Morgunblaðið - 24.05.1978, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 24.05.1978, Blaðsíða 20
52 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 24. MAÍ 1978 Minning: Pétur Björnsson fyrrv. erindreki Fæddur 25. október 1897. Dáinn 11. maí 1978. Hann var fæddur 25. október 1897 (d. 11. maí 1978). Foreldrar hans voru Björn Guðmundsson og Stefanía Jóhannesdóttir, er lenfji bjugjíu á Á í Unadal í Skagafirði. Af ræktarsemi kenndi Pétur sig löngum við þann bæ. Hann kvænt- ist 1928 Þóru Jónsdóttur, útvegs- bónda í Yztabæ í Hrísey. Þau eignuðust fjögur börn, sem öll eru uppkomin og hafa stofnað sín eigin heimili. Pétur var frá unga aldri karl- mannlegur, mikill að vallarsýn, höfðinglegur og gjörvulegur. Hann var stór í lund og stór í hugsun, og að vissu leyti átti við hann visan sem Fornólfur orti um Björn í Ögri: ll\orl M-m rtyndi á hardra'din rAa hvKujnr djúpt ad Ifirta. <*rta sniiuuh'K snarra*din snúinn \anda aA urciAa. af iiArum a hann har... En hann hafði það fram yfir höfðingjann í Ögri, að hann tamdi skap sitt svo, að fáir vissu hvort honum líkaði betur eða verr, fyrr en hann tók af skarið. En það gerði hann aldrei nema eftir vandlega íhugan. Hann braut hvert mál til mergjar, og þegar hann þóttist viss um hvað réttast væri, hélt hann svo fast við það að honum varð ekki þokað. Og þegar hann hafði tekið ákvörðun, var þar munur að mannsliði. Siglfirðingar geta bezt um þetta dæmt, því að þar eyddi hann manndómsárum sínum. Allir vissu að hann vann af heilum huga að hverju sem hann gekk, og öll ráð hans voru hollráð. Þessa naut Siglufjarðarkaupstaður og mun þess lengi minnst þar. Þau hjónin, Þóra og Pétur, voru samvalin og einhuga, og áttu sér mörg sameiginleg áhugamál. En hjartans mál beggja var baráttan gegn áfengisbölinu. Áratugum saman spöruðu þau hvorki fé né fyrirhöfn í því starfi, enda urðu þau brautryðjendur þar. Var það þeirra mesta gleði að sjá árangur af því starfi. Jafnframt létu þau þá kirkju og safnaðarmál mjög til sín taka, því að þeirra dómi áttu frá kirkjunni að berast straumar þess siðgæðis er getur orðið brimbrjótur á vegi helstefnunnar. Á þessum árum breyttist allur bæjarbragur í Siglufirði mjög til hins betra. Mér kemur ekki til hugar að þakka það Pétri einum, en hann átti áreiðanlega sinn stóra þátt í því, vegna þess að hann lét öll menningarmál staðar- ins til sín taka, og varð frumkvöð- ull að ýmsu því, sem bærinn er nú stoltur af. Hér skal aðeins nefnt tvennt: Sjómannaheimilið og Bókasafnið. Það var að frumkvæði hans að GT-reglan í Siglufirði stofnaði Sjómannaheimilið. Áður höfðu aðkomusjómenn ekki átt þar neitt. athvarf, en þeir voru margir á „sildarárunum". Heimili þetta varð þegar mjög vinsælt, og marga reykvíska sjómenn, já heilar skipshafnir, heyrði ég dást að því og blessa það. Og satt að segja var mikið og erfitt vandamál leyst með stofnun þess. Pétur varð einnig driffjöðurin í endurreisn Bókasafns Siglufjarðar og átti mestan þátt í viðgangi þess. Eftir að Pétur fluttist til Reykjavíkur var hann fulltrúi hjá Áfengisvarnaráði og fékk því að starfa að sínu helgasta áhugamáli þar til yfir lauk og heilsan bilaði. Og það var eins og annað mikið um Pétur, að við þrautir og þjáningar varð hann að berjast um 20 mánaða skeið, áður en lausnin kom. Hann fór ekki varhluta af andstreymi í lífinu vegna langvar- andi sjúkdóms. En