Ný Dögun - 01.11.1991, Blaðsíða 16

Ný Dögun - 01.11.1991, Blaðsíða 16
/Vjý Dögu»\ tárunum, að hann leyfir sér að gráta og finnur fyrir létti. En fleira kemur til en vilji og viðhorf, það er varnarháttur að dofna upp og halda þannig frá sér allra fyrst því sem maður ræður ekki við og er óbærilegt. Bræður sem misstu báða foreldra sínu af slysförum lýstu því hvernig þeim fannst þeir vera fyrir utan sjálfa sig, á meðan þeir gerðu nauðsynlegar ráðstafanir fyrir kistulagningu og útför. Okkur fannst við vera að fást við missi ein- hverra allt annarra en foreldra okkar, sögðu þeir. Og það var ekki fyrr en síðar, að frosið þel þiðnaði og vitundin fyrir því, sem hafði gerst óx og varð áþreifanlegt. Útrás sorgar og tjáning er nauðsynleg forsenda þeirrar græðslu og huggunar, sem kemur á löngum tíma. Þá er mikilvægt á þeim vegi að sársaukinn finni farveg, og hvernig tekst til í byrjun kann að ráða miklu um framhaldið. William Worden segir það fyrsta verkefni sorgarinnar, að greina raunveruleika mississins, mikilvægi hans og endanleika. Og eins það, að finna fyrir sársauka sorgarinnar. Hlífðin er þess vegna ekki fólgin í því að halda mönnum frá sársaukanum, hvort heldur það er gert með lyfjum eða ótímabærri huggum trúarinnar, heldur þetta, að komast sem næst því, sem veldur kvölinni og ganga í gegnum hana. Og þar á hjálparinn helst af öllu að vera álengdar nær og samferðamaður, að því marki sem það er mögulegt... Þegar áfall dynur skyndilega yfir, er erfitt að trúa því sem orðið hefur. Það er ekki óalgengt að menn rengi og véfengi í upphafi þegar váleg tíðindi eru flutt. Það getur ekki verið satt. Og jafnvel þótt vitsmunalega sé það orðið ljóst, þá er samt erfitt að trúa því tilfinningalega, sem ekki verður rúmað í fljótu bragði. Hér hjálpar það, sem áður hefur verið nefnt að fá að sjá og greina. Og hér hjálpar einnig mörgum að fá tækifæri til að fara aftur og aftur yfir atburðarásina, segja frá og rifja upp. Þá er líkt og höfuðið og hjartað samtengist og vitsmunaleg vissa eyði efa tilfinninganna. Helgiathafnir kirkjunnar, kistulagning og útför, hafa í aldanna rás verið viðtekinn farvegur sorgarinnar, og geta, sé vel að þeim staðið, stuðlað að heilbrigðri útrás sorgar- innar. Sérstaklega getur kistulagningin verið áhrifarík. Þar gefst nákomnustu ættingjum tækifæri að sjá dáinn ástvin í síðasta sinn. Raunveruleiki missisins verður áþreifan- legur. Þennan þátt þarf að undirbúa vel. Allur frágangur þarf að endurspegla virð- ingu fyrir hinum látna. Mikilvægt er að fólk fái í kistulagningunni allan þann tíma, sem það þarf, líka til að vera í einrúmi. Eigi börn í hlut sem aðstandendur, þá þarf mikla nærfærni. í fyrsta lagi má aldrei leggja hart að barni að vera viðstatt kistu- lagningu. Það má aldrei neyða það til þátt- töku. En sé þess nokkur kostur, þá er yfirleitt betra ef hægt er að hlúa að þátttöku barns við þessa athöfn. Gott er þá, að barnið fái að fara inn að kistunni með nánustu ættingjum, áður en sjálf athöfnin hefst. Miklu ræður um líðan bams og reynslu við þessar aðstæður, hvernig fólkinu í kringum það líður. Sé umhverfið allt tætt og skelfingu lostið er næsta víst að áhrifin verði ógnvekjandi. Sé aftur á móti andrúmsloftið með þeim hætti, að það miðli öryggi, því meiri líkur eru til þess að barnið finni sig öruggt. Niðurstaðan verður þá, að það var betra að fá að vera með og sjá og greina, heldur en að láta það ógert. Útförin er meira opinber kveðja en kistu- lagningin, og í kistulagningunni finnur fólk yfirleittbetur, að því er óhætt að láta tilfinn- ingar sínar í ljós. Aður hefur verið minnst á hversu mikilvægt það er, að orða hugsanir og tilfinningar tengdar látnum ástvini. Kistulagning og útför geta veitt tækifæri til þessa. Við undirbúning þessarar athafnar er sest niður til að deila minningum. Þess gætir að vísu mikið í líkræðum, að fólk sé hafið til skýjanna og vissulega erum við þar að þakka fyrir það góða, sem gafst með og fyrir látinn ástvin. Hitt er nauðsynlegt, ef þess er nokkur kostur, að fólk geti bæði tjáð sig um allt það sem það kemur til með að sakna í fari þess 16

x

Ný Dögun

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ný Dögun
https://timarit.is/publication/1305

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.