Lesbók Morgunblaðsins - 01.06.2002, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 01.06.2002, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 1. JÚNÍ 2002 S Á hópur tuttugu og þriggja myndlistarmanna sem er sam- ankominn á sýningunni Akur- eyri í myndlist II hefur komið fram fyrir tjöld á síðustu tveimur áratugum síðustu ald- ar. Flestir þeirra eiga uppruna sinn að rekja til Akureyrar eða nágrennis, aðrir hafa dvalið þar um lengri tíma og tengjast myndlistarlífinu á staðnum. Allir eiga sameiginlegt að vera „brottfluttir“ og eiga sér fastan bústað annars staðar. Þessi sýning er önnur í röðinni, en á síðasta ári var haldin sýning á verkum sextán myndlistar- manna búsettra á Akureyri. Þegar litið er á þátttakendur úr þessum tveimur sýningum saman má ljóst vera að margir myndlistarmenn frá Akureyri hafa verið umsvifamiklir á íslenskum myndlistar- vettvangi með einum eða öðrum hætti. Og ef tekið er mið af aðdragandanum að því að þessi hópur kom fram þá má jafnvel tala um spreng- ingu sem á sér ekki samsvörun í öðrum list- greinum, án þess að lítið sér gert úr afrekum Akureyringa innan þeirra. Þeir myndlistar- menn sem hafa komið frá Akureyri á síðasta aldarfjórðungi eru óvenjulega margir og góðir og skýringarnar hlýtur því að vera að finna í aðstæðum sem hafa verið hagstæð myndlist- inni sérstaklega. Úr því að til sýningarinnar er ekki stofnað með sérstaka listræna hugmynd að baki, þá er kannski ekki við því að búast að það megi finna rauðan þráð milli verka listamannanna. Hins vegar, þegar tekið er tillit til þess að hóp- urinn er allur úr sama bæjarfélaginu og flestir innan hans hafa lært við sömu skólana, setið saman á skólabekk eða unnið og sýnt saman, þá gæti maður samt sem áður búist við að þessi sameiginlegi bakgrunnur myndi skilja eftir sig einhver spor. En þegar verk þessa hóps eru skoðuð saman virðast allar tilraunir til að finna slíkt samhengi langsóttar og það er umhugsunarvert að verkin skuli ekki eiga meira sameiginlegt en raun ber vitni. Ef litið er yfir verkin á þessari sýningu þá sést vel sá margbreytileiki sem var að finna í íslenskri myndlist hjá þeim myndlistarmönnum sem koma fram eftir 1980. Kynslóðaskipti í myndlist Að mörgu leyti urðu kaflaskil í íslensku menningarlífi um og eftir 1980 og ákveðin kynslóðaskipti í myndlist hófust. Það fór ekki aðeins að bera á nýjum listrænum hræringum heldur gjörbreyttist andrúmsloftið við upphaf níunda áratugarins. Fjölmargir atkvæðamikl- ir listamenn, sem nú eru í fremstu röð, komu fram eða voru við nám á þessum árum. Meðal þeirra fyrstu voru Kristján Steingrímur Jóns- son og Guðmundur Oddur Magnússon, sem voru við nám bæði á Akureyri og Reykjavík undir lok áttunda áratugarins, en fast á hæla þeirra komu Haraldur Ingi Haraldsson, Sig- urbjörn Jónsson, Kristinn E. Hrafnsson og Þorvaldur Þorsteinsson. Sá atburður sem markar þessi kaflaskil á fyrstu árum níunda áratugarins er tilkoma nýja málverksins. Nýja málverkið sem slíkt er kannski ekki með merkilegustu köflum í ís- lenskri listasögu frá listrænu sjónarmiði og stóð tiltölulega stutt við. En stefnan virkaði sem sundrandi afl sem þeytti listamönnum í ólíkar áttir. Það hafði svipuð áhrif og pönkið og nýbylgjan sem umturnaði tónlistarlífi ung- menna með ærandi hávaða og fyrirgangi. Hafa verður í huga þegar nýja málverkið ber á góma, að almennt var ekki litið á það sem afgerandi skref í framþróun listarinnar, heldur fremur sem uppbrot og afneitun á stirðnuðum hugsunarhætti. Tilfinningin var sú að listin væri lent í öngstræti, hvort sem um væri að ræða samtímalist eða nútímalist. Það var líka þannig sem var gengið til verks í byrj- un, með allt að því ofbeldiskenndri ákefð og drunandi pönkið í eyrum. Eins og svo margir af sömu kynslóð fór Kristján Steingrímur í gegnum hreinsunareld nýja málverksins eftir nýlistalærdóminn. Að vissu leyti endurspeglast þetta enn í verkum Kristjáns nú, þar sem vissir þættir úr kons- eptlist og expressjónísku málverki eru steypt- ir saman til að þjóna sömu hugmynd. Guð- mundur Oddur hefur ávallt haldið á lofti þeirri fagurfræði, eða öllu heldur