þó kalla ég hann gæfumann verið hafa. Hann eignaðist hinn bezta auð, sem til er á jarðríki, góðu konu og góð og gáfuð börn. Hann gat með sanni sagt að heimilið væri sitt vígi, enda var jafnan sérstök reisn yfir heimili þeirra hjóna. Þar var lika gott að koma, hlýleg gestrisni og andrúmsloftið hlaðið af friði og öryggi. Og til þessa heimilis sótti margur hjálp, hugsvölun og kjark þegar á móti blés. Að manni liðnum er ekki um það spurt, hvar hann hafi eytt ævinni, né heldur í hvaða flokki hann hafi verið, eða á hvaða tröppu í mannfélagsstiganum hann hafi staðið . Spurningin er aðeins ein: „Hvað vannstu drottins veröld til þarfa?" Pétur vildi öllum vel og eftir því breytti hann alla ævk Árni Óla. Þegar ég heyrði tilkynningu um andlát Péturs Björnssonar vinar míns og frænda, sagði ég Guði sé lof. Það getur farið svo, að andlát beztu vina og vandamanna sé kærkomin lausn. Þegar ekkert er fram undan nema langvinnt stríð veikinda, er gott að fá hvíld sem jafnvel öllum er kærkomin og í raun og veru gleðiefni. Sárindi og söknuður er þó alltaf samfara láti hinna horfnu vina. Hann hét fullu nafni Pétur Sigurður Halberg segir „Samtíðar- menn“ og hafði ég ekki munað eftir því en hann var fæddur að Brekkukoti í Blönduhlíð, en æsku- heimilið hans var Á í Unadal og við það nafn var Pétur löngum kenndur. Oft heyrði ég Pétur tala um unglingsárin á Á en þar bjuggu foreldrar hans, Björn Guðmundsson og Stefánía Jóhannesdóttir, frá 1906 til 1915 er þau fluttu til Siglufjarðar og nefndu heimili sitt þar Á. I Siglufirði vann Pétur og átti heimili um 43 ár, hann rak þar verslun undir sínu nafni og var með kunnustu borgurum bæjarins. Hann naut trausts allra er honum kynntust og aukastörf hans voru æði mörg. Áhugi hans um Bóka- safn Siglufjarðar og stúkustörfin tel ég þó að hafi verið efst í huga hans og eiga þessi samtök honum mikið að þakka og eru örugglega ómetanleg, veit ég að jafnvel í banalegu hans sem var löng, voru þessi áhugamál efst í vitund hans. Þó að Pétur starfaði að mörgum málum um ævina þá fannst mér að landbúnaður væri alltaf ofarlega í huga hans og búsýsla var honum eiginleg. Því var það að árið 1944 keypti hann jörðina Garð í Hegranesi og rak þar búskap í 7 ár með sinni samhentu og stór- merku konu. Jörðina Garð endur- bættu þau mjög þó erfitt væri að hafa rekstur á tveimur stöðum. Pétri var ekki gjarnt að hlaupa frá einu í annað og eitt sinn sagði hann mér að sér væri mjög nauðugt að þurfa að hætta búskapnum, hann var svo fast mótaður í hverju sem hann tók að sér og vann að. Eftir að Pétur fluttist til Siglu- fjarðar eignaðist hann heimili að Á, fyrst hjá foreldrum sínum en 2. júní 1928 kvæntist hann Þóru Jónsdóttur frá Yztabæ í Hrísey. Hann sagði mér oftar en einu sinni að þá hefði hann stigið sitt mesta hamingjuspor, en nú þegar leiðir skilja eru þau bæði landskunn fyrir störf sín og persónuleika. Heimili okkar Péturs hafa alltaf verið bundin tryggum vinaböndum og raunar fannst mér hann oft vera sem bróðir, má raunar segja hið sama um Þóru frænku því að svo einkennilega vill til að ég er skyldur þeim báðum. Alltaf gistum við hjá Þóru og Pétri er komið var til Siglufjarðar, þar var kærkomið athvarf. Mest og best fann ég þó hlýhuga allrar fjölskyldunnar þegar ég var sjúklingur þar og beið eftir að komast á sjúkrahúsið. Þegar hættulegur uppskurður var