Morgunblaðið - 01.10.1980, Blaðsíða 21
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 1. OKTÓBER 1980
29
tta í gríni“
- sagði v-þýzkur ævintýra-
maður sem staðið hefur utan á
flugvél frá V-Þýzkalandi og ætlar
að halda héðan til New York
með viðkomu í Kanada
Ljfem. Mbl. RAX.
hraða. En ég hef æft íþróttir í þrjú ár
með þetta ferðalag fyrir augum og
reynt að búa mig sem bezt líkamlega
fyrir þessa þolraun," sagði Wagner,
sem var veðurbarinn í framan og
þrútinn í andliti, eins og hnefaleika-
maður sem staðið hefur 15 lotur og
tekið hvert höggið af öðru frá and-
stæðingnum. Að standa uppi á flugvél
á þessum hraða jafngildir því að
staðið sé upp í 80 hnúta mótvindi. Til
samanburðar má geta að 12 vindstig,
sem á ensku máli kallast fellibylur, en
fárviðri á íslenzku, eru aðeins 64
hnútar, en í veðri af því tagi verða
jafnmiklar skemmdir á mannvirkjum.
Má því segja að Wagner standi upp á
vélinni með 15 vindstig í fangið, þótt
mælingar hætti við 12 stig. Og miðað
við að fimm stiga frost var í lofti,
jafngildir vindurinn að kæiingin hafi
verið eins og 30—36 stiga frost, að
sögn veðurfræðinga, „En í þessum
klæðnaði er hann í sínum eigin
heimi," sagði Guðmundur Hafsteins-
son veðurfræðingur í spjalli við Mbl.
„Ef hann fengi hins vegar á sig skúr
yrði kælingin öllu meiri vegna útguf-
unar, þá væri maðurinn eins og votur
hitamælir", sagði Guðmundur.
Þegar þremenningarnir komu til
Reykjavíkur sögðu þeir í viðtali við
blm. Mbl. að þeir ætluðu héðan til
Kulusuk á austurströnd Grænlands.
Fimmti áfanginn yrði svo frá Kulusuk
til Narssarssuaq á vesturströnd
Grænlands, og gætti kvíða í rödd
þeirra er þeir voru spurðir nánar út í
þann áfanga. „Við getum ekki flogið
upp fyrir átta þúsund fet,“ sagði Olbin
Lang flugmaður, „og verðum líklega
að fljúga með ströndinni. Og alla
veðra er von við Grænland, höfum
aldrei flogið þar fyrr, og lítinn vind
þarf til að ókyrrð verði mikil í lofti.“
Reyna beint á
George Bay!
„Getur þú útvegað mér 200 lítra
tunnu fyrir aukatank. Við ætlum að
reyna að fljúga beint á Goose Bay,
höfum ekki nema tíu klukkustunda
flugþol með núverandi búnaði, en
þurfum gott betur,“ spurði Wagner
hins vegar blaðamann Mbl. er blm.
hitti hann á Reykjavíkurflugvelli í
gær þriðjudag. Wagner sagði að veð-
urhorfur væru slæmar fyrir flug á
Kulusuk og vildu þeir eiga þess kost að
komast í einum áfanga til Kanada.
„Utvegaðu okkur endilega plast-
tunnu," sagði Wagner. „Já plast-
tunnu,“ skaut Olbin Lang, hinn há-
vaxni aðstoðarflugmaður Islander-
flugvélarinnar inn í. „En það stríðir á
móti öllum lögum og reglurn flugsins
að vera með eldsneytistanka úr plasti.
I flugvélabenzíni eru efni sem valda
tæringu í plasti,“ sagði blaöamaður
góðlátlega við þá ofurhugana, og benti
þeim á að eina leiðin væri að fá
málmtunnur hjá olíufélögunum, ann-
ars væri bezt fyrir þá að hafa
samband við Svein Björnsson frá
Flugþjónustunni, hann annaðist allar
útlendar flugvélar sem hingað kæmu
og væri öllum hnútum kunnugur.
