Morgunblaðið - 15.10.2012, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 15.10.2012, Blaðsíða 24
24 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 15. OKTÓBER 2012 ✝ Eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, ÓSKAR STEINDÓRSSON bifreiðastjóri, Völvufelli 44, Reykjavík, lést á Landspítalanum, Fossvogi, miðvikudaginn 3. október. Útförin fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík þriðjudaginn 16. október kl. 15.00. Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði. Erla Lísa Sigurðardóttir, Jónas Steindór Óskarsson, María Erla Hilmarsdóttir, Sigurður Óskar Óskarsson, Þórunn E. Björgvinsdóttir, H. Haukur Guðmundsson, Brynja B. Þrastardóttir, Kolbrún P. Hafþórsdóttir, Páll Heiðar Magnússon, Sigríður Einarsdóttir, Ragnar Þórarinn Bárðarson, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Gunnar Dyrsetfæddist í Reykjavík 30. nóv- ember 1935. Hann lést á hjúkr- unarheimilinu Sól- túni 7. október 2012. Foreldrar hans voru Vilborg Ragn- heiður Snjólfsdóttir Dyrset, húsmóðir, f. 24. jan. 1906, d. 13. des. 1995, og Einar Ansgar Dyr- set, byggingaverkamaður, f. 4. feb. 1904, d. 31. okt. 1969. Gunn- ar var næstelstur fimm systkina. Systur hans voru Erna, f. 1933, d. 2010, Sigrid, f. 1940, d. 2008, Ragnhild, f. 1942, d. 2008 og Jór- unn f. 1944, d. 2007. Systurnar voru allar búsettar erlendis. Gunnar kvæntist Eddu Ósk- arsdóttur myndlistarmanni 1955. Dætur þeirra eru 1) Mar- grét Þóra, tónlistarkennari, f. 22. sept. 1954, maki Örnólfur Thorsson, f. 1954. Þeirra börn eru a) Margrét Edda, f. 1987, b) Þórgunnur Anna, f. 1990, c) Gunnar Thor, f. 1994. 2) Anna Vilborg, bókavörður, f. 20. okt. 1956, maki Halldór Guðmunds- Líf. 2) Garðar Örn, blaðamaður, f. 28. okt. 1962, maki Lena Helgadóttir, f. 1961. Dætur þeirra eru a) María Silvía, f. 1997, b) Helga Lena, f. 1999. Gunnar ólst upp í Reykjavík og varð stúdent frá Versl- unarskóla Íslands 1955. Árið 1961 lauk hann kandidatsprófi í tannlækningum við Háskóla Ís- lands og hlaut tannlækn- ingaleyfi það sama ár Á árunum 1961-62 og 1964 starfaði hann sem aðstoðartannlæknir hjá Jóni K. Hafstein í Reykjavík og stundaði einnig tannlæknastörf í Osló ásamt frekara námi 1962- 63. Gunnar rak eigin tann- læknastofu á Óðinsgötu 7 frá árinu 1965 allt þar til hann hann lét af störfum árið 2008. Gunnar gegndi ýmsum félags- og trún- aðarstörfum. Hann var formað- ur félags íslenskra tann- læknanema 1957, endurskoðandi Tannlækna- félags Íslands 1965-66, gjaldkeri þess 1966-68 og formaður 1968- 70. Þá sat hann í stjórn Skandin- avíska tannlæknafélagsins (Skandinavisk Tandlægefor- ening) 1969-72. Í gerðardómi TFÍ 1970-92 og í sáttanefnd TFÍ 1979-90. Útför Gunnars Dyrset fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 15. október 2012 kl. 15. son, f. 1956. Börn þeirra eru a) Kol- brún Ósk, f. 1976 (faðir: Ívar Giss- urarson, f. 1953), maki Aðalsteinn Richter, f. 1969. Dætur þeirra eru Silvía Ósk, f. 2009 og Edda Kristbjörg, f. 2010. Dóttir Kol- brúnar er Anna Lena, f. 1998. Sonur Aðalsteins er Kristján Henry, f. 1996. b) Brynjar, f. 1980. c) Hrafnhildur, f. 1983, maki