and-fagurfræði, sem Dieter Roth og fylgismenn hans blésu honum í brjóst fyrir daga nýja málverksins og hann fann henni farveg á sviði hönnunar. Hvað nú? Ný-expressjóníska æðið rann fljótt af mönnum, en eftir sat spurningin: Hvað nú? Í hönd fóru ráðvilltir tímar og það þurfti að átta sig á breyttu landslagi. Það var engu líkara en að listin hefði villst af leið. Póstmódernismi var ekki enn orðið tískuorð og leiðarvísir. Nýja málverkið ól af sér glannalega einstak- lingshyggju sem hefur verið allsráðandi í myndlist síðan. Listin hefur náttúrlega alltaf verið einstaklingsbundin og listamenn hafa gefið kennisetningum langt nef. En það sem var sérstakt við einstaklingshyggju níunda áratugarins var að enginn stóð uppi sem sig- urvegari eða hetja. Tími hinna „stóru“ virtist liðinn. Menn skynjuðu það ekki lengur að sag- an hefði fundið sér farveg í gegnum verk til- tekinna meistara sem aðrir gætu fylgt. Fram að þessu höfðu listamenn haldið í þá trú að það væri viss rökræn framvinda í list- inni, eitt tók við af öðru og það sem kom á und- an var forsenda fyrir því sem kom á eftir. En nú gat hvað sem er gerst, sagan gat endurtek- ið sig og ósamstæðar liststefnur gátu dafnað hlið við hlið án árekstra. Þegar menn sögðu áður fyrr að allt væri mögulegt í myndlist var það í anda síaukins frelsis undan hefðum og höftum, en nú þegar engar hindranir stóðu í veginum hefur þetta heróp róttækrar listar misst allt bit. Viðbrögðin við þessu undarlega stjórnleys- isástandi voru misjöfn. Sumir leituðu aftur í ræturnar og reyndu að finna einhverja fót- festu í myndlistarhefðinni hjá vel þekktum og traustum fyrirmyndum sem þeir gætu notað til að skapa sitt eigið samhengi. Þannig væri hægt að staðsetja verk málara eins og Sig- urbjörns Jónssonar, sem fann sínar listrænu fyrirmyndir meðal málara af kynslóð Louisu Matthíasdóttur, Páls Sólnes, sem hefur málað í anda expressjónískra abstraktmálara af kyn- slóð eftirstríðsáranna, og Jónasar Viðars sem hefur leitað fanga lengra aftur í tímann í klassískari fyrirmyndum málaralistarinnar. Enginn gekk þó lengra en Kristín Gunnlaugs- dóttir sem sótti myndmál og stílbrögð í alda- gamla ítalska íkonahefð. En verk Kristínar eru einmitt ágætt dæmi um hvernig hægt var á þessum tíma að komast að fullgildum nið- urstöðum út frá jafn fjarstæðukenndum for- sendum. Aðrir fór þá leið að reyna að finna nýja fleti á málaralistinni handan við hin margtuggðu prinsíp um myndflöt, myndrými, form og liti. Það má almennt segja að málverkið hafi geng- ið í gegnum mjög fjörugt tímabil næsta ára- tuginn. Listamenn tóku að fást við málverkið á nýstárlegan hátt. Fyrstan ber að nefna Sigurð Árna sem lagði til atlögu við hinn klassíska skilning á myndrými og dýpt og snýr röngunni með tálsýnum. Í þeim stóra hópi sem fæddust um miðbik sjöunda áratugarins eru málarar sem fara óvæntar leiðir, eins og Birgir Snæ- björn Birgisson, Sigtryggur Baldvinsson og Gústav Geir Bollason. Allir eru þeir ólíkir inn- byrðis, Birgir með sínar fölu, súrrealísku mannamyndir, Sigtryggur með optíska útúr- snúninga á módernískri abstraktlist og Gúst- av sem notar ljósmyndir og uppdrætti sem efnivið í málverk þar sem myndrýmið er sund- urgreint og endursmíðað. En allir fjórir eiga þeir það sameiginlegt að nálgast málverkið af klínískri yfirvegun fagmannsins – þar er eng- inn expressjónískur óhemjuskapur. Miðbik níunda áratugarins var valdatíð Thatchers og Reagans þegar allsráðandi var efnishyggja sem í öfgakenndri mynd kom fram í taumlausri gróðahyggju, en einnig í því að nærtæk, áþreifanleg, efnisleg gæði voru tekin fram yfir hugsjónir, stefnuskrár eða dýpri merkingar. Víðfeðm og þung málverk og efnismiklir skúlptúrar ýttu til hliðar efnisrýrri konseptlist og gjörningum. Á áttunda ára- tugnum hafði mikið verið talað um upplausn listhlutarins, en nú var þeirri þróun snúið við. Það er því ekki að furða þótt rýmislist hafi fengið meðbyr. Á níunda áratugnum vaknaði aftur áhugi á möguleikum höggmyndalistar sem skilaði sér í því að margt hæfileikafólk lagði starfsorku sína í hana. En svipað og með málverkið leituðu listamenn sinn í hverja átt- ina