„Við verðum að komast til Goose
Bay og málmtunna veldur skekkju í
áttavita flugvélarinnar," sögðu Þjóð-
verjarnir og ypptu öxlum. „Það hlýtur
að vera hægt að stilla fyrir þeirri
skekkju,“ skaut blm. að og leit um leið
inn í flugvélina þar sem fyrir voru
þrjú 200 lítra olíuföt úr máimi.
„Höfum takmarkaðan tíma, verðum
að geta haldið áfram ferðinni um leið
og færi gefst," sagði Wagner og
klifraði um leið upp á Islanderinn
fyrir framan Slökkvilið Reykjavíkur-
flugvallar til að þvo farkost sinn.
Köstuðum við þá kveðju hvor á annan.
Þess má geta, að til Goose Bay er
lengri vegur en þremenningarnir eru
búnir að leggja að baki frá Frankfurt
til Reykjavíkur í þremur áföngum. Þá
fregnaði Mbl. í gær, að óvíst væri
hvort þeir gætu haldið ferð sinni
áfram, því kanadísk flugmálayfirvöld
mundu neita þeim að fljúga í kanad-
ísku flugstjórnasvæði vegna ónógs
búnaðar vélarinnar.
Gamall skíðakappi
Jaromi Wagner er 41 árs bílasali frá
bænum Giessen. Hann er af tékknesk-
um ættum, giftur og fjögurra barna
faðir. Hann á sjálfur flugvélina sem
hann keypti sérstaklega til ferðarinn-
ar. Hefur hann flugmannsréttindi, og
á unglingsárum var hann í fremstu
röð skíðamanna í heimalandi sínu.
Þetta ævintýri Wagners og félaga
hans kostar drjúgan skilding. Sagði
Wagner blm. Mbl. að ýmsir aðilar
veittu honum fjárstuðning og var
búningur hans og flugvél merkt
nokkrum þessara aðila. Þá fær hann
nokkur þúsund v-þýzk mörk fyrir
hverja flík sem hann var í, framleið-
endurnir hyggja gott til glóðarinnar
að ferðinni lokinni, hyggjast auglýsa
fatnaðinn og gildi hans í fluginu.
Wagner sagðist hafa ákveðið þetta
ferðalag fyrir tveimur árum, og að
upp frá þeim tíma hefði undirbúning-
ur verið í fullum gangi. Myndir sem
hér fylgja gefa sennilega bezta hug-
mynd um útbúnaðinn sem hann situr
og stendur í utan á flugvélinni. Á
grindinni er eins konar sæti, en
mestan tímann stendur Wagner í
stellingu sem minnir á skíðastökks-
mann til að loftmótstaðan í líkamann
verði sem minnst. Þá er hann í
miklum beltabúnaði, sem minna á
aktygi eins og höfð eru á dráttardýr-
um, en þau tengjast grindinni eins og
bílbelti, í sérstök hjól, og er hann því
ekki spenntur við stólinn. — ágás.
J
Fríðrik Fríðriksson:
Helf örin getur orðið
að veruleika á ný
Nýlokið er sýningum á sjónvarpsþáttunum um Helförina
(Ilolocaust) og Stalín, sem báðir hafa vakið verðskuldaða
athygli. í þessari grein ætla ég að leiða rök að því, að
fjöldamorðin, sem Hitler og Stalín báru ábyrgð á, eru ekki
afmarkaðar athafnir, sem kenna má einstaklingum um,
heldur afleiðing þeirrar valdsöfnunar, sem ætíð á sér stað i
sósíalískum rikjum, hvort sem um er að ræða þjóðernis-
sósialisma (nasisma) eða byltingar-sósíalisma (kommún-
isma).
Ég mun ræða um, hvernig sósíalistar ráðast á efnahags-
kerfi lýðræðisríkja, sem er undirstaða þess þjóðskipulags
og að síðustu benda á, að fjöldamorðin í Hitlers-Þýskalandi
og Stalíns-Rússlandi geta orðið að veruleika á ný, haldi
lýðræðissinnar ekki vöku sinni.