Hug- leikur Dagsson, f. 1977. d) Gunn- ar, f. 1991. e) Guðmundur Óskar, f. 1995. Seinni kona Gunnars er Silvía Garðarsdóttir, fyrrv. banka- starfsmaður f. 1939. Þau hófu sambúð 1972 og gengu í hjóna- band árið 2000. Fyrri eig- inmaður Silvíu var Úlfar Atla- son, f. 1937, d. 2003. Börn þeirra eru 1) Marianne Sif útstill- ingahönnuður, f. 28. jan. 1961, maki Leó Jóhannsson, f. 1956. Dóttir þeirra er Sunna Björk, f. 1998. Dóttir Leós er Kolbrún, f. 1977, maki André Löfgren. Dæt- ur þeirra eru Esja Líf og Embla Það var hátíð í bæ, þegar Gunnar og Silvía komu í heim- sókn hjá barnmargri fjölskyldu á Eyrarsundskollegíinu í Kaup- mannahöfn. Þá rættust þeir draumar sem voru fjarlægir okk- ur námslánaþegum hvunndags: Að vera boðið út að borða við Löngulínu eða í Geirþrúðar- klaustri, eða skoða Sjáland á bílaleigubíl og þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af kostnaði. Þetta þótti mér alltaf heillandi eiginleiki í fari tengdaföður míns: Einhver sjálfsagður, áreynslulaus höfðingsskapur, rausn sem var honum eðlileg og aldrei voru höfð nein orð um og sem var þess vegna líka auðþeg- in. Þetta fann maður líka í boð- um á heimili þeirra Silvíu í Efstalandi; Gunnar stóð við kal- kúninn og skar ótrúlega mynd- arlega skammta handa hverjum og einum en samt var alltaf nóg handa öllum. Það var ljómi yfir þessum boðum, vel veitt af öllu, glaðsinna gestir og allt fullt af krökkum sem hlupu hringi í íbúðinni sem maður áttaði sig ekki á fyrr en löngu síðar að var raunar í minna lagi. En þetta held ég að sé eðli hins sanna höfðingsskapar; kot verða að höllum, hversdagar að hátíð, það ljómar allt í kringum svona menn. En Gunnar barst ekki á, það var ekki sláttur á honum eða þörf fyrir að láta á sér bera. Honum var þetta eðlislægt og honum þótti þeim mun vænna um dætur sínar, Önnu og Mar- gréti, sem hann hafði farið á mis við margt í æsku þeirra eftir skilnaðinn við móður þeirra. Hjálpsemi hans og greiðvikni var ómetanleg, og samband okkar fjölskyldunnar við hann og Silvíu alltaf gott og elskulegt. Það er skemmtileg kenning að manngerð lýsi sér í handbragði fólks, í því hvernig það beitir höndunum. Og mér finnst hún hafa átt vel við Gunnar. Hann var tannlæknir, og þeir þurfa beinlínis að stinga höndunum upp í annað fólk sem fæstum þykir skemmtileg tilhugsun. Það gerði Gunnar af slíkri lagni og tillitssemi að fátítt má teljast, og þeir voru til sem gátu ekki hugs- að sér að fara til annars tann- læknis þess vegna. Þannig birtist hann mér í viðkynningu, laginn, tillitssamur og örlátur. Hann tók mér vel frá upphafi og fyrr en varði var öll fjölskyldan komin til hans í stólinn, án þess að það mætti minnast á greiðslu. Gunn- ar var fallegur og sviphreinn maður og eðli hans birtist líka í því að hann laðaði að sér börn og dýr. Týri okkar vissi ekki skemmtilegri mann í heimsókn en Gunnar, sem reyndar hafði þann sið að missa dálítið af matn- um í gólfið þegar hann var nærri. Og börnin okkar löðuðust að honum frá því þau voru ómálga. Skapgerð fær ekki betri vottun en þessa. Gunnar var útivistarmaður og veiðimaður og hélt gjarnan suður í lönd þegar hvíld