afstað- inn og ég talinn í lífshættu sat Pétur yfir mér. Til þeirra fór ég að sjúkrahússVist afstaðinni. Já, þannig voru þau bæði — heilir og óskiptir vinir. Þó að fjölskyldan hafi flutt til Reykjavíkur þá veit ég að hugur þeirra hefir æði oft dvalið á Norðurlandi, því að þar áttu þau traustar rætur. Pétur vann að hugðarmálum sínum hjá Áfengisvarnaráði í raun og veru lengur en heilsa og orka leyfðu. Þessi vinur minn átti oft við vanheilsu að stríða og banaleg- an var löng og erfið, en Þóra, þessi mikilhæfa, trúaða og góða kona, var eins og frá byrjun þeirra hjúskapar hin trausta og góða stoð hans allt til síðustu stundar. Þetta eru einkenni hinna bestu íslensku kvenna þar sem kærleikur og fórnfýsi er hið fyrsta og seinasta. Þóru ásamt börnunum öllum sem tekið hafa í arf einkenni foreldranna sendum við hjónin, Vinirnir frá Bæ, innilegar samúðarkveðjur. Björn í Bæ. Enn hefur verið höggvið stórt skarð í hóp samherja minna og vina. Ég get með sanni sagt, „að nú gerist skammt stórra högga á milli." Fyrir nokkrum dögum kvaddi ég Snorra Sigfússon, og nú andaðist Pétur Björnsson félagi minn og vinur, 11. þ.m. Segja má, að sá atburður hafi ekki komið á óvart og að fagna megi lausn frá þjáningunum eftir veikindastríð, sem stóð látlaust yfir hálft annað ár. Og huggun er það nokkur að geta trúað því, að betra líf og líðan taki við að loknu þessu jarðneska lífsstríði. — En þegar vinur deyr, finnst sjálfsagt fleirum en mér, að strengur slitni í brjósti manns, strengur, sem aldrei hljómar aftur — nema í hörpu minninganna. Þessi tilfinning greip mig heljar- tökum, þegar ég frétti lát Péturs Björnssonar. Það er fljótt sagt, að hann hefir reynst mér sá vinur elliára minna, sem hefir verið mér mestur gleðigjafi á ýmsan hátt, að fráskilinni minni eigin fjölskyldu. Ég kynntist Pétri ekki verulega fyrr en hann flutti til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður áfengis- varnaráðs. Áður hafði ég kynnst honum sem ágætum góðtemplara, sem veitti konu sinni, frú Þóru Jónsdóttur, ómetanlegan stuðning öll þau ár, er hún var stórgæslu- maður unglingastarfs en ég aftur starfandi gæslumaður barnastúku í Reykjavík. Þar unnu þau saman mikið og gott starf í þágu æsku- lýðs íslands. En ég ætla mér ekki að skrá hér ævisögu Péturs, það gera aðrir mér færari og kunnugri yngri árum hans. Ég vil hér aðeins minnast nokkurra sameiginlegra áhuga- mála okkar og þakka nú að leiðarlokum, hve góður og um- hyggjusamur vinur hann reyndist mér síðasta áratuginn, eftir að sjón mín dapraðist og ég varð að hætta öllum félagsstörfum. Það liðu fáir dagar svo, að við töluðum ekki saman, og oft var ég gestur á hinu vistlega og fallega heimili þeirra hjóna. Einnig kynntist ég börnum þeirra hjóna og sumum barnabörnunum og naut velvildar hjá þeim. — Ég get ekki stillt mig um að geta þess hér, að innilegra og betra fjölskyldulífi hefi ég ekki kynnst seinni árin. — Það voru engin vandræði með aldursflokka- bilið á bænum þeim. Kom það best í ljós í veikindastríði Péturs, en ekki skulu hér fleiri orð um það höfð. — Eitt af sameiginlegum áhuga- málum okkar Péturs var bláða- og tímaritasöfnun, einkum varðandi bindindismál. Pétur hafði verið stjórnarformaður bókasafnsins á Siglufirði, og einnig vann hann að stofnun bókasafns okkar góð- templara, áfengisvarnaráðs o.fl., sem ég tel ekki hér. Hann var ákaflega