Ertu ekki orðinn þreytt-
ur á þessu, vinur?
Greinar af
sama meiði
Fylgismenn alræðisstefna,
kommúnistar eða nasistar, hafa
alla tíð lagt áherslu á, hversu
ólíkar þessar stefnur eru að eðli,
þar sem önnur telst vera á hægri
kanti stjórnmálanna, en hin á
þeim vinstri. Vissulega má
benda á þætti, sem eru ólíkir í
þessum stefnum, en því verður
ekki neitað, að samlíkingarnar
eru margfalt fleiri og stefnurnar
verða því að teljast greinar af
sama meiði.
Ólafur Björnsson prófessor
gerir þessa samlikingu að um-
talsefni í bók sinni „Frjáls-
hyggja og Alræðishyggja“ frá
1978, þar sem hann bendir á, að
hugmyndafræði beggja stefn-
anna megi rekja til þýska heim-
spekingsins Hegels. Ölafur bend-
ir einnig á þá staðreynd, að
stjórnarfar hefur þróast á svip-
aðan hátt, þar sem nasistar og
kommúnistar hafa náð völdum.
Sem dæmi má nefna, að um er
að ræða einn stjórnmálaflokk,
sem hefur einkarétt á allri
stjórnmálastarfsemi. Sá hinn
sami flokkur er einnig einráður
á sviði lista, vísinda og trúar-
bragða. Mannréttindi, ferða-
frelsi og önnur sjálfsögð réttindi
eru fótum troðin, m.ö.o. er flokk-
urinn allsráðandi.
Þetta og margt fleira er sam-
eiginlegt þjóðfélögum, sem lúta
stjórn kommúnista eða nasista,
ekki vegna breyskleika einstakra
manna, heldur vegna stjórnkerf-
is, sem tekur heildina fram yfir
einstaklinginn. Hinn æðsti til-
gangur verður því að þjóna
ríkinu, stéttinni eða kynflokkn-
um, einstaklingar hafa hvorki
réttindi né tilgang annan en
þann að þjóna hagsmunum
heildarinnar. Það verður því
ekki um að ræða nein persónu-
bundin markmið, heldur einung-
is þau, sem félaginn eða foring-
inn hafa ákveðið. Þeir einstakl-
ingar, sem lúta ekki oki foryst-
unnar, eru beygðir, þeim kyn-
þáttum, sem ekki eru æskilegir,
er útrýmt. Það er einmitt við
þessar aðstæður, sem helfarir
verða mögulegar, sökum þess að
geðþótti stjórnvalda ræður ferð-
inni, og virðing fyrir einstakl-
ingnum er horfin.
Hugleiðingar um skyldleika
kommúnisma og nasisma hljóta
að vakna að lokinni sýningu á
þessum tveimur myndaflokkum.
Menn fyllast gjarnan viðbjóði á
persónunum, sem að baki ódæð-
unum stóðu, en gleyma að at-
huga, við hvaða aðstæður slíkt
varð mögulegt. Menn gleyma
líka að líta sér nær og veita því
athygli, að á íslandi er starfandi
stjórnmálaflokkur, Alþýðu-
bandalagið, sem hefur um 20%
fylgi íslenskra kjósenda og bygg-
í tilefni af sjón-
varpsþáttunum
um helförina og
rauða keisarann
ir á sömu hugmyndafræði og
þeirri, sem gerði helfarirnar
mögulegar. I heiðurssætum
þessa stjórnmálaflokks sitja
ennþá menn, sem vörðu fjölda-
morðingjann Stalín og hafa mér
vitanlega aldrei breytt um skoð-
un á þeim verkum. Það mætti
spyrja sem svo: Halda menn í
raun og veru, að Alþýðubanda-
lagið stefni að yfirráðum á
Islandi með blóðugu valdaráni?
Því er til að svara, að slíkt er
varla takmarkið, aðferðirnar eru
breyttar, en markmiðið er þó
enn hið sama, þ.e. alheimsyfir-
ráð kommúnismans.