gafst frá amstri dagsins. Í öllu þessu naut hann fylgdar Silvíu sem var hon- um einstakur förunautur á alla lund. Hennar missir er stór, en líka missir dætra hans, barna Silvíu og fjölskyldunnar allrar. Vertu kært kvaddur, Gunnar. Halldór Guðmundsson. Gunnar var ungur maður þeg- ar leiðir okkar lágu saman fyrir tæpum fjórum áratugum þó að mér þætti þau Silvía orðin býsna ráðsett; þá áttu þessi glæsilegu hjón enn nokkur ár í fertugt. Gunnar tók hlýlega og rausnar- lega á móti þessum verðandi tengdasyni sínum, síðhærðum og fúlskeggjuðum, og umbar mildi- lega alls konar einkennileg sjón- armið og skoðanir sem vísast hafa verið nokkuð þversum. Gunnar varð mér hinn besti tengdafaðir, traustur hornsteinn í tilverunni og nákominn sam- ferðamaður í lífinu. Foreldrar Gunnars voru verkafólk í Reykjavík og ekki mulið undir systkinin fimm í uppvextinum. Einar faðir hans var norskur og látinn nokkrum árum áður en við tengdumst en Vilborgu móður hans kynntist ég vel og því kærleiksríka sambandi sem milli þeirra mæðgina var. Gunnar var mjög náinn móður sinni og umhyggjusamur svo af bar; ég hugsa að ekki hafi liðið sá dagur að hann hafi ekki heimsótt hana eða talað við hana í síma væri hann erlendis. Systurnar voru fjórar en örlögin skipuðu því svo að allar festu rætur í út- löndum, Sigrid og Jórunn í Bandaríkjunum, Erna í Dan- mörku og Ragnhild í Noregi. Gunnar ræktaði eftir föngum sambandið við systur sínar og fjölskyldur þeirra, heimsótti þær oft og tók höfðinglega á móti þeim og börnum þeirra þegar leiðin lá hingað. Gunnar var gæfumaður í einkalífi sínu, eignaðist ungur tvær glæsilegar dætur með fyrri konu sinni, Eddu Óskarsdóttur. Seinni kona hans, Silvía Garð- arsdóttir, átti tvö mannvænleg börn þegar þeirra leiðir fléttuð- ust saman sem urðu honum kær. Barnabörnin eru mörg og Gunn- ar var ástríkur afi og langafi. Gunnar var dulur maður og hógvær, yfirvegaður og skyn- samur í skoðunum. Hann var skemmtilegur sögumaður og fundvís á spaugilegar hliðar, hé- gómaskap og tildur. Hann var glaður á góðri stund, einstakur höfðingi heim að sækja. Margar og minnisstæðar stórveislur sótt- um við í Efstalandið, ekki síst um jól og áramót; alltaf virtist vera nóg pláss þó að fjölskyldan stækkaði, börnum fjölgaði og barnabörnum. Gunnar átti farsæla starfsævi, var vinsæll tannlæknir, nákvæm- ur og samviskusamur, sjúklinga- hópurinn stór og margir héldu tryggð við hann áratugum sam- an. Hann fylgdist vel með nýj- ungum á sínu fræðasviði, sótti ráðstefnur reglulega og vann að félagsmálum sinnar stéttar. Gunnar og Silvía deildu miklum áhuga á stangveiðum og áttu um tíma báta í félagi við aðra, og það var gaman að fara á skak með Gunnari skipstjóra og draga þorsk í soðið. Síðustu árin reyndust Gunnari þung í skauti. Hann glímdi við erfiðan sjúkdóm sem gerði hon- um ókleift að sinna sínu starfi og dró hægt en bítandi allan mátt úr þessum glæsilega manni. Í því stríði öllu stóð Silvía sem klettur við hlið hans og gerði honum þrautirnar eins léttbærar og mátti. Og nú hefur hann kvatt, megi hann fara í friði og minn- ingar um góðan dreng sefa sáran harm. Örnólfur