með hugmyndir sínar: Hvaða leið átti t.d. að finna út úr naumhyggju sjöunda og áttunda áratugarins? Það má glöggt sjá af verkum þeirra sem hér sýna og geta talist til rým- islistar hversu margslungin viðfangsefni hennar eru orðin og hversu erfitt það getur verið að draga nokkrar skýrar markalínur milli liststefna og jafnvel milli þrívíðrar og tví- víðrar listar. Akureyringar þekkja verk Sólveigar eflaust best af Vinabæjarskúlptúrnum sem stendur við Hafnarstræti, en í verkum sínum, þar sem hún blandar saman fígúratívum og óhlut- bundnum formum, notar hún kunnugleg efni úr höggmyndahefðinni, marmara og brons. Í verkum Hólmfríðar Harðardóttur aftur á móti eru innviðir verksins orðnir að völundarhúsi sem er við það að leysast upp á jöðrunum. Rýmisverk Kristins E. Hrafnssonar eiga það til að renna saman við umhverfið og taka mið af stað og stund, gangstéttarhellur, brunnlok og áletranir virka eins og punktar eða viðmið- anir í umhverfinu sem er ætlað að benda á þann möguleika að allt geti gerst hvar sem er. Og frammi fyrir maskínum fáránleikans sem Pétur Örn Friðriksson smíðar af stakri ná- kvæmni, þá er yfirleitt spurning hvort það hafi eitthvað upp á sig að lýsa þeim sem skúlptúr- um. Endurvakning á síðkonseptlist Þegar kom fram á tíunda áratuginn var eins og sagan hefði spólað til baka. Konseptlist sjö- unda og áttunda áratugarins var aftur á dag- skrá, af enn meiri þunga, með sínum torræða, þurra húmor. Meðal þeirra listamanna á sýn- ingunni sem tilheyra þessari endurvakningu á síð-konseptlist eru Hlynur Hallsson, bræð- urnir Ásmundur og Snorri, Valka og Jóní Jónsdóttir. Við þennan hóp má bæta Þorvaldi Þorsteinssyni, listamanni hinna mörgu ásjóna. Þótt Þorvaldur sé eldri, fæddur 1960, þá eiga verk hans meiri samleið með verkum þessara yngri listamanna. Hann brúar að vissu leyti bilið milli elstu og yngstu þátttakendanna í hópnum. Við verðum þó að vara okkur á því að leggja hugmyndalist þessara tveggja kynslóða að jöfnu. Þótt yfirborðseinkennin geti virst lík, þá er andinn á bak við gjörólíkur. Ósamstæðar liststefnur og efnistök gætu tilheyrt sama listaverki án árekstra. Ekki er lengur mögu- legt að draga ályktanir um merkingu og inn- tak verka út frá stílfræðilegum yfirborðsein- kennum, sambandið milli forms og innihalds er handahófskennt og háð duttlungum höf- undarins. Hér áður fyrr voru konseptlistamenn oft uppteknir af tilbrigðum forms og aðferðar og hversu hreinræktuð hún gæti orðið, en nú skiptir það ekki eins miklu máli. Megináhersl- an hefur færst yfir á það hlutverk sem verkið eða verknaðurinn gegnir í samskiptum lista- mansins við umhverfið og þær aðstæður sem hafa áhrif á möguleika listamannsins til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Hjá Þorvaldi og yngstu listamönnunum er listaverkið sem skýrt afmarkað og kompónerað verk ekki lengur aðalatriði. Nú stendur það eftir sem vitnisburður um hlutverkaleik listamannsins: hvað er það við hlutverk listamannsins sem gerir að verkum að hann verður trúverðugur í augum annarra? Á hverju á að byggja sam- band listamanns og almennings? Hversu langt getur hann gengið án þess að vera úthrópaður trúður og loddari? Þessi yfirborðskenndi þeytingur um lista- sögu síðustu ára gerir lítið til að auka skilning okkar á margslungnum verkum einstakra listamanna og segir okkur aðeins það sem við vissum fyrir, að þeir eru allir sérstakir á ein- hvern hátt. En sagan segir okkur líka að það er alveg sama hvað menn gera eða hvar menn staðsetja sig: það er engin leið að sleppa und- an tíðarandanum. Sigurður Árni Sigurðsson: Með sól í hnakka. Páll Sólnes: Metropoll. Jóní Jónsdóttir: Portrett af trúði. AKUREYRAR- FYRIRBÆRIÐ Símtal frá útlöndum og póstkort af Pollinum eða Hud- son-fljóti, lóðréttar hreyfingar og bronsaður heið- ursborgari. Veðursældarbláar rennireiðar á rúntinum og lystigarðsgrænir trúðar hafa tapast og fundist. Þetta og fleira ber á góma á Akureyri í myndlist II. GUNNAR J. ÁRNASON fjallar um sýninguna sem opnuð verður í Listasafninu á Akureyri í dag. Höfundur er listheimspekingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.