Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.11.2009, Blaðsíða 4

Neytendablaðið - 01.11.2009, Blaðsíða 4
Neytendasamtökunum barst loksins svar frá Nýja Kaupþingi á dögunum en samtökin höfðu sent bankanum erindi þar sem spurt var hvernig bankinn hygðist bregðast við úrskurði áfrýjunarnefndar sem staðfesti að bankinn hefði brotið lög um neytendalán. Í bréfi Nýja Kaupþings kemur fram að það sé mat lögfræðinga bankans að bankinn hafi ekki brotið gegn lögum um neytendalán, þrátt fyrir að niðurstaða Neytendastofu og áfrýjunarnefndar neytendamála sé sú að lögbrot hafi átt sér stað. Nýi Kaupþing hafi því ákveðið að höfða mál til ógildingar niðurstöðu stjórnvalda um að bankinn hafi brotið gegn lögum um neytendalán með breytingum á vöxtum gengistryggðra lána (myntkörfulána). Síðan segir í bréfi Nýja Kaupþings: „Hins vegar hefur bankinn ákveðið að bregðast við ákvörðun Neytendastofu og kynna betur fyrir lántakendum hvaða þættir mynda nákvæmlega kjörvexti bankans og með hvaða hætti breyting á þessum þáttum hefur áhrif á kjörvextina. Kynningin verður send á næstu dögum til viðskiptavina bankans sem eru með slíka lánasamninga við bankann.” Varla er hægt að túlka þetta á annan hátt en þann að bankinn viðurkenni að ekki komi skýrt fram í lánaskilmálum hvernig vextirnir eru samsettir. Útskýringar til lántakenda nú koma að litlu gagni þar sem þetta voru upplýsingar sem áttu að liggja fyrir þegar lánið var tekið. Um það snýst einmitt styrinn. Bankanum bar að upplýsa lántakendur um það hvaða þættir mynduðu kjörvexti en kjörvextir bankans eru samsettir úr millibankavöxtum og álagi. Í lánaskilmálum kemur ekki fram að þetta álag sé yfirhöfuð til staðar né hversu hátt það sé. Lántakendur hefðu þurft að vita hverjir millibankavextir væru á lántökudegi og draga þá frá kjörvöxtum til að komast að því hversu hátt hið umdeilda álag væri. Ekki kom heldur fram í skilmálum við hvaða aðstæður álagið gæti breyst né hversu hátt það gæti orðið, þ.e. hvort það væru yfirhöfuð einhver takmörk fyrir því hversu mikið það gæti hækkað. Bankinn hækkaði þetta álag jafnt og þétt frá því hann hóf að veita gengistryggð lán og fram að hruni. Jafnframt kemur fram í bréfi Nýja Kaupþings sú afstaða bankans að hver sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni verði að sanna það fyrir dómstólum. Ljóst er því að bankinn er ekki tilbúinn að fara samningaleiðina í þessu máli eins og Neytendasamtökin höfðu vonast til. Það er mjög dýrt fyrir einstaklinga að reka mál fyrir dómstólum og enn og aftur kemur í ljós hversu mikilvægt það er fyrir neytendur að geta sótt mál með hópmálsókn. Hið vel þekkta orkumerki hefur verið til endurskoðunar hjá Evrópusambandinu í ljósi þess að sífellt fleiri rafmagnstæki komast í A-flokk. Framleiðendur komu með þá hugmynd að nota tölur í stað bókstafa en neytenda- og umhverfissamtök mótmæltu því harðlega enda bókstafirnir vel þekktir meðal neytenda. Evrópusambandið gerði því einhvers konar málamiðlunartillögu þar sem búið var að bæta við A-flokkum; A-20%, A-40%, A-60% o.s.frv. Neytendasamtök mótmæltu harðlega enda væri slík merking einungis til að rugla neytendur í ríminu. Miklu nær væri að herða á kröfunum þannig að einungis sparneytnustu tækin hverju sinni kæmust í A-flokk. Næst var lögð var fram ný tillaga, undir forystu Svíþjóðar, þar sem mælst er til þess að teknir verði upp fleiri A-flokkar og plúsum bætt við. Kerfið yrði þá A+, A++ o.s.frv., upp í A+++++. Neytendasamtök, umhverfissamtök og samtök heildsala mótmæltu þessum tillögum og hvatti Evrópusambandið til að halda sig við hið þekkta orkumerki A-G. Nýlega komst nefnd á vegum Evrópusambandsins að tillögu sem verður að öllum líkindum samþykkt á næsta ári. Tillagan snýr einnig að því að fjölga A-flokkum en samkvæmt henni verður mest hægt að fá þrjá plúsa. Besti flokkurinn hverju sinni verður dökkgrænn (eins og A- merkið er í dag) en það þýðir að í sumum tilfellum getur A+ verið best en í öðrum A+++. Ekki verði sýndir fleiri en sjö flokkar hverju sinni. Evrópusamtök neytenda lýsa yfir vonbrigðum með þessa niðurstöðu og efast um að hún muni reynast vel. Það þykir þó bót í máli að fyrri tillögum sem voru enn verri skuli hafa verið sópað af borðinu. Nýi Kaupþing, nú Arion, fer með málið fyrir dómstóla Nýjar tillögur um óskiljanlegt orkumerki - enn á ný  NEYTENDABLA‹I‹ 4. TBL. 2009

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.