SSFblaðið - 01.12.2007, Blaðsíða 23

SSFblaðið - 01.12.2007, Blaðsíða 23
ÞETTA ER ÉG Harpa Gunnarsdóttir Harpa Gunnarsdóttir hefur starfaö hjá SPRON í um það bil 26 ár. Á þeim tíma hefur hún sinnt ýmsum störfum innan fyrirtækisins en frá árinu 2005 hefur hún verið framkvæmdastjóri þjónustusviðs bankans. „Þjónustusvið sér um bakvinnslu, skiptiborð bankans, rekstrar- og starfsmannamál og aðra stoðþjónustu“, segir Harpa. „Einnig sjáum við um ýmis sérverkefni sem okkur eru falin. Við vorum t.d. með úthringiver í sölustörfum um tíma og erum nú að ráða til okkar verkefnastjóra sem mun stýra stærri verkefnum innan SPRON á samstæðu- grunni.“ Harpa tók jafnframt við framkvæmdastjórn fjárhagssviðs bankans árið 2006. Fjárhags- svið samanstendur af reikningshaldi og hagdeild og annast uppgjör á samstæðunni, skýrsluskil og margskonar greiningarvinnu. Starfið er viðamikið en Harpa segist vera svo heppin að hafa sér við hlið úrvalsfólk sem vinnur að þessum verkefnum með henni og stendur sig frábærlega vel. „Maður gerir ekki svona einn og óstuddur,“ segir hún. „Enda held ég að sá árangur sem við erum að skila innan SPRON sé einkum góðu samstarfi og starfsumhverfi að þakka. Það er virk valddreifing innan fyrirtækisins. Fólki er falin ábyrgð og fær svigrúm til að reyna sig við verkefnin eins og það treystir sér til. Skipulag SPRON er tiltölulega flatt og boðleiðir því stuttar og alltaf opið fyrir umræður. Þetta þýðir að kraftur allra er virkjaður til fulls.“ Áður en Harpa tók við núverandi starfi var hún í starfsmannaþjónustu SPRON í fimmtán ár, þar af starfsmannastjóri síðustu sex árin. Hún segist hafa byrjað í almennum störfum og gjaldkerastörfum þegar hún hóf starf í bankanum, var í nokkrum útibúum og færðist síðar í bókhald og hagdeild. „Þegar ég hafði unnið í SPRON í nokkur ár, fannst mér að ég væri búin að vera nógu lengi í bankastörfum og fór að vinna hjá einkafyrirtæki í borginni. Ég var fljót að finna að það starf hentaði mér ekki vel og snéri aftur til SPRON eftir 4 mánaða „útlegð." Starfsumhverfið og andinn í SPRON átti betur við mig og hér hef ég verið síðan og unað mér vel. Ég hef fengið tækifæri til að mennta mig bæði í starfi og með starfi og fengið sífellt ný og krefjandi verkefni til að kljást við og læra af, ég kann vel að meta það“, segir Harpa. Fjölskylda og áhugamálin Harpa er gift Guðmundi Baldurssyni og eiga þau þrjár dætur. Hún segir áhugamál sín fyrst og síðast snúast um fjölskylduna og að fylgjast með dætrunum og þeirra áhugamálum. „Ég hef gaman af því að ferðast og vera úti og eiga tíma með vinum og stórfjölskyldunni. Við notum mikinn hluta frítímans í ferðalög, bæði innanlands og utan. Við unum okkur vel á sælureit fjöl- skyldunnar austur í Laugadal en erlendis er Barcelona í sérstöku uppáhaldi." 23

x

SSFblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SSFblaðið
https://timarit.is/publication/980

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.