Lesbók Morgunblaðsins - 01.06.2002, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 01.06.2002, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 1. JÚNÍ 2002 5 Þá leigðum við, ég og Henry vinur minn og starfsfélagi, herbergi hjá frú Kirby, Fortland Place 45 í Sunderland. Það var um kl. 11 að kvöldi 1. apríl 1916. Við sátum inni í stofu við arineld áður en við fórum að sofa. Þá heyrð- um við tvisvar einhvern hávaða, sem við ekki gátum greint hvaðan kæmi. Okkur grunaði þó hvað væri á seyði og slökktum öll ljós, þótt húsið væri annars vel myrkvað, svo að ekkert ljós sæist utan frá. Við fórum út á hlað og horfðum upp í dimman heiðskíran en stjörnu- bjartan himininn. Allt var kyrrt, enginn sagði neitt, þar til við sáum skugga bera fyrir hluta af stjörnum himinsins, og við heyrðum hávað- ann frá vélum loftskipsins. Það var skrokkur þessa stóra Zeppelin-loftfars, sem skyggði á hluta stjörnuhiminsins fyrir sjónum okkar. Við sáum fljótlega að loftskipið stefndi beint á okkur. Mínútu síðar sáum við loftskipið greinilega beint yfir höfði okkar. Við áætl- uðum lengd þess um 240 metra, og að það hafi verið um 5 mínútur á leiðinni fram hjá okkur. Sennilega hefur það þó aðeins verið 5 sek- úndur yfir höfði okkar. Allir íbúar hússins stóðu utan dyra í næturkyrrðinni og horfðu beint upp í loftið. Við sáum þegar sprengju var varpað úr loftskipinu, en til allrar hamingju fyrir okkur féll sprengjan til jarðar um 180 metra frá vegna hraða loftskipsins. Síðan féll sprengja eftir sprengju og miklar drunur rufu kyrrð næturinnar. Okkur var ljóst hvað hafði gerst. Á fimm mínútum var fjöldamorðunum lokið í þetta sinn, og loftskipið á heimleið til Þýska- lands. Um kl. 12 á miðnætti gengum við Henry inn í bæinn. Þar var mun færra fólk en við áttum von á, líklega vegna þess að ekkert var hægt að sjá. Allar göturnar þar sem sprengj- urnar höfðu komið niður voru lokaðar og eng- um var hleypt þangað nema lögreglu og sjúkrabílum. Daginn eftir var sunnudagur og nú gat fólk komist nær sprengjusvæðunum og komist að raun um hvað hafði skeð nóttina áður. Loftskipið hafði flogið yfir þéttbýlasta hluta Sunderland-bæjar og kastað sprengj- unum á íbúðarhús langt í burtu frá öllum hernaðarlega mikilvægum stöðum. Árangur- inn var 20 manns drepnir og um 100 særðir, allt óbreyttir borgarar. Það var langt síðan Sunderland hafði verið heimsótt af svo mörgu utanbæjarfólki og þennan sunnudag.“ Þannig lýkur frásögn Bárðar G. Tómasson- ar af þýskri loftskipsárás á Sunderland 1. apríl 1916. Í heimsstyrjöldinni 1914–1918 fóru Þjóðverjar 107 loftárásaferðir til Eng- lands. Flestar þessar loftárásir voru með loft- skipum því að þau gátu borið miklu fleiri og þyngri sprengjur en þær gerðir flugvéla, sem þá voru til. Loftskipin sem smíðuð voru í Þýskalandi árið 1916 voru um 200 m löng og 24 m í þvermál. Vélarorka þeirra var 1.440 hestöfl, hraðinn aðeins um 100 km/klst, en þau gátu borið rúm 30 tonn. Með þróun flug- véla og loftvarna reyndust loftskipin hins vegar svo auðveld skotmörk, að eftir að um 80 loftskipum Þjóðverja hafði verið grandað hættu þeir eins og fyrr segir algjörlega að nota loftskip í landhernaði árið 1917. Grunaðir um njósnir fyrir Þjóðverja Annan fróðlegan viðburð nefnir Bárður í dagbókarbroti frá árinu 1916 en þar segir frá hvernig öll hús í Sunderland voru myrkvuð, þannig að ekki sæjust úr lofti. Þeir Bárður og þrír danskir vinir hans störfuðu þar þá. En auk Henry E.L. Sørensen skipaverkfræð- ings, sem áður var getið, voru þar tveir aðrir Danir þeir Jacob Bindesböll skipaverkfræð- ingur, sem starfaði á annarri skipasmíðastöð, og Chr. Wilhjelm sem var stöðvarstjóri raf- veitu við pappírsverksmiðju