Thorsson. Það er sárt að kveðja afa Gunnar. Afa sem alltaf var svo góður. Það jafnaðist ekkert á við að fá að koma í gistingu til afa og Silvíu í Efstaland. Minningin er svo sterk þar sem afi kom alltaf fram á gang og stóð efst í tröpp- unum með útbreiddan faðminn og beið eftir okkur þar sem við hlupum eins og fætur toguðu upp stigaganginn í fangið á honum. Hann var svo glaður að sjá okkur og maður fann alltaf sterkt hversu vænt honum þótti um okkur barnabörnin sín. Það eru svo margar minning- ar sem koma upp í hugann. Eins og hákarlatennurnar sem hann átti uppá hillu og þurfti að sýna okkur aftur og aftur þegar við vorum lítil. Hann þreyttist aldrei á því og var alltaf svo þolinmóður við okkur. Og þegar hann hafði einu sinni doppótt egg í morgunmat. Ég átti ekki til orð og hafði aldrei séð slíkt áður. Þetta hafa vænt- anlega verið svartfuglsegg en mér fannst afi alveg rosalega sniðugur að kaupa doppótt egg. Það var líka svo mikið sport að fá að koma í tannlæknastólinn til afa. Það var svo gaman að fá að sjá hann í vinnunni og maður fékk alltaf verðlaun fyrir að vera duglegur, þó að svo hafi ekki endilega alltaf verið. Afi var líka svo mikill húm- oristi. Ég man hvað hann hló mikið þegar ég sagði honum á unglingsárunum að ég hefði orð- ið skelfingu lostin eftir að hafa horft á hryllingsmynd um tann- lækni. Ég man bara hvað afi hló hátt að þessari sögu minni, og hann rifjaði hana oft upp. Að koma í jólaboð til afa og Silvíu á jóladag var alltaf jafn yndislegt. Afi stóð í eldhúsinu hálft kvöldið í minningunni og skar kalkún ofan í okkur öll. Hann passaði alltaf uppá að við fengjum bæði brúnt og hvítt kjöt á diskinn. Þannig var afi minn. Alltaf svo umhyggjusamur, góður og skemmtilegur. Hvíl í friði, elsku besti afi minn. Þín Hrafnhildur. Frá fyrstu tíð var ég stolt af afa mínum. Hann var stór og sterkur en jafnframt hlýr afi, mikil barnagæla og í ófá skipti kepptumst við barnabörnin um að fá að sitja í fangi hans í gula stólnum og hjúfra okkur að bumbunni. Þá voru heimsóknir til tannlæknis ekki kvíðaefni heldur spennandi og skemmti- legar enda sinnti afi öllum sjúk- lingum sínum af nærgætni, ná- kvæmni og öryggi. Jóla- og páskaboð í Efstalandi voru fastur punktur í tilverunni og ætíð mikið tilhlökkunarefni. Stórfjölskyldan fyllti litlu íbúðina og allir áttu sinn stað: krakkarn- ir inni í svefnherbergi að hoppa á rúminu eða inni í litla herbergi að púsla eða fikta í hákarlatönn- unum hans afa, fullorðna fólkið inni í stofu að spjalla og afi í eld- húsinu að skera kalkúninn sem beðið var eftir með mikilli eft- irvæntingu. Kalkúnninn var vandlega skorinn, allir fengu nóg og hinni dýrmætu fyllingu skipt jafnt á milli allra. Yngstu barna- börnin gátu þó stundum sníkt aukabita svo lítið bæri á enda var afi mikill barnakall. Eftir matinn sat hann innst við borðsendann og krakkarnir kepptust um að vera nálægt honum, tróðu sér að honum með því að skríða undir borðið eða troða sér meðfram því enda mesti heiðurinn fólginn í að fá að sitja hjá honum. Hann var örlátur og reiddist aldrei, ekki einu sinni þegar hann hafði verið við stangveiðar heilan