bókfróður maður og sýndi óþreytandi eljusemi í þessu starfi. En allir kunnugir vita, hve erfitt starf er orðið að tína saman gömul blöð og tímarit. Ég minnist þess með ánægju, hvað hann sagði oft við mig, þegar ég heimsótti kunningja mína, að ég skyldi nú athuga, hvort ekki lægi eitthvert blaðarusl uppi á háalofti eða niðri í kjallara hjá þeim! Og sannarlega gerði ég það! Það var mér mikil gleðistund, ef ég gat‘ fært vini mínum einhvern slíkan feng, og að sjá gleðibros hans, ef hann fann eitthvað, sem hann eða aðra vantaði! Hann kynntist fjölda manna úti um allt land, sem áttu sama áhugamál og sendu honum blöð og tímarit. Hann fékk jafnvel blaðasendingar frá Ameríku. — Mörgum hjálpaði hann í þessum efnum. Ekki man ég eftir, að peningar væru nefndir í því sambandi aðeins vöruskipti, — en timatakmörk engin sett. Oft snerust umræður okkar Péturs un bókmenntir og þjóðleg fræði. Hann unni móðurmálinu mjúka og ríka og kunni ósköpin öll í fornum fræðum, t.d. málsháttum og talsháttum. Lærði ég margt af honum í þeim efnum. Hann var eljumaður mikill og ekki gefinn fyrir að geyma það til morguns, sem hægt var að gera í dag, Þá sagði hann oft: „Maður á aldrei ráð á morgundeginum." Og hver neitar því? Hann var ákaflega hagsýnn maður, ráðhollur og góðgjarn. Ég sagði stundum við hann, að ef ég hefði þekkt hann á yngri árum mínum, ætti ég núna stórt íbúðar- hús, því að hann mundi hafa gefið mér svo góð ráð til framkvæmd- anna. — Enn ekki vildi hann nú viðurkenna það. Pétur var gæddur ágætu skop- skyni og gat verið fyndinn og orðheppinn, svo af bar. Hann var gætinn í tali, en hélt fast á sínum málstað. í málflutningi gat hann verið erfiður andstæðingur, en ekki minnist ég þess. að hann legði öðrum illt til. Ef ég ætti að lýsa hinum látna vini mínum í fáum orðum, tæki ég nafn hans til samanburðar. Svo fremi að Pétur þýði hella eða bjarg, þá var hann sannarlega bjarg, sem byggja mátti á, þéttur á velli og þéttur í lund, skapmikill, en hófsamur. Hann gat verið stundum þungur á brún eins og björgin. Sumum virtist máske nokkuð þykk á honum skelin, en þegar inn fyrir kom, var hjartað hlýtt, heitar tilfinningar og samúð með þeim, sem í erfiðleikum áttu. Og tryggari vin gat enginn átt. Svona kom hann mér fyrir sjónir. — Og nóg mun nú samt vera, hygg ég, að hann segði við mig. Að endingu þakka ég ennþá hjartanlega vináttu Péturs Björnssonar og votta elskulegri eiginkonu hans og fjölskyldum þeirra innilega samúð mína. Þau hafa mikið misst, en munu líka þakka fyrir það, sem hinn látni ágætismaður var þeim, og geyma minningu hans í leyndum sjóði hjarta síns. Það munu og aðrir frændur og vinir Péturs Björnssonar gera. Hans mun alltaf verða minnst, sem eins hins besta manns sam- tíðar sinnar. Ingimar II. Jóhannesson. Það hefur verið gæfa íslenskrar bindindishreyfingar frá upphafi vega að innan vébanda hennar hafa jafnan verið sterkir einstakl- ingar, gæddir slíku siðferðisþreki, svo óhvikulli sannleiksást og hiklausri réttlætiskennd, að hvergi varð efast um heilindi þeirra og trúmennsku. Einn slíkra var Pétur Björnsson. — Með honum er genginn einn traustasti og besti maður bindindishreyfing- arinnar á vorum dögum. Hann stóð jafnan trúr og djarfur á verðinum, brá sér hvorki við andstöðu né hik annarra. Hann var eins og sá drangur sem brimskaflar lemja en fá hvergi bifað. Pétur Björnsson