í Sunderland. Þessir fjórir ungu menn héldu hópinn og hitt- ust til skiptis í húsakynnum þar sem þeir bjuggu. Það var að kvöldi dags 16. apríl 1916, að þeir félagar voru samankomnir í húsi því, þar sem Bárður og Henry höfðu leigt her- bergi hjá frú Kirby, ekkju með son og dóttur á táningsaldri. Í frásögn þeirra félaganna segir eitthvað á þessa leið: „Það var þétt þoka og dimmt utan dyra enda klukkan um 8 að kvöldi. Eins og venjulaga var frú Kirby að bera á borð hjá okkur kvöldsnarl í borðstofunni, en til hátíða- brigða höfðum við aflað okkur til hressingar skosks viskís og sódavatns. Allt í einu var barið harkalega að dyrum. Frú Kirby fór til dyra og inn ruddist ungur liðsforingi og hópur vopnaðra hermanna. Liðsforinginn tilkynnti að hann væri kominn til að gera húsleit og handtaka menn sem höfðu verið staðnir að því að senda ljósmerki til þýsku árása-loftskipanna. Okkur var tjáð að við værum handteknir og skipað að sitja kyrrir á meðan þeir gerðu leit í öllu húsinu. Þessi leit tók töluverðan tíma en ekkert grun- samlegt fannst. Á meðan stóð viskíflaskan og lystugur kvöldmatur húsfrúarinnar á borð- inu. Liðsforinginn stóð hálfvandræðalegur á svipinn í hálfopnum dyrunum á milli borð- stofunnar og anddyrisgangsins, og greinilega í vafa um hvað gera skyldi við okkur félagana. Þá hrópaði flokkur hermanna, sem stóðu vörð utan dyra til þeirra, sem inni voru, að ennþá kæmu ljósmerkin greinilega upp í loftið frá húsinu. Nú fórum við allir að kanna málið og í ljós kom að gluggi í forstofunni hafði ekki verið byrgður, því að ekkert ljósstæði var í forstofunni, og því hafði enginn talið nauð- synlegt að byrgja forstofugluggann. Hins vegar voru dyr fram í forstofuna bæði frá eld- húsinu og frá borðstofunni. Þegar þessar dyr voru opnaðar og þeim lokað barst ljósglampi stutta stund út í forstofuna og út í myrkrið gegn um óbyrgða gluggann. Utan frá gat þetta litið út eins og merkjasendingar, þegar ljósið kom og hvarf meðan gengið var frá eld- húsinu í borðstofuna. Þar með var fundin ástæðan fyrir þessum grunuðu ljósmerkjum. Húsið sem þeir Bárður og Henry áttu heima í var í miðri húsaröð og beint á móti handan götunnar var opin grasflöt, sem börn notuðu sem knattspyrnuleikvöll. Þarna mun fólk hafa verið á gangi þetta kvöld að skima eftir loftskipum, og þá tekið eftir ljósglömp- um sem komu við og við frá húsinu og lýstu upp þokuloftið. Þar eð vitað var að erlendir menn bjuggu í húsinu hafði einhver talið sér skylt að tilkynna þessar ætluðu ljósmerkja- sendingar til yfirvalda, enda var almenningur eðlilega vegna loftárásanna orðinn tortrygg- inn í garð útlendinga. Liðsforinginn var ákaflega almennilegur. Hann afsakaði ónæðið og sagði að sér væri ljóst að við værum alsaklausir. Hins vegar gæti hann ekki komið þeirri vitneskju til mannfjöldans, sem safnast hefði saman utan við húsið. Hann ráðlagði okkur því að dveljast allir um nóttina í húsinu. Síðan kvaddi liðsfor- inginn og allir hermennirnir hurfu á brott. Við settust því næst við borðstofuborðið og nutum góðgerðanna meðan við ræddum það sem gerst hafði, en þá var aftur barið að dyr- um. Húsfreyjan var hrædd og þorði ekki að opna dyrnar, en það gerði sonur hennar. Þetta var þá sendill með símskeyti til Bárðar frá Íslandi. Bárður hafði boðist til að reyna að komast heim og reisa skipasmíðastöð á Ísa- firði og skeytið var frá bæjarstjórn Ísafjarðar sem samþykkti tillögu hans og bað um stað- festingu í fyrirfram greiddu svarskeyti um að hann myndi reyna að komast heim.