dag og við systkinin komum hlaupandi til hans með látum og óðum út í vatnið og fældum alla fiskana í burtu. Afi minn var stoltur maður og ég var stolt af honum. Hann var tannlæknir, sigldi um á báti og færði okkur oft nýjan fisk sem hann sjálfur hafði veitt, kom með gjafir frá útlöndum, fór með okk- ur systurnar í Kolaportið og bauð mér upp á fyrstu pylsu ævi minnar. Stoltið minnkaði ekki síðustu árin þegar hann tókst á við erfið veikindi af festu og æðruleysi og þrátt fyrir erfiðar aðstæður voru allar heimsóknir í Sóltún til hans og Silvíu gleðirík- ar og ánægjulegar. Margrét Edda Örnólfsdóttir. Mig langar að minnast afa míns Gunnars með örfáum orð- um. Afi var flottur maður. Blíður töffari með risastórt hjarta og mikill húmoristi. Ung að árum sóttum við systkinin stíft í heim- sóknir í „Afaland“ þ.e. Efstaland. Að heimsækja afa og Silvíu var alltaf toppurinn á tilverunni. Maður hljóp hring eftir hring í íbúðinni, tók smásprett á þrek- hjólinu hans afa og mátaði alla flottu hælaskóna hennar Silvíu. Við skemmtum okkur ávallt kon- unglega. Alltaf var svo gott að kúra í fangi afa og kepptumst við systkinin um það. Ég er elsta afabarnið og þótti erfitt að deila afa með öðrum. Ósjaldan hef ég fengið að heyra að ég hafi farið 15 handahlaup á stofugólfinu til að fá athygli þegar hann tók litla bróður minn í fangið. Við Brynjar bróðir fórum í skemmtilegar ferðir í Hvalfjörð- inn að tína kræklinga með afa og Silvíu. Afi fór svo stundum með Brynjar að dorga í gegnum ís, sem þeir nutu báðir. Ég vann hjá honum sem að- stoðarkona á tannlæknastofunni í nokkurn tíma og er sá tími mér dýrmætur. Við áttum þar marg- ar góðar stundir og sá ég hversu gott samband hans var við sjúk- linga sína. Ég gleymi því seint þegar hann ætlaði að fá sér kaffi en fékk sér gúlsopa af teinu mínu, sem hann lét annars ekki inn fyrir sínar varir. Við hlógum mikið að þessum „mistökum“ og ég hlæ enn við tilhugsunina um svipinn á honum. Afi og Silvía hafa ferðast víða og þegar maður hugsar um afa er hann í minningunni alltaf sól- brúnn og sætur. Afi átti flotta bíla, bát og veiddi lax. Það var ákaflega sárt að horfa upp á hann missa heilsuna og var aðdáunarvert hvernig hann tókst á við veikindin. Ég er þakklát fyrir að dætur mínar hafi náð að kynnast lang- afa sínum. Söknuðurinn er sár og missir okkar er mikill. Ástarkveðja, Kolbrún Ósk Ívarsdóttir. Einlægur vinur minn og svili, Gunnar Dyrset, hefur nú kvatt þetta líf. Hann andaðist á hjúkr- unarheimilinu Sóltúni að kvöldi þess 7. október sl. eftir langvar- andi veikindi. Gunnar var einstaklega vel gerður maður í alla staði. Skarð er höggvið í vinahóp. Ég kynnt- ist honum fyrst þegar þau Silvía voru að undirbúa sína sambúð. Strax varð ég var við að hér var höfðingi á ferð. Framkoma hans var hógvær, samræður málefna- legar og öfgalausar. Háttsemin öll var öfgalaus og kurteis. Þægi- legt var að vera í návist hans. Samskipti okkar urðu fljótt nán- ari þar sem við tengdumst brátt sömu fjölskyldunni. Heimsóknir á báða bóga, ferðalög bæði innan lands og utan, veiðiferðir í ám landsins að ógleymdu sameigin- legu borðhaldi og