var fæddur að Brekkukoti fremra í Blönduhlíð 25. október 1897. Foreldrar hans voru hjónin Stefanía Margrét Jóhannesdóttir og Björn Guðmundsson sem síðar bjuggu um skeið að Á í Unadal og voru löngum kennd við þann bæ. — Foreldrar Stefaníu voru Jóhannes Jóhannesson, bóndi að Horn- brekku í Olafsfirði, og kona hans, Jónanna Guðrún Jónsdóttir. Jóhannes drukknaði af hákarla- skipinu Draupni frá Siglufirði er Stefanía var á öðru ári. Jóhannes, afi Stefaníu, var Pétursson, Arn- grímssonar, bónda á Geirmundar- stöðum í Sæmundarhlíð. Jónanna Guðrún var dóttir hjónánna Önnu Stefánsdóttur og Jóns Dagssonar að Vémundarstöðum í Ólafsfirði. — Foreldrar Björns voru hjónin Valgerður Ölafsdóttir og Guðmundur Gunnarsson, síðast bóndi á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd. Valgerður var dótt- ir Ólafs, bónda á Illugastöðum í Laxárdal og Mallandi, Ólafssonar á Borgarlæk, og Helgu Aradóttur, bónda í Hólkoti á Reykjaströnd, Péturssonar. Guðmundur var son- ur Gunnars, hreppstjóra á Skíða- stöðum, Gunnarssonar, bónda þar, Guðmundssonar. Kona Gunnars hreppstjóra, amma Björns, var Ingibjörg, dóttir Björns, bónda á Herjólfsstöðum og Illugastöðum, og konu hans Sigurlaugar Jóns- dóttur, bónda á Kleif, Þorvalds- sonar, prests í Hvammi í Laxárdal, Jónssonar. Ætt Gunnars er al- kunn, Skíðastaðaætt. Pétur Björnsson ólst upp með foreldrum sínum, fyrsta árið að Brekkukoti, þá á Bakka í Viðvíkur- sveit til 1906 og síðan á Á í Unadal frá 1906 til 1915 en þá flutti fjölskyldan til Siglufjarðar. Þar varð starfsvettvangur Péturs í rúm 40 ár, allt þar til hann gerðist erindreki Áfengisvarnaráðs árið 1955. - Pétur naut góðs uppeldis í skjóli ástríkra foreldra. Ég man þá báða, Björn, blindan öldung en síkátan og hressan, Stefaníu, einstaka gæðakonu og hjálparhellu þeirra er höllum fæti stóðu. Ungur sigldi Pétur til Noregs og vann þar við beykisstörf og fleira árin 1919 og 1920. Er heim kom til Siglufjarðar tókst hann á hendur ýmiss konar störf til ársins 1927 er hann stofnaði verslun sem hann starfrækti til 1958. Eins og fyrr segir hafði hann gerst erindreki Áfengisvarnaráðs 1955 og því flutti hann heimili sitt til Reykja- víkur. Hann gegndi störfum hjá Áfengisvarnaráði til hausts 1976. Um sjö ára skeið, frá 1944, stundaði hann búskap í Garði í Hegranesi samhliða kaupmennsk- unni. Auk þessara aðalstarfa vann Pétur Björnsson að fjölmörgum öðrum málum er til heilla horfðu. Hann var bæjarfulltrúi á Siglu- firði 1946—1950, i niðurjöfnunar- nefnd 1924—1928, endurskoðandi bæjarreikninga 1929—1933, for- maður stjórnar Bókasafns Siglu- fjarðar 1938—1958, formaður áfengisvarnanefndar Siglufjarðar 1935—1958, í stjórn Sparisjóðs Siglufjarðar 1947—1948, í sóknar- nefnd 1936—1960, formaður Sögu- félags Siglufjarðar um skeið, í stjórn Búnaðarfélags Siglufjarðar lengi, í stjórn verkamannafélags í 6 ár, í fyrstu stjórn karlakórsins VÍ3Ís og er þó ekki allt talið. Til að mynda hefur ekki verið minnst á störf hans, mikil og merk, innan bindindishreyfingarinnar. Áður en það verður gert er tilhlýðilegt að geta konu hans, sem átti ómældan þátt í störfum hans og heillum þeim er honum fylgdu, Þóru Jónsdóttur, útvegsbónda frá Ystabæ í Hrísey, Kristinssonar. Þau Pétur giftust 2. júní 1928. Sér hún því á bak manni sínum eftir Framhald á bls. 62.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.