrval-Útsýn hafi að öllu leyti orðið eign Flugleiða. Ekki er ljóst hvaða umskipti önn- ur þetta hefur í för með sér, en Hlutafélagaskrá hafði síðsumars 1991 ekki borist tilkynning um nýja stjórn, enda eru Eimskipa- félagsmennirnir tveir jafnframt úr hópi hinna valdamestu í stjórn Flugleiða eins og sjá má. Björn Theódórsson, stjórnar- formaður, og Pétur J. Eiríksson eru báðir framkvæmdastjórar hjá Flugleiðum. Björn er jafnframt varastjórnarmaður í Flugleiðum. Meðstjórnandinn Indriði Páls- son er væntanlega orðinn kunnur lesendum bókarinnar sem fyrr- verandi forstjóri og núverandi stjórnarformaður Skeljungs, varaformaður Eimskips, vara- maður í bankaráði íslandsbanka, stjórnarmaður og stjórnarnefnd- armaður í Flugleiðum. Varamaðurinn Hörður Sigur- gestsson er forstjóri annars móð- urfélags ferðaskrifstofunnar og stjórnarformaður hins. Vonandi hefur hann atkvæðisrétt og mál- frelsi á fundurn þó að hann sitji aðeins í varastjórn.“ Úrval-Útsýn hf. Stjórn: Björn Theódórsson, formaður Indriði Pálsson Pétur J. Eiríksson Varamenn: Einar Helgason, Hörður Sigurgestsson Framkvæmdastjóri: Hörður Gunnarsson Stjórn Úrvals/Útsýnar hf. Allar myndirnar í opnunni eru úr bókinni.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.