“ Eftir þetta viðburðaríka kvöld dreifðist vinahópurinn í Sunderland. Þeir Bárður og Henry sóttu um heimild til að hætta störfum á skipasmíðastöðinni og að fá fararleyfi og vegabréfsáritun til útlanda. Hinn 1. maí 1916 sigldu þeir frá Newcastle til Danmerkur, og komu 13. maí 1916 til Kaupmannhafnar. Það- an sendu þeir skeyti til frú Kirby í Sunder- land: „Arrived Copenhagen, Tomasson, Sörensen“, enda hefur þessi sjóferð í stríðinu ekki verið hættulaus. Síðan fór Bárður til Bergen. Þar rakst hann á íslenskan fiskibát og fékk far með honum til Hafnarfjarðar. Skömmu eftir að þeir Bárður og Henry fóru frá Sunderland, fór Jacob Bindesbøll heim til Danmerkur en Chr. Wilhjelm fór til Banda- ríkjanna og settist þar að. Loftskip eftir lok heimsstyrjaldarinnar 1918 Á árunum frá 1900 til 1919 höfðu Þjóð- verjar smíðað 115 loftskip (Zeppelin-loft- skip). Af þeim voru 103 fyrir her og flota. Að styrjöldinni lokinni voru smíðuð loftskip til farþegaflutninga. Ein fyrsta langferð loft- skips að stríðinu loknu var ferð enska loft- skipsins R 34 yfir Atlantshafið í júlí 1919 með 27 manna áhöfn og farþega um borð. Lagt var af stað frá Skotlandi og lent nálægt New York eftir 108 klst. flug í mótvindi, en flugið til baka tók 75 klst. Þetta var fyrsta ferð loft- skips yfir Atlantshafið. Við friðarsamningana eftir fyrri heimsstyrjöldina urðu Þjóðverjar að afhenda sigurvegurunum þau tvö loftskip, sem þeir þá áttu. Auk þess smíðuðu Þjóð- verjar nýtt loftskip LZ 126 og afhentu Bandaríkjunum sem hluta af stríðsskaðabót- um. Þetta loftskip, sem Bandaríkjamenn nefndu „Los Angeles“ flaug yfir Atlantshafið til New York og var afhent þar 1924. Rúmmál þessa loftskips var 70.000 rúmmetrar. Það var með 5 vatnskældar bensín-aflvélar sam- tals 2.000 hestöfl. Í ferðinni yfir Atlantshafið þurfti loftskipið að hafa 48.000 lítra af bensíni í 70 tönkum skipsins. Eins og kunnugt er byggist burðargeta loftskipanna á því að bolur þeirra er fylltur með lofttegund, sem er léttari en andrúms- loftið og lyftikrafturinn er því mismunurinn á eðlisþyngd lofttegundarinnar inni í loftskips- búknum og eðlisþyngd andrúmloftsins utan við hann. Lofttegundir þær, sem notaðar hafa verið í loftskipum eru eins og getið var að framan: vetni (vatnsefni, H), ljósgas og helí- um. Einn rúmmetri af vetni vegur 0,090 kg. En einn rúmmetri andrúmslofts vegur 1.293 kg og lyftikrafturinn á hvern rúmmetra vetn- is í bol loftskipsins er þannig um 1,2 kg. Ljós- gas er blanda af vetni og fleiri loftegundum og er því nokkru þyngra en vetni. Vetni er mjög eldfimt. Helíum brennur hins vegar ekki, en það er miklu dýrara en vetni og lyfti- hæfni þess um 9% minni, en vegna öryggis var það þó notað í auknum mæli við þróun loftskipanna eftir lok fyrri heimsstyrjaldar- innar. Þegar smíði Zeppelin greifa (Graf Zeppel- in) lauk árið 1928 var það langstærst allra loftskipa. Lengd þess var 237 m, þvermálið rúmir 30 m og bolur þess um 105.000 rúm- metrar. Það gat náð 128 km hraða á klst., knúið af 5 aflvélum samtals 2.750 hestöfl. Afl- vélar flugskipsins voru hengdar í sérstökum festingum út frá bol þess, því ekki var talið óhætt að hafa vélarnar inni í bolnum, sem fylltur var gasrýminu með eldfimu vetninu. Stjórnstöð, farmrými og vistarverur áhafnar og farþega voru líka neðst utan á sjálfum bol loftskipsins. Zeppelin greifi flaug tvisvar yfir Reykjavík, árin 1930 og 1931. Í síðara skiptið tók flugskipið fyrsta flugpóst frá Íslandi til útlanda. Eftir að Bandaríkin leyfðu útflutning á helíum gasi, sem ekki er eldfimt, var breytt gerðum loftskipa, sem smíðuð voru í Þýska- landi (LZ.129), Bandaríkjunum og víðar. Þá voru aflvélar skipanna inni í sjálfum bolnum, og aðeins skrúfubúnaðurinn var utan hans. Tvö þilför voru neðst inni í bolnum. Neðst var lestarrými, eldsneytisgeymar, stjórnstöð, eldhús og