Ragnar Halldórsson forstjóri
svarar því raunar mjög vel í
grein í Morgunblaðinu nýlega,
hvernig kommúnistar geta náð
völdum án blóðsúthellinga í lýð-
ræðisþjóðfélögum. Ragnar bend-
ir á, að öruggasta og fljótvirk-
asta leiðin sé að íþyngja þannig
hinu frjálsa efnahagslífi, að
fyrirtækjarekstur sé ómögu-
legur og ríkið taki að sér fyrir-
tækin. Ragnar vitnár t.d. til
reynslu A-Þjóðverja, sem skýrir
þetta betur. Þegar kommúnistar
komust þar í ríkisstjórn, beittu
þeir áhrifum sínum til þess, að
verðhækkanir á vöru og þjón-
ustu voru bannaðar, á meðan
laun og aðrir kostnaðarliðir
fengu að hækka. Samfara verð-
bólgu gekk því fljótt á rekstrar-
fjármuni fyrirtækjanna, sem
þurftu í vaxandi mæli að fá
fjármagn að láni frá ríkisrekn-
um peningastofnunum. Þegar
ástandið hélst síðan óbreytt og
ofan á þetta bættust hækkandi
vextir, kom að því, að fyrirtækin
voru komin á heljarþröm. Ríkis-
valdið brást þá við af „dreng-
skap“ og spurði menn, hvort þeir
væru ekki orðnir þreyttir á
þessu basli. Margir sögðu jú og
ríkið tók yfir fyrirtækin, en þeir,
sem spyrntu við fótum, voru
þvingaðir til uppgjafar með öðr-
um ráðum.
Þetta litla dæmi hefur að
mínu viti mikið gildi fyrir okkur
Islendinga, sökum þess að að-
stæður hérlendis eru óhugnan-
lega líkar þeim, sem voru, þegar
kommúnistar treystu völdin víða
í Austur-Evrópu.
Hérlendis eru kostnaðarhækk-
anir margfalt hærri en leyfðar
verðhækkanir, fyrirtæki eru
ofurseld rekstrarfjármagni frá
ríkisreknum peningastofnunum,
og samfara síauknum skatta-
íþyngingum er rekstrargrund-
völlur einkafyrirtækja löngu
horfinn. Óvíst er, hvenær vin-
samleg orðsending frá ríkisvald-
inu berst eigendum fyrirtækja,
en það eitt er víst, að aðstæðurn-
ar eru hér.
Hrindum ofsóknum gegn
frjálsum atvinnurekstri
Íslenskir kommúnistar, trygg-
ir kallinu, bera mikla ábyrgð á
þessari þróun. Þeir vita sem satt
er, að vald ríkisins verður ætíð
takmarkað á meðan fyrirtækin
eru efnahagslega sjálfstæð, og
þeir vita, að dreifing efnahags-
legs valds er forsenda Iýðræðis-
þjóðfélags.
Kommúnistar vita, að sam-
þjöppun efnahagslegs valds er
fyrsta skrefið, sem stíga verður
til allsherjaryfirráða, sökum
þess að samþjöppun efnahags-
valds og síðar stjórnmálavalds
er ósamrýmanlegt lýðræðinu.
Þær skipulegu ofsóknir, sem
kommúnistar hafa haldið uppi á
hendur frjálsum atvinnurekstri,
hafa ekki mætt þeirri mót-
spyrnu lýðræðisafla, sem nauð-
synleg er og af þeim sökum
fljóta menn sofandi að feigðar-
ósi.
Það hlýtur að verða rökrétt
svar við þessum ofsóknum að
losa um öll höft á sviði við-
skipta- og athafnafrelsis, það
verður að færa skömmtunarvald
stjórnmálamannanna yfir til
markaðsins, sem er eina tækið,
sem tryggt getur efnahagslegt
sjálfstæði einstaklinga. Verði
ekki brugðist við þessari hættu
af alefli, gæti verið stutt í það,
að forsendur nýrrar helfarar
verði ekki fjarlægur möguleiki,
heldur veruleiki.