spilakvöldum sitja í minningunni. Þessar ánægjulegu stundir koma sífellt upp í hugann. Eitt sinn fórum við með fjöl- skyldur okkar til Suður-Þýska- lands þar sem við nutum lands- lagsins og listaverka, einkum mannvirkja frá dögum Lúðvíks Bæjarakonungs. Þaðan ókum við suður Austurríki, niður til Ítalíu og aftur til baka. Þarna var ým- islegt að sjá og upplifa sem skildi margt eftir í hugum okkar. Oftar en einu sinni fórum við saman til Kanaríeyja sem hafa sinn „sjarma“ á annan hátt. Eftirminnilegastar eru þó veiðiferðirnar í laxárnar. Meðal eftirlætisstaða var Iðan í Hvítá og Stóra Laxá, en þangað fórum við nokkrum sinnum. Hann var einstaklega laginn með fluguna og árangurinn var góður. Veikindi Gunnars gerðu þann- ig fyrst vart við sig að fæturnir sviku óvænt, þannig að honum hætti við að missa jafnvægi. Í seinasta sinn sem við vorum í Ið- unni gerðist þetta meðan hann stóð úti í ánni. Það var eins gott að straumur var hægur og bakk- ar lágir. Margar fleiri ánægjustundir mætti hér upp telja. Allar báru þær með sér hæversku góðs drengs, sem nú hefur flutt sig á annað tilverustig. Kostgæfni hans var einstök. Silvíu, dætrum og öðrum ást- vinum Gunnars sendi ég hug- heilar samúðarkveðjur. Ágúst Karlsson. Það var á menntaskólaárum mínum, líklega í kringum árið 1963, að ég sem oftar þurfti á tannlækni að halda. Mér var þá bent á, að ungur tannlæknir, Gunnar Dyrset að nafni, væri bú- inn að opna stofu við Óðinstorg. Ég lagði leið mína á fund hans. Hann tók mér einstaklega vel og leyst fljótt og vel úr vanda mínum í það skiptið. Eftir þessi kynni mín af þessum mannkosta- manni blandaðist mér ekki hug- ur um að leita til hans framvegis. Héldust þessi samskipti okkar áfram allt til þess að starfsþrek Gunnars var þrotið eftir mjög erfið veikindi. Þá hafði ég notið þjónustu hans hátt í fjóra ára- tugi. Eftir að ég stofnaði heimili með eiginkonu minni varð Gunn- ar hennar tannlæknir líka svo og barnanna allra, þegar þau komu til sögunnar og þurftu tannlækn- is við. Alltaf var Gunnar reiðubú- inn til þjónustu og það jafnvel á tímum, sem flestir kjósa að halda fyrir sig sem frítíma. Öllum í fjöl- skyldunni þótti orðið mjög vænt um Gunnar, sem alltaf þjónaði okkur af stakri alúð og kostgæfni við afar sanngjörnu endurgjaldi, jafnvel svo að maður hafði á stundum áhyggjur af því, að hann fengi ekki nægjanlega umbun fyrir verk sín, a.m.k. ekki í peningum. Það var sárt að vita af veik- indum hans löngu síðar, sem að lokum leiddu til þess, að hann missti starfsþrekið. Þegar ég svo hitti hann á sjúkrastofnun fyrir 3-4 árum, var það eitt hið fyrsta, sem hann spurði mig um, hvort vel væri séð fyrir tannheilsu minni eftir að hans naut ekki lengur við. Það var því sem endranær með Gunnar, að hann setti hagsmuni sjúklinga sinna alltaf í fyrsta sætið og framar sínum eigin. Mér og fjölskyldu minni finnst sem við horfum nú á eftir nánum ættingja yfir móðuna miklu. Blessuð veri minningin um hinn góða dreng, Gunnar Dyrset. Við vottum fjölskyldu hans okk- ar dýpstu samúð. Björn Ólafur Hallgrímsson. Gunnar Dyrset

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.