áhafnarrými, en á efra þilfari voru farþegarými. Miðskipa voru þar farþegaklef- ar líkt og í stórum farþegaskipum, með öllum þægindum, baðherbergi og snyrtiklefar með heitu og köldu vatni. Engir gluggar voru á þessum farþegaklefum, en til beggja hliða við þá voru borðsalir, lestrarsalir og reyksalir með skágluggum neðarlega á bol skipsins, þannig að farþegar gátu gengið um eða setið í þilfarsstólum og notið útsýnis niður á jörðina. Þessi lýsing er ævintýraleg. Hvers vegna eru svona loftskip ekki til lengur? Þróun loft- skipanna náði hámarki á árunum áður en flugvélar gátu flutt fjölda farþega með hraði yfir Atlantshafið. Stór farþegaskip fluttu far- þega í þægilegum vistarverum og veislusöl- um yfir Atlantsála. Flugskipin gátu boðið far- þegum hliðstæð þægindi og fljótari ferð en með skipum. Með þróun fullkominna og hrað- fleygra flugvéla varð flugvélin sjálfsagður farkostur til að komast fljótt og örugglega á milli staða, en stór skemmtiferðaskip urðu valkostur þeirra sem vildu njóta langferða um borð í fljótandi hótelum. Þannig gerði tækniþróunin flugskipin óþörf og óhagkvæm. Þau voru dýr í rekstri og þau höfðu nokkra augljósa galla, sem fyrir áratugum hafa stöðvað frekari notkun þeirra. Stærsti gallinn er stærð þeirra. Þau voru mjög háð veðri og vindum í flugi og í flug- höfnum þurfti að vera hægt að koma þeim inn í feikilega stór flugskýli, sem helst þyrfti að vera hægt að snúa eftir vindátt. Þá var reynt að reisa mikla turna til að festa framenda þeirra við, svo að þau gætu snúist frjálst eftir vindátt. Síðan var vandinn að koma farþegum og farmi til jarðar, fyrst úr vistarverum flug- skipsins í efsta hluta turnsins, og síðan með lyftum þaðan niður í flughöfnina. Þessi og fleiri atriði varðandi rekstur flug- skipa hafa valdið því að þau eru liðin tíð, sögulegur og áhugaverður þáttur í þróun flugtækni, en þáttur sem nú er óðum að gleymast. Heimildarrit: Salomonsens Konversations Leksikon, København 1924 Edgar B. Schieldrop: Teknikkens Vidundere. Køben- havn 1936. Hjálmar R. Bárðarson: Flugmál Íslands. Reykjavík 1939. Chr. Wilhjelm: Bréf frá Bandaríkjunum 1970. Hjálmar R. Bárðarson: Fuglar Íslands. Reykjavík 1986. Bárður G. Tómasson: Tólf ára framhaldsnám í skipa- smíði. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1992. Höfundur er fyrrverandi siglingamálastjóri. Á teikningunni má sjá vistarverur farþega og farmrúm á stærstu loftskipum, sem smíðuð voru. Hér eru þessi rými byggð inn í neðsta hluta bols loftskipsins, eftir að farið var að nota helíum, sem ekki brennur, í stað vetnis, sem er mjög eldfimt. Þarna eru tvær hæðir. Á efra þilfari mið- skipa eru gluggalausir farþegaklefar, en til beggja hliða eru borðstofur og setustofur með útsýn- isgluggum. Þar gátu farþegarnir líka rölt um og skoðað útsýnið á jörðu niðri. Á neðri hæðinni voru vistarverur áhafnar, lestarrými og eldsneytisgeymar. Mesti gallinn við loftskipin var að þau urðu að vera geysilega stór til að geta borið þungan farm. Lending á jörðu niðri var töluvert vandamál. Til að geyma þau varð að byggja geysilega stór flug- skýli og mikið vandaverk var að koma slíku ferlíki inn í flugskýlið ef nokkuð var af vindi. Til styttri dvalar voru byggðir sérhannaðir turnar eða möstur til að binda flugskipin við með land- festum. Flugskipið kastar þá landfestum og með stálvírum er það dregið að turninum og fest þar. Loftskipið getur síðan snúist eftir vindátt. Áhöfn og farþegar loftskipsins urðu að fara út um lúgu í framenda loftskipsins og yfir í turninn, og þaðan með lyftu niður á jörðina. Á myndum að of- an er verið